Jóhanna J. Thorlacius fæddist í Reykjavík 4. maí 1940. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Hafnarfirði 9. febrúar 2021. Foreldrar hennar voru hjónin Jóhannes Zoëga Magnússon prentsmiðjustjóri, f. 7. apríl 1907, d. 13. janúar 1957, og Sigríður Elín Þorkelsdóttir símavörður, f. 27. júní 1909, d. 8. júní 1993. Bróðir Jóhönnu var Þorkell Jóhannesson loftsiglingafræðingur, f. 23. mars 1934, d. 7. apríl 2017, og eftirlifandi kona hans er Vera Dundee Tómasdóttir upplýsingafulltrúi, f. 2. nóvember 1935.
Jóhanna giftist Ólafi Þór Thorlacius deildarstjóra, f. 21. október 1936, 20. maí 1961. Foreldrar hans voru hjónin Guðni Thorlacius skipstjóri, f. 1908, d. 1975, og Margrét Ó. Thorlacius húsfreyja, f. 1909, d. 2005. Systur Ólafs eru Guðfinna Thorlacius, f. 10. mars 1938, d. 22. nóvember 2020, og Margrét G. Thorlacius, f. 28. maí 1940. Börn Jóhönnu og Ólafs eru 1) Margrét Ó. Thorlacius, f. 10. nóvember 1961, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, búsett í Garðabæ, maki Heimir S. Kristinsson, f. 1960 iðnaðarmaður. Börn þeirra eru a) Heiða Lind Heimisdóttir, maki Andri Arnarson, börn þeirra eru Heimir Örn Andrason og Lilja Björk Andradóttir b) Kristinn Bjarni Heimisson 2) Sigríður Elín Thorlacius, f. 8. ágúst 1963, flugfreyja, búsett í Garðabæ, maki Viðar Magnússon, f. 1960, húsasmiður. Börn þeirra eru a) Ólafur Thorlacius Viðarsson, unnusta Sunna Lind Jónsdóttir, sonur þeirra er Birkir Jaki Thorlacius Ólafsson b) Björk Thorlacius Viðarsdóttir 3) Þórdís Thorlacius, f. 8. september 1964, klæðskeri og bókari, búsett í Garðabæ, maki Haukur Hafsteinsson, f. 1964, rafmagnstæknifræðingur. Börn þeirra eru a) Íris Thorlacius Hauksdóttir, unnusti Emil Sölvi Ágústsson b) Davíð Hauksson, sonur hans Maríus Blær Irpu Davíðsson, móðir Irpa Fönn Hlynsdóttir 4) Theodóra Thorlacius, f. 24. maí 1974, líffræðingur, búsett í Sviss, maki Valgeir Ó. Pétursson, f. 1967, kennari, synir þeirra eru a) Ingimar Askur Valgeirsson b) Pétur Elís Thorlacius Valgeirsson c) Snorri Thorlacius Valgeirsson.
Jóhanna ólst upp á Háteigsvegi 28. Fyrstu búskaparár Jóhönnu og Ólafs bjuggu þau á Háteigsvegi, Háaleitisbraut og á Skansinum við Kleppsspítala. Árið 1969 fluttu þau í Garðahreppinn, síðar Garðabæ, og hafa búið þar síðan, lengst af á Markarflöt. Jóhanna lauk námi í hjúkrun 1962 frá Hjúkrunarskóla Íslands og framhaldsnámi í félagshjúkrun frá Nýja hjúkrunarskólanum árið 1981. Hún sótti fjölmörg skemmri og lengri námskeið innanlands og erlendis í tengslum við fagið. Frá útskrift úr hjúkrun vann Jóhanna hjá Ríkisspítölum, fyrst á Landspítala í nokkur ár með hléum, en flutti sig yfir á Kleppsspítala 1966 og starfaði þar í þrjú ár. Þá vann hún um árabil sem skólahjúkrunarfræðingur í Flataskóla í Garðabæ og hjúkrunarfræðingur á Borgarspítala. Hún færði sig síðar yfir á geðdeild Landspítala á Vífilsstöðum og starfaði þar sem deildarstjóri til starfsloka árið 2002.
Útförin fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 24. febrúar 2021, klukkan 13.
Minningarljóð til mömmu
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Sigríður (Sigga),
Þórdís (Tollý) og
Theodóra (Tinna).
Elsku amma hefur kvatt. Það er ótrúlega erfitt fyrir okkur að skilja að það sé ekki lengur hægt að koma í heimsókn eftir langa viku og geta talað um allt, þar sem ekkert umræðuefni gat verið of skrítið. Hún sýndi öllu sem við gerðum svo mikinn áhuga og beið spennt eftir næstu sögum.
Saman munum við þó best að amma var alltaf með góðgæti til fyrir okkur, annaðhvort vaxandi á berjatrjám nálægt eða falið í nammihillunni vinsælu sem við máttum alltaf vaða í áður en sest var niður til að horfa á skrípó.
Þessi hilla sem síðar breyttist í skúffu í nýju húsi hefur ávallt fylgt henni og eftir að við barnabörnin urðum stór fóru barnabarnabörnin að njóta góðs af. Á jólunum setti amma líka alltaf upp jóladagatal og ef nammið kláraðist af því þá var hún alltaf til í að fylla á það aftur enda mun skemmtilegra að opna litla pakka með nammi heldur en að fá það beint í hendurnar.
Ef okkur leiddist þá átti amma alltaf til einhver verkefni fyrir okkur að gera. Það gat verið dund eins og að brjóta servíettur eða stærri verkefni eins og að fara út og hjálpa til í garðinum.
Amma var mikill grænkeri. Það var alltaf gaman að koma til hennar og fá að kíkja í garðhúsið og hjálpa henni við að vökva blómin. Ef það sullaðist niður þá var það nú ekki mikið mál.
Úr garðhúsinu lá svo leiðin í garðinn hennar sem var alltaf eins og ævintýraland, með leynistígum og góðum stöðum til að fela sig á.
Þar fannst okkur ótrúlega gaman að leika. Amma var líka mikill vinur blýflugna og geitunga, sem okkur fannst nú svolítið skrítið, en hún hafði góða ástæðu fyrir því enda hugsuðu flugurnar svo vel um blómin hennar.
Amma vildi alltaf kveikja á kerti fyrir okkur á merkilegum stundum í okkar lífi. Hvort sem það var vegna erfiðs prófs, stórs fyrirlesturs eða mikilvægs viðtals, þá trúði hún því alltaf að best væri að láta ömmu Jó vita af þeim viðburðum svo hún gæti kveikt á kerti fyrir okkur á meðan. Hún trúði því að allt gengi betur ef amma væri með í anda, sama hvernig stæði á.
Nú kveikjum við á kerti fyrir ömmu Jó. Þín barnabörn
Heiða Lind Heimisdóttir
Ólafur Thorlacius Viðarsson, Kristinn Bjarni Heimisson, Björk Thorlacius Viðarsdóttir, Íris Thorlacius Hauksdóttir, Davíð Hauksson, Ingimar Askur Valgeirsson, Pétur Elis Thorlacius Valgeirsson, Snorri Thorlacius.