Gísli V. Halldórsson fæddist á Staðarfelli í Dalasýslu 19. september 1943. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Brákarhlíð 16. febrúar 2021. Foreldrar hans voru Halldór E. Sigurðsson, f. 9. september 1915, d. 25. maí 2003, og Margrét Gísladóttir, f. 5. júlí 1916, d. 9. nóvember 2004. Árið 1955 fluttist fjölskyldan frá Staðarfelli í Borgarnes. Systkini Gísla eru Sigurður Ingi, f. 2. mars 1952, og Sigurbjörg Guðrún, f. 4. júní 1955. Uppeldisbróðir Gísla er Sveinn Hallgrímsson, f. 5. júlí 1936.

Gísli kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni Guðrúnu Birnu Haraldsdóttur, f. 5. mars 1955, á sumardaginn fyrsta 1978. Foreldrar hennar voru Haraldur Björnsson, f. 1912, d. 1973, og Sigrún Jónsdóttir, f. 1915, d. 2011.

Börn þeirra eru: 1) Margrét Halldóra, f. 15. febrúar 1978, gift Hlyni Ólafssyni, f. 1978. Börn þeirra eru Alexander Gísli, f. 2000, og Nína Björk, f. 2006. 2) Sigrún Halla, f. 27. mars 1980, gift Ronny Elvin Mathiasen, f. 1976. Synir þeirra eru Sebastian Gísli, f. 2011, og Benjamin Hugi, f. 2014. 3) Kristín Heba, f. 17. desember 1985, gift Arnari Þór Arnarssyni, f. 1983. Sonur þeirra er Sigmar Gísli, f. 2019. 4) Aðalsteinn Hugi, f. 27. júní 1991. Sambýliskona Alexandra Arnardóttir f. 1990. Dóttir þeirra er Arnheiður Edda, f. 2020. Áður átti Gísli dótturina Guðrúnu Dóru, f. 9. september 1963, gift Páli Snæbjörnssyni, f. 1962. Börn þeirra eru Daði Snær, f. 1988, og Arna, f. 1989. Barnsmóðir Gísla er Soffía Jónsdóttir, f. 1939. Gísli var kvæntur Svanhildi Tessnow, f. 30. mars 1935, d. 7. júní 1997. Þau slitu samvistir.

Gísli kom að ýmsum atvinnurekstri í Borgarnesi og var öflugur í félagsstarfi. Hann lærði bifvélavirkjun og starfaði lengi vel á Bifreiða- og trésmiðju Borgarness og á Prjónastofu Borgarness auk þess sem hann sat í stjórn Vírnets um árabil. Hann stofnaði og rak ásamt eiginkonu sinni TÁP skóframleiðslu og GH verkstæðið. Seinni ár starfaði hann hjá Sólfelli og sem húsvörður bæði í Grunnskólanum á Varmalandi og í Borgarnesi.

Gísli kom að margs konar félagsstarfi og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var virkur félagi í Rótarýklúbbi Borgarness, Framsóknarflokknum, UMSB, körfuknattleiksdeild Skallagríms, Verkstjórafélaginu, kom að skipulagningu og framkvæmd Landsmóts UMFÍ í Borgarnesi og Húsafellsmótunum svo eitthvað sé nefnt.

Útförin fer fram frá Borgarneskirkju 24. febrúar klukkan 14 að viðstöddum fjölskyldu og nánustu vinum. Útförinni verður streymt á youtube-rás Borgarneskirkju. Stytt slóð:

https://tinyurl.com/6k2wel1o

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Þegar ástvinur kveður leitar hugurinn til fortíðar og lífshlaup þess sem genginn er rifjast upp. Þó svo dauðinn sé hluti af lífinu og hjá pabba hafi hann verið ákveðin líkn þá er ekki hægt að búa sig undir þær tilfinningar sem skjóta upp kollinum þegar ástvinur kveður.

Fjöldi minninga kemur upp í hugann sem verða verðmætar í sorginni. En minningarnar sem hafa rifjast upp og vitjað okkar systkinanna eru góðar, þær hafa gefið tilefni til hláturs og hlýrra hugsana um pabbann sem við minnumst.

Pabbi var góður maður, blíður, hrifnæmur, fylginn sér, ráðagóður, forvitinn, áhugasamur, mikill snyrtipinni, forfallinn bílaáhugamaður, framsóknarmaður, Rótarýfélagi og svo margt fleira.

Á þessum þungbæru tímamótum er tími til að rifja upp og velta fyrir sér hvernig minningu við munum halda á lofti og hvaða eiginleika, siði og venjur við höfum fengið í arf og viljum að lifi. Eitt af því sem einkennir okkar uppvöxt er hversu auðvelt var að leita ráða hjá foreldrum okkar, þar sem þau sögðu okkur ekki hvað við ættum að gera heldur var rætt fram og til baka um kosti og galla þess að taka ákvörðun. Við eigum öll dýrmætar minningar af líflegum umræðum við eldhúsborðið þar sem var talað við okkur sem jafningja. Pabbi var áhugasamur um það sem við tókum okkur fyrir hendur, hrósaði þegar vel gekk og stóð með okkur þegar illa gekk. Þessi samtöl og stuðningur er veganesti inn í framtíðina og litar uppeldi okkar systkinanna á eigin börnum.

Síðan eru ótal sögur sem lifa með okkur og lýsa svo vel hvernig pabbi var. Til dæmis hvernig pabbi vildi ferðast um landið. Hann hafði engan áhuga á náttúrunni heldur vildi komast á milli bæja á sem stystum tíma. Fara niður á bryggju, þrífa bílinn á bílaþvottaplani bæjarins, leita uppi heimafólk og yfirheyra það um íbúafjölda, íbúaþróun, hversu mörg börn væru í leikskóla og grunnskóla og hverjir væru helstu atvinnuvegir.

Þá var tímabært að halda beinustu leið í næsta pláss og endurtaka leikinn. Áhugi pabba á samfélagi þeirra sem hann gerði sér far um að hitta á ferðum sínum um landið er ágætur vitnisburður um þann áhuga sem hann hafði á eigin samfélagi.

Einnig hefur eitt og annað sem einkenndi pabba rifjast upp seinustu daga og þar á meðal framúrskarandi röðunarhæfileikar hans. Ef haldin hefði verið keppni í að pakka í bíl þá er hægt að fullyrða að pabbi hefði sigrað. Það skyldi ekkert drasl vera inni í bílnum og hann gat komið ótrúlegu magni af farangri í skottið. Sá böggull fylgdi þó skammrifi að oft og tíðum passaði nestistaskan best innst í skottinu og var þá ekki fyrir neinn annan en pabba að ná aftur úr skottinu. Það sem skipti höfuðmáli í þessu samhengi var að bíllinn væri snyrtilegur og algjört aukaatriði hvort það kostaði að nánast allt þyrfti upp úr skottinu við næsta nestisstopp.

Í dag kveðjum við pabba eftir löng og ströng veikindi. Pabbi skilur eftir sig ótalmargar minningar, hefðir og venjur sem lifa áfram með okkur. Hvíl í friði elsku pabbi.

Margrét Halldóra,

Sigrún Halla,

Kristín Heba

og Aðalsteinn Hugi.

Elsku bróðir

Nú er komið að kveðjustundinni. Gísli var tólf ára og ég þriggja ára þegar fjölskyldan fluttist frá Staðarfelli í Borgarnes. Sigurbjörg systir fæddist á öðrum degi okkar í Borgarnesi. Gísli var minn stóri bróðir og móðir okkar sagði mér að hann hefðir verið einstaklega góður og þolinmóður við litla bróður sinn.

Gísli hefur síðan búið í Borgarnesi og verið stoltur af sínum heimabæ og látið sig hag bæjarfélagsins skipta. Gísli lét félagsmál mikið til sín taka, hann var í Rotaryklúbbi Borgarness, tók þátt í starfi Ungmennafélags Borgarfjarðar, var dyggur stuðningsmaður körfuboltadeildar Skallagríms, í Verkstjórasambandi Íslands og sat í stjórn Vírnets.

Þá var Gísli mjög pólitískur og ákafur stuðningsmaður Framsóknarflokksins, hann tók þátt í starfi flokksins í sinni heimabyggð og var fulltrúi á flokksþingi um árabil. Við bræðurnir ræddum oft um pólitík og var sýn Gísla að hlutverk þeirra sem helguðu starfkrafta sína pólitíkinni væri einna helst að koma af stað arðbærum framkvæmdum við innviðauppbyggingu, s.s. vegagerð, svo ekki sé nú talað um brúargerð, til að skapa atvinnu og annan ávinning til skemmri og lengri tíma.

Gísli veitti forstöðu rekstri fyrirtækja í Borgarnesi um árabil. Hann var verksmiðjustjóri hjá Prjónastofu Borgarness og framkvæmdastjóri Bifreiða- og trésmiðju Borgarness og rak síðan sjálfur GH bifreiðaverkstæðið. Rekstri þessara fyrirtækja fylgdu mannaforráð fjölda starfsmanna, sem fórust honum vel úr hendi þar sem hann átti mjög létt með öll mannleg samskipti.

Á yngri árum skipti Gísli ört um bíla, móður okkar þótti nóg um þessi tíðu bílaskipti Gísla því hún vissi aldrei hvaða bílategund hann átti og var farin að spyrja eingöngu hvernig er nýjasti bíll Gísla á litinn.

Í fjölskyldu okkar Gísla er talan 66 mjög vinsæl. Þetta byrjaði hjá föður okkar en Gísli bætti um betur. Um tíma áttum við feðgarnir bíla með númerunum M-66, M-166 og M-1166. Ég held að flest símanúmer okkar innihaldi 66 og eflaust fleiri númer sem nauðsynlegt er að hafa. Ekki veit ég hvort þurfi að hafa aðgangsorð að Gullna hliðinu þegar þangað er komið en fyrir Gísla ætti 66 að gilda.

Gott var að leita til Gísla og ræða málin þegar eitthvað stóð til því hann var bæði áhugasamur og ráðagóður, einnig var hann mjög greiðvikinn.

Veikindi Gísla hafa varað í nokkur ár. Það hefur verið erfitt að fylgjast með heilsunni gefa sig smátt og smátt. Fyrir rúmum hálfum mánuði lét Guðrún okkur vita að stutt gæti verið eftir hjá Gísla. Þann 12. febrúar sl. fórum við Steinunn upp í Borgarnes og heimsóttum Gísla á elliheimilinu Brákarhlíð. Við áttum fallega stund með Gísla þar sem ég rifjaði upp með honum sögur frá Staðarfelli og úr Borgarnesi. Gísli sýndi ótrúleg viðbrögð, tók undir og bætti við af veikum mætti en skiljanlega þó, brosti oft og jafnvel hló. Þessi kveðjustund var okkur ómetanleg og munum við geyma hana í minningu um yndislegan bróður og mág, sem okkur þótti mjög vænt um.

Við Steinunn vottum Guðrúnu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum innilega samúð.

Þinn bróðir,

Sigurður.

Kær bróðir minn Gísli er nú fallinn frá allt of fljótt eftir erfið veikindi.

Gísli var elstur okkar systkinanna en fjölskyldan bjó á Staðarfelli í Dölum þar til hann var 12 ára er flutt var í Borgarnes. Gísli bar ætíð mjög sterkar taugar í Dalina. Á Staðarfelli var húsmæðraskóli og var Gísli fljótur að koma sér í mjúkinn hjá námsmeyjunum og lét ekkert stoppa sig þar, skreið undir hliðið heim að skólanum þar til hann gat opnað það sjálfur. Þriggja ára gamall drakk hann kaffi með námsmeyjunum, sem olli mömmu og ömmu nokkrum áhyggjum, þær brugðu á það ráð að setja salt í sykurkarið, en Gísli hafði aldrei bragðað eins vont kaffi, og snarhætti allri kaffidrykkju.

Gísli lærði bifvélavirkjun á BTB í Borgarnesi. Þrátt fyrir vélavinnu var hann ætíð með hreinar og fínar hendur, enda mikið snyrtimenni, ef vatn og sápa dugði ekki til að þrífa hendurnar í lok vinnudags var gripið til smjörlíkis svo unnt væri að ná óhreinindunum burt.

Þeir voru ófáir bílarnir sem Gísli átti um ævina, hann fékk bílnúmerið M-66 á fyrsta bílinn, gæti trúað að fastbílnúmerakerfinu hafi verið komið á svo ekki þyrfti stöðugt að vera að flytja M-66 á milli bíla. Ætíð voru bílarnir tandurhreinir og stífbónaðir.

Mikill dugnaður, verkstjórn og skipulag einkenndi bróður minn og nutum við systkinin og foreldrar okkar þess oft, ekki síst þegar framkvæmdir voru við sumarbústað fjölskyldunnar, hvort sem grisja þurfti gróðurinn eða laga húsið, þá tók Gísli stjórnina og við hin reyndum að fara að fyrirmælum.

Félagsmál, samfélagsleg ábyrgð, framsækið atvinnulíf og framkvæmdir voru áhugamál bróður míns, og líktist hann pabba mikið þar. Gísli bar hag Borgarness og nærumhverfis ætíð fyrir brjósti. Hann var mjög virkur innan Framsóknarflokksins, Skallagríms, UMSB, Rótarý og einnig innan Verkstjórasambandsins. Öll voru þau störf unnin í sjálfboðavinnu.

Töluverður aldursmunur var á okkur Gísla, en hann flutti að heiman um það leyti sem ég byrjaði í barnaskóla, en eftir að ég varð fullorðin og þau Gunna byrjuðu að búa hefur samband okkar verið mikið og gott, þau bæði glaðsinna, afar samhent, hörkudugleg, bæði mikil snyrtimenni með myndarleg hóp í kringum sig, börnin fjögur, tengdabörn og barnabörn.

Sumarbústaður fjölskyldunnar í Svartagili var í gegnum tíðina mikill samkomustaður okkar, og einnig var mjög oft komið við hjá þeim Gunnu og Gísla á leið til eða frá bústaðnum.

Við höfum heilmargt skemmtilegt gert saman í gegnum tíðina, Gísli og Gunna og við Kristján. Fyrir 27 árum fórum við ásamt börnum í mjög skemmtilega ferð til Mallorca, ógleymanleg er ferð til Parísar þegar við Borgarnesvinkonurnar urðum fimmtugar, einnig höfum við farið saman í margar útilegur og ferðalög um landið.

Ég kveð minn kæra bróður með þökkum fyrir allt og allt.

Gunnu, Möggu, Sigrúnu, Kristínu Hebu, Alla og fjölskyldum vottum við fjölskyldan innilega samúð.

Sigurbjörg Halldórsdóttir.

Í dag kveðjum við Gísla Vilhjálm Halldórsson, frænda minn og vin. Ég fylgdist með honum í æsku, sá þennan ljóshærða strák vaxa úr grasi og verða að virtum og gegnum borgara. Gísli lærði bifvélavirkjun hjá BTB undir leiðsögn Karels Einarssonar. Hann taldi það gæfu sína að hafa fengið þennan vandvirka og flinka leiðsögumann sem Karel var. Gísli var einn af stofnendum Prjónastofu Borgarness hf. og var verksmiðjustjóri og hægri hönd framkvæmdastjóra. Hann og Sigurborg sáu um að aldrei fór illa frá gengin eða gölluð flík úr húsi. Velgengni Prjónastofunnar var ekki síst Gísla að þakka. Eftir langt og giftudrjúgt starf hjá Prjónastofu Borgarness breytti hann um starfsvettvang og stofnaði eigið fyrirtæki, rak um tíma bifreiðaverkstæði í Borgarnesi. Snyrtimennska var Gísla í blóð borin og kom það greinilega fram á verkstæðinu hjá honum. Haft var á orði að þar væri allt pússað og fínt eins og í stássstofu. Þar átti Guðrún Birna sinn þátt. Allt sem Gísli sagði og gerði stóð eins og stafur á bók. Hann hafði yndi af samskiptum við fólk, tók þátt í félagslífi, var lengi í stjórn UMSB og meðal annars þegar hin eftirminnilegu Húsafellsmót voru haldin. Hann var einnig virkur í starfi Framsóknarflokksins. Alltaf tilbúinn að starfa, vinna verkin, ekki bara tala. Hér verða ekki talin upp öll þau félagsmálastörf sem Gísli tók að sér. Þó er ekki hægt annað en minnast á áhuga hans á gengi UMF Skallagríms, hvort heldur var í körfubolta eða öðrum íþróttum. Hann var ómissandi á pöllunum. Ég leit á Gísla sem fósturbróður minn. Hann og fjölskylda hans sýndu mér og mínum vináttu í verki. Hann tók á móti okkur þegar við fluttum í Borgarfjörðinn, var hjálparhella okkar meðan við vorum að aðlagast nýju umhverfi og viljum við þakka fyrir það. Hann var sannarlega vinur í raun. Hans er sárt saknað.

Við Gerður og fjölskylda vottum Guðrúnu Birnu og fjölskyldu innilega samúð og þökkum vináttu og ánægjuleg samskipti á liðnum árum.

Sveinn Hallgrímsson.

Gísla má minnast fyrir margt gott, þótt sérstaklega sé mér minnisstætt tvennt. Ég kynntist Gísla fyrst sem félagsmálamanni, virkum í ungmennafélagshreyfingunni, sérstaklega innan UMF Skallagríms og UMSB og síðar sem húsverði við Varmalandsskóla. Hvar sem Gísli kom að starfi lagði hann metnað sinn í vandaða og fágaða vinnu, ekkert skyldi spara til þess að ná árangri. Þetta kom vel fram við rómaðar Húsafellshátíðir og við kaup UMSB á húsnæði í Borgarnesi. En sá kostur og eiginleiki sem Gísli hafði fram yfir okkur mörg var einstök snyrtimennska hans. Þegar hann rak ásamt konu sinni Guðrúnu Birnu bílaverkstæði úti í Brákarey sást aldrei að þar færi nokkur bifreið inn. Allt þrifið og pússað. Ég var svo heppinn að fá að starfa með Gísla þegar hann réðst til Varmalandsskóla eitt skólaár. Þar sáust spor hans um allt hvort sem var innanhúss eða úti á skólalóð. Virðing, umhirða og ræktun lands og lýðs var hans aðalsmerki. Þótt við félagar værum ekki skoðanabræður í pólitík bar aldrei skugga á samstafið. Ein lítil saga. Ég hafði orð á því að gaman væri að mála hurðir í kjallara skólans. Og viti menn. Nokkrum dögum síðar var minn maður búinn að mála og kallaði á mig. Mig rak í rogastans. Nú voru þær rauðar en ekki grænar. „Því breyttirðu um lit, Gísli?“ spurði ég. Og svarið kom strax. „Hvað gerir maður ekki fyrir vini sína?“

Guðrúnu Birnu og fjölskyldu sendum við Kristín Ingibjörg okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Flemming Jessen.

Margs er að minnast nú við fráfall félaga okkar Gísla V. Halldórssonar sem lést 16. febrúar síðastliðinn. Ungur að árum tók hann þátt í félagslífinu í Borgarnesi og var meðal annars alla tíð virkur og áhugasamur ungmennafélagi. Gísli gekk til liðs við Rótarýklúbb Borgarness árið 1971, því vantar nú einungis fáeina mánuði að hann hefði náð 50 ára samferð með klúbbnum. Hann var sannur rótarýfélagi og hafði gegnt öllum embættum í stjórn klúbbsins og sumum oftar en einu sinni, t.d. var hann tvívegis forseti klúbbsins. Gísli var glaðsinna maður, snyrtivirkur, samviskusamur og vandaður í orði og athöfnum, maður sem virkilega var gaman að vinna með. Fyrr að árum voru klúbbfundir haldnir vikulega allt árið um kring og ýmislegt þar til gamans gert og gagns fyrir klúbb og samfélag. Í klúbbstarfinu komu kostir Gísla vel í ljós; brennandi áhugi fyrir viðfangsefninu og mikill dugnaður. Hann tók virkan þátt í umræðum á fundum klúbbsins og var hrókur alls fagnaðar á góðri stundu. Gísli var mjög minnugur á liðna atburði og var gaman að heyra hann segja frá á sinn skemmtilega og glaðværa máta. Hann var góð fyrirmynd og leiðbeinandi nýrra félaga þegar þeir voru að stíga sín fyrstu skref í störfum innan klúbbsins. Í klúbbstarfinu var Gísli lengi vel burðarásinn og skipulagshæfileikar hans nýttust vel; undirbúningur árshátíða, starfsfræðsludagar, atvinnusýningar og hvaðeina, allt gert í réttri röð og á réttum tíma og hann lét ekki bíða eftir sér. Þá kom Gísli einnig mikið að undirbúningi þeirra þriggja umdæmisþinga sem klúbburinn stóð að á félagstíma hans. Klúbbfundi sótti hann mjög vel, enda náði hann nokkrum sinnum 100% mætingu yfir heilt starfsár. Klúbbfundir eru oft haldnir utan hins venjulega fundarstaðar og þar á meðal á heimilum rótarýfélaga. Margsinnis buðu þau Gísli og Guðrún okkur félögunum heim við rausnarlegar móttökur og notalegt spjall. Slíkra stunda er meðal annars gott að minnast nú. Fyrir allmörgum árum heiðraði klúbburinn Gísla með veitingu Poul Harris-orðunnar fyrir áratuga farsælt starf í þágu klúbbs og samfélags. Við rótarýfélagarnir söknum góðs vinar og þökkum honum samleiðina og vottum Guðrúnu og fjölskyldunni allri innilega samúð.

Fyrir hönd félaga í Rótarýklúbbi Borgarness,

Guðmundur Þ.

Brynjúlfsson.

Í dag verður til moldar borinn góður vinur, Gísli V. Halldórsson í Borgarnesi. Gísli fæddist á Staðarfelli á Fellsströnd í Dölum og átti sína bernsku þar, en fluttist með fjölskyldu sinni í Borgarnes vorið 1955 þar sem faðir hans hafði tekið við starfi sveitarstjóra. Búferlaflutningar fara ekki alltaf vel í unga fólkið sem er þar með skilið frá jafnöldrum og vinum en Borgarnes tók Gísla vel. Teningunum var kastað um framtíð hans og þaðan í frá var hann fyrst og síðast Borgnesingur. Hann bar heill og hag Borgarness fyrir brjósti alla tíð, bæði í orði og verki, kom víða við, bæði sem óbreyttur starfsmaður, lærður bifvélavirki, verkstjóri, framkvæmdastjóri og atvinnurekandi. Gísli var athafnasamur og orkumikill en eitt sem einkenndi hann öllu öðru framar var snyrtimennska og reglusemi í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur.

Gísli var mikill félagsmálamaður og á þeim vettvangi kom hann einnig víða við og þar mættumst við tveir. Kynni okkar voru lítil á unglingsárum en það átti eftir að breytast þegar leiðir okkar lágu saman á vettvangi ungmennafélaganna þegar við báðir, fyrir meira en hálfri öld, vorum komnir í forystusveit fyrir okkar ungmennafélög. Þá var ungmennafélagshreyfingin hér í héraðinu í mikilli uppsveiflu undir forystu silfurmannsins Vilhjálms Einarssonar og einnig á landsvísu undir forystu Hafsteins Þorvaldssonar. Þetta voru menn sem hrifu aðra með sér. - En nú er komið að Húsafellsmótakaflanum hugsa einhverjir og geta sér rétt til. Fyrsta sumarhátíðin í Húsafelli á vegum UMSB var haldin um verslunarmannahelgina 1967 og áttu þær sér síðan lífdaga um tíu ára skeið. Á þeim vettvangi kynnumst við Gísli betur og árið 1971 erum við komir í innsta hring, kjörnir í stjórn UMSB og Ófeigur heitinn Gestsson ári síðar, allir sjóaðir Húsafellsmótamenn. Fram undan voru fleiri Húsafellsmót en einnig var UMSB með í undirbúningi þjóðhátíðar í héraði 1974 og framkvæmdaaðili ásamt Umf. Skipaskaga að Landsmóti UMFÍ 1975. Allt brasið í kringum þetta starf treysti vináttuböndin sem hafa haldið meðan allir lifðu. Það hefði mátt þess vegna kalla okkur þríeyki. Við Gísli áttum einnig samleið undir merkjum Framsóknarflokksins, þó aðallega í baklandinu. Þar vildi Ófeigur ekki vera og við Gísli umbárum það. Í seinni tíð voru tíðari samfundir okkar allra gleðiefni og innlegg í sjóð minninganna.

Undanfarin ár hafði Gísli átt við veikindi að stríða, þó ekki þannig að hann væri ekki líkamlega hraustur og frár á fæti. En hann var rændur sjálfinu smátt og smátt sem gerði tengsl hans við raunheima sífellt óskýrari. Þó var sem opnuðust gluggar af og til og varð allt um stund sem áður væri. Anga af þessu þekkjum við flest þegar árin færast yfir eins og t.d. þegar við gleymum nöfnum einhverra en náum þó oftast að rifja þau upp. En sem eiginleg veikindi er það bæði þeim sem við slíkt glíma og ástvinum erfitt að upplifa.

Elsku Guðrún Birna og fjölskylda, systkini og fjölskyldur þeirra. Við Guðrún Ása sendum ykkur innilegar hluttekningarkveðjur. Blessuð sé minning Gísla V. Halldórssonar.

Jón G. Guðbjörnsson.