Á Boðnarmiði segir Ólafur Stefánsson: „Það styttist“: Ó, Pfizer, ég fell þér um háls, fagnandi tek svo til máls: Að gefinni sprautu, gönguna blautu geng ég á barinn minn frjáls.

Á Boðnarmiði segir Ólafur Stefánsson: „Það styttist“:

Ó, Pfizer, ég fell þér um háls,

fagnandi tek svo til máls:

Að gefinni sprautu,

gönguna blautu

geng ég á barinn minn frjáls.

Og Jón H Karlsson segir: „Það hillir undir frelsi og sumaryl“:

Kórónufrelsi

Þrái sól og sumaryl

sunnanblæ og hlýju.

Í góðu veðri vera til

viðra mig að nýju.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir yrkir:

Katrín konan hans Mara

kann ekki vínið að spara

er geðill við hann

þennan góðlynda mann.

Það er hún ekki við Ara.

Hallmundur Kristinsson svaraði:

Sífellt það gerir grínið,

gamla spaugsama brýnið.

Yrkjandi er

oftastnær hér

magnaðar vísur um vínið!

Hólmfríður aftur:

Um ýmislegt má yrkja grín

ef eitthvað skeður.

Best að yrkja um brennivín

því brennivínið gleður.

Og að síðustu Guðrún Bjarnadóttir:

„Magnaður er hann Mari.

Á morgun vil ég hann fari

burt frá Kötu,

með kók og skötu,

og komi til mín,“ stundi Ari.

Broddi B. Bjarnason rifjar upp stöku eftir Sigurkarl Stefánsson menntaskólakennara:

Góa raular rótt og þýtt

rímu veðurlagsins.

Ekki er kyn þótt brosi blítt

bræður öskudagsins.

Friðrik Steingrímsson yrkir um skjálftahrinuna:

Fyrir dyrum virðist vá,

vitneskju um það hrinan gaf,

að Reykjanesið rifni frá

og reki út á ballarhaf.

Gamlar karla- og kerlingavísur:

Einu sinni karlinn kvað

við kerlinguna sína:

„Mikið gerir ellin að

ég ætlaði varla að geta það!“

„Nógur er tíminn,“ kerling kvað,

„að komast í himnahöllu,

mér er nú ekki mikið um það –

maturinn er fyrir öllu.“

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is