Jón Ívar Einarsson
Jón Ívar Einarsson
Eftir Jón Ívar Einarsson: "Nýjar upplýsingar um virkni Covid-19-bóluefna kalla á ferska nálgun. Mikilvægt er að stjórnvöld íhugi að breyta um stefnu til að flýta opnun landsins."

Framtíðin er björt. Heimsfaraldur af völdum Covid-19 virðist í rénun og hefur nýjum tilfellum á heimsvísu fækkað um 50% á sl. 30 dögum. Meira að segja í Bandaríkjunum hefur tilfellum fækkað um 75% síðan hápunktinum var náð. Dauðsföllum hefur ekki fækkað eins mikið, en líklegt er að þeim fækki hratt á næstu vikum. Eflaust hafa bólusetningar eitthvað um þetta að segja en jafnframt virðist stór hluti sumra þjóða hafa smitast af Covid-19, sem hægir á faraldrinum. Það er t.d. talið að a.m.k. 100 milljónir Bandaríkjamanna hafi smitast. Faraldurinn virðist nánast yfirstaðinn á Indlandi þrátt fyrir að bólusetningar séu rétt að byrja þar. Faraldurinn gæti því stöðvast að mestu náttúrulega í sumum löndum (sbr. Indland), með samblandi af bólusetningum og náttúrulegu ónæmi (sbr. Bandaríkin) og að mestu með bólusetningum eins og t.d. á Íslandi. Ekki er vitað hversu lengi náttúrulegt ónæmi gegn Covid-19 endist, en það er vitað að endursýkingar eru mjög fátíðar (innan við 1%) og einnig hefur t.d. fundist ónæmissvar við spænsku veikinni hjá einstaklingum sem fengu þá pest mörgum áratugum fyrr. Óvissa ríkir um virkni bóluefna gegn stökkbreyttum afbrigðum en hingað til virðist hún nokkuð góð.

Fyrri skammtur gefur góða vernd

Nú berast líka þær góðu fréttir að fyrri skammtur Pfizer-bóluefnis virðist gefa nálægt 85-90% vernd gegn Covid-19. Seinni skammturinn hækkar þessa tölu upp í 95%. Moderna-bóluefnið gefur 80% vörn eftir fyrsta skammt. Seinni skammturinn eykur því virkni ekki mikið. Jafnframt er mikilvægt að hafa í huga að þeir fáu sem sýkjast eftir fyrri bólusetningu fá yfirleitt væg einkenni og eru alvarleg veikindi afar sjaldgæf í þessum hópi. Nú er ekki vitað hversu lengi bóluefnin verja okkur og á það við bæði ef við fáum einn skammt eða tvo. Hins vegar eru vísbendingar um að jafnvel sé betra að bíða lengur með seinni skammt bóluefnis til að fá langtímavernd, eins og sýndi sig t.d. í bólusetningum við HPV-sýkingu. Við vitum samt vissulega ekki hvað er best að gera til að hámarka langtímavernd bóluefna gegn Covid-19 en ólíklegt er að það minnki langtímavirkni að seinka seinni skammti um tvo mánuði.

Bretar tóku djarfa ákvörðun

Bretar tóku þá ákvörðun að seinka gjöf seinni skammts bóluefna og gefa hann þremur mánuðum seinna. Þetta er gert til þess að hægt sé að bólusetja sem flesta á sem skemmstum tíma og þannig hámarka vernd bóluefna fyrir samfélagið í heild. Svo virðist sem Bretar hafi veðjað á réttan hest og hefur nýsmitum í Bretlandi fækkað um 80% síðan 10. janúar, þrátt fyrir hið „bráðsmitandi“ breska afbrigði. Þegar niðurstöður rannsókna gefa til kynna mjög góða vernd eftir einn skammt bóluefnis þá er siðferðilega erfitt að réttlæta að láta hluta fólks vera algjörlega óvarið á meðan aðrir fikra sig úr 90% í 95% vernd. Þetta á sérstaklega við í löndum þar sem faraldurinn er útbreiddur og margir deyja af hans völdum á degi hverjum.

Staðan á Íslandi

Við búum svo vel að eiga heima á strjálbýlasta landi Evrópu og að vera eyja lengst norður í hafi. Við erum líka vel upplýst þjóð og lítið og samheldið samfélag. Það hefur því gengið nokkuð vel að takast á við faraldurinn hér, þ.e.a.s. að því leyti að takmarka smit og afleiðingar þeirra. Hins vegar hafa afleiðingar af aðgerðum gegn faraldrinum verið alvarlegar og þær eru sennilega ekki komnar að fullu fram enn. Þar má nefna seinkun nauðsynlegra skurðaðgerða og skimunar við krabbameinum, aukið ofbeldi gegn börnum, aukið heimilisofbeldi og aukna drykkju áfengis og vandamál því tengd. Ísland er háðara ferðamannastraumi en löndin í kringum okkur og nú er svo komið að við erum með mesta atvinnuleysi á Norðurlöndum. Það er vel þekkt að atvinnuleysi leiðir af sér dauðsföll og fleiri hörmungar. Ríkissjóður starfar í ósjálfbæru umhverfi og safnar skuldum, sem mun koma niður á nauðsynlegri þjónustu og velferð á komandi árum. Þetta alvarlega ástand á Íslandi skapast að mestu vegna aðgerða gegn Covid-19 en leggst misjafnlega illa á samfélagið. Þeir sem eru í fílabeinsturni akademíunnar og/eða í þægilegu starfi hjá ríkinu hafa það bara nokkuð gott. Það eru þessir aðilar sem hafa mestan aðgang að fjölmiðlum og stýra því umræðunni.

Áskorun til stjórnvalda

Af ofantöldu er ljóst að nauðsynlegt er að stytta faraldurinn og aðgerðir gegn honum eins og kostur er. Hver vika skiptir máli. Í ljósi nýjustu gagna er ekki siðferðislega verjandi að halda áfram með bólusetningar eins og stefnt var að. Við eigum að fara að dæmi Breta og lengja bilið milli bólusetninga um þrjá mánuði. Þannig er hægt að klára fyrri bólusetningu landsmanna mun fyrr en ella, minnka hratt hömlur innanlands og gefa tóninn fyrir gott ferðamannasumar en þar eru gífurlegir hagsmunir í húfi. Mikill ferðavilji er til staðar og bólusettum fjölgar hratt. Þessi leið mun líka minnka að einhverju leyti allan þann óbeina skaða sem aðgerðir gegn Covid-19 valda og koma lífinu í eðlilegt horf með vorinu. Ágætu stjórnmálamenn, ég skora á ykkur á íhuga vandlega þennan kost og sýna þá djörfung sem þarf til að taka réttu ákvörðunina.

Höfundur er prófessor við læknadeild Harvard-háskóla. jeinarsson@bwh.harvard.edu

Höf.: Jón Ívar Einarsson