Valrós Árnadóttir fæddist 3. ágúst 1927. Hún lést 1. febrúar 2021.

Útförin fór fram 12. febrúar 2021.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast Valrósar Árnadóttur eða ömmu Völu eins og ég hef kallað hana frá því að ég var lítið stelpuskott að leika mér hjá henni í Torginu.

Ég var svo heppin að Óli sonur hennar og Inga systir mín bjuggu í kjallaranum hjá henni í Karlsrauðatorgi 12.

Hún á sérstakan stað í hjarta mér þessi ljúfa og fallega kona með hlýja faðminn sem kyssti mig alltaf rembingskossi beint á munninn þegar við hittumst. Þegar amma

Vala var orðin veik og vitað í hvað stefndi fór hugur minn aftur í tímann. Þegar ég var barn brölluðum við amma Vala ýmislegt, margs er að minnast og minnisstæðar eru samverustundirnar við eldhúsborðið að borða eitthvert kruðerí og Alla kíkti kannski yfir í kaffi eða einhver annar, því alltaf var gestkvæmt í Torginu.

Á eldhúsborðinu var líka karfa með alls konar litum naglalökkum sem ég horfði aðdáunaraugum á og auðvitað mátti ég prófa þau öll.

Við skruppum líka stundum upp í bústað, það fannst mér skemmtilegur staður og ég tíndi þar stundum fífur sem uxu rétt hjá og setti þær á leiðið hjá Gandhi, litla svarta púðluhundinum sem amma Vala hafði átt.

Amma Vala sagði mér líka svo margt og ég treysti henni fyrir leyndarmálum og við sungum líka saman. Síðar rifjuðum við oft upp kvöldstundina þegar ég sat upp á eldhúsbekknum og söng inn á kassettu jólalög í bland við önnur lög.

Kassettuna sendum við til Ingu og Óla þegar þau voru búsett í Svíþjóð. Það var alltaf svo gaman hjá okkur, amma Vala var svo skemmtileg.

Það er gott að geta yljað sér við góðar bernskuminningar. Það sem stendur þó upp úr er hversu hlý og góð hún amma Vala var mér alla tíð, bæði þegar ég var barn og eftir að ég varð fullorðin.

Með ást og kærleika kveð ég þig, elsku amma Vala.

Þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu.

Sunna Björk