Öflugur Þorgrímur Smári Ólafsson lék vel í gær og skoraði 8 mörk.
Öflugur Þorgrímur Smári Ólafsson lék vel í gær og skoraði 8 mörk. — Morgunblaðið/Íris Jóhannsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handboltinn Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Selfoss fór upp í þriðja sæti Olísdeildar karla í handbolta með naumum 29:28-sigri á Stjörnunni á heimavelli í gærkvöldi.

Handboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Selfoss fór upp í þriðja sæti Olísdeildar karla í handbolta með naumum 29:28-sigri á Stjörnunni á heimavelli í gærkvöldi.

Ragnar Jóhannsson skoraði sjö mörk fyrir Selfoss og hefur hann leikið virkilega vel síðan hann kom til félagsins frá Þýskalandi á dögunum. Starri Friðriksson skoraði sjö fyrir Stjörnuna. Selfoss hefur brugðist vel við því mótlæti sem fylgdi að tapa þremur leikjum í röð um miðjan febrúar, en Selfoss vann ÍBV í síðustu umferð og er því með tvo sigra í röð.

„Lokamínútan var ekki fyrir hjartveika, Selfyssingar voru skrefinu á undan og tóku leikhlé þegar 28 sekúndur voru eftir í stöðunni 28:28. Ragnar Jóhannsson skoraði frábært mark þegar níu sekúndur voru eftir og Selfyssingum tókst að verjast lokasókn Stjörnunnar,“ skrifaði Guðmundur Karl Sigurdórsson m.a. um leikinn á mbl.is.

Fram ósigrað á heimavelli

Fram er enn eina liðið sem enn hefur ekki tapað leik á heimavelli eftir 26:22-sigur á KA. Tapið var það fyrsta hjá KA eftir sex leiki í röð án þess að bíða ósigur. Eftir erfiða byrjun voru Framarar hins vegar sterkari aðilinn og var sigurinn verðskuldaður.

Fram er í hörðum slag um sæti í úrslitakeppninni á meðan KA féll úr þriðja sæti niður í það fjórða með tapinu. Þorgrímur Smári Ólafsson var markahæstur heimamanna með átta mörk og þá var Lárus Helgi Ólafsson frábær í marki Fram, varði 17 skot, þar af eitt vítakast. Færeyingurinn Áki Egilsnes skoraði sjö mörk fyrir KA.

Fram hefur aðeins unnið einn leik af sex á útivöllum, en takist liðinu að laga útivallarárangurinn gæti það komið á óvart þegar líða tekur á tímabilið. KA verður að vinna lið eins og Fram, ætli liðið að berjast um efstu sætin á næstu vikum og mánuðum.

Hákon fór á kostum

Hákon Daði Styrmisson , markahæsti leikmaður deildarinnar, bætti heldur betur í markasafnið í gær. Eyjamaðurinn gerði sér lítið fyrir og skoraði 15 mörk úr 16 skotum í 32:23-heimasigri ÍBV á ÍR. Hákon hefur nú skorað 91 mark í 12 leikjum. Petar Jokanovic átti einnig öflugan leik fyrir ÍBV og varði 17 skot og var með 43 prósenta markvörslu.

Gunnar Valdimar Johnsen var markahæstur hjá ÍR með sex mörk. Jafnræði var með liðunum framan af en Eyjamenn stungu af í seinni hálfleik og unnu öruggan sigur. ÍBV er með 13 stig og í baráttu um heimavallarrétt í úrslitakeppninni en ÍR er sem fyrr límt við botninn, án stiga og með 93 mörk í mínus í markatölu.

ÍR missti nánast alla leikmennina sína undir lok síðasta tímabils og hefur leikmannahópurinn hans Kristins Björgúlfssonar lítið erindi í efstu deild. Sigurinn var kærkominn fyrir ÍBV eftir einn sigur í sex leikjum þar á undan. Líkt og Stjörnuna vantar Eyjamenn meiri stöðugleika til að berjast um efstu sætin.