[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snorri Másson snorrim@mbl.is Golfstraumurinn hefur ekki verið veikari í meira en öld, ef marka má nýja rannsókn þýskra, breskra og írskra vísindamanna. Ef fram fer sem horfir og straumurinn, sem er talinn veðurfarslegur grundvöllur þess að Ísland sé byggilegt, heldur áfram að veikjast eða bregst alveg, getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þegar samverkandi áhrifum bráðnandi Grænlandsjökuls er blandað í málið er ljóst samkvæmt vísindamönnum sem Morgunblaðið ræddi við að illt kann að vera í efni fyrir Ísland.

Snorri Másson

snorrim@mbl.is

Golfstraumurinn hefur ekki verið veikari í meira en öld, ef marka má nýja rannsókn þýskra, breskra og írskra vísindamanna. Ef fram fer sem horfir og straumurinn, sem er talinn veðurfarslegur grundvöllur þess að Ísland sé byggilegt, heldur áfram að veikjast eða bregst alveg, getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þegar samverkandi áhrifum bráðnandi Grænlandsjökuls er blandað í málið er ljóst samkvæmt vísindamönnum sem Morgunblaðið ræddi við að illt kann að vera í efni fyrir Ísland.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir það áhyggjuefni til lengri tíma litið að Golfstraumurinn sé að veikjast, enda sé meðalhitinn hér á Íslandi nátengdur yfirborðshita sjávar. Hann segir afar ósennilegt að hita- og seltufæribandið hingað norður eftir bresti mjög skyndilega en bendir á að nýjar rannsóknir sýni að veiking þess hafi hafist fyrr en áður var talið og því ekki alfarið loftslagsbreytingum af mannavöldum um að kenna.

Versta atburðarásin

Loftslagsbreytingar af mannavöldum leiða þó eftir sem áður til þess að Grænlandsjökull bráðni æ óðar, eins og Júlíus Sólnes, verkfræðingur og fyrsti umhverfisráðherra Íslands, bendir á í samtali við Morgunblaðið. Bráðnun jökulsins leggur svo mikið kalt ferskvatn af mörkum til hafsins að það gæti endanlega gengið fram af Golfstraumnum, þar sem hann teygir sig til Íslands. „Það sem ég hef velt fyrir mér er hvort þessi kaldi straumur sem ísbráðnunin sendir suður geti drepið heitu kvíslarnar úr Golfstraumnum sem við njótum hér. Ef svo fer verður ekki gaman að búa á Íslandi, skal ég segja þér,“ segir Júlíus. Í því sambandi vísar hann til greinar James Hansen loftslagsfræðings frá 2016, þar sem því er spáð að meðalhitinn á Íslandi geti fallið um 8 gráður ef atburðarásin verður á þessa leið. Sjálfur hefur Júlíus skrifað fjölmargt um loftslagsmál og gaf síðast út bókina Global Warming: Cause, Effect, Mitigation á Bandaríkjamarkaði árið 2018.

Einar Sveinbjörnsson telur að hafstraumakerfið hingað norður eftir sé í meira jafnvægi en svo að mikil hætta sé á að ferskvatn frá Grænlandsjökli raski því. Það geti samt valdið frekari röskun. „Það væri þó svona versta atburðarás sem við getum hugsað okkur. Menn þekkja það að straumakerfið á sér annars konar jafnvægisástand, þannig að það getur legið öðruvísi. Varmaflutningurinn hefur þó verið í þessu farinu í árþúsundir og talið er að það þurfi nokkuð mikið til að það hrökkvi í annan gír,“ segir Einar. Júlíus bendir á að flestir vísindamenn telji að á kuldatímabilinu Yngra Dryas (fyrir um 12.000 árum) hafi bakslag orðið í yljandi áhrifum Golfstraumsins á veðurfar í Evrópu vegna þess að of mikill ís hafi bráðnað í hafið og þar með truflað Golfstrauminn það mikið að hann hafi nánast stöðvast. Dæmin eru þannig fyrir hendi um þessa verstu sviðsmynd og þróunin nú er ör: Að sögn vísindamannanna í rannsókninni sem getið er að ofan benda veðurlíkön til þess að hnattræn hlýnun gæti veikt Golfstrauminn um 34-45% til viðbótar fram til næstu aldamóta, 2100.

Mælingum ábótavant

Einar segir að óháð því hvaða ályktanir sé unnt að draga af þessum nýju rannsóknum, sé þetta í tilfelli Íslendinga fyrst og fremst áminning um að þeir leggi sitt af mörkum til frekari rannsókna á þróuninni, ekki síst grunnmælinga. „Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég las um þetta var: Af hverju bætum við ekki verulega í mæliprógrammið okkar, ef við viljum leggja eitthvað raunverulegt og einstakt af mörkum í loftslagsmálunum? Við erum á miðju átakasvæði hafstraumanna. Bæta þyrfti rauntímavöktun og öflun gagna til rannsókna á heimsvísu, til dæmis með Argo-duflum fyrir norðan og vestan land sem mæla hafstrauma, hita og seltu í sniðum. Í og við Grímsey mætti koma fyrir mælibúnaði sem vaktaði varmaflæði á milli sjávar á lofthjúps, en það eru mikilvæg gögn ásamt fjarkönnun sem við höfum þegar. Okkur er ekkert að vanbúnaði að hefjast handa nú þegar. Áður þurfti dýra rannsóknaleiðangra á sérbúnum skipum, en tækninni við mælingar neðansjávar hefur fleygt fram á síðustu árum,“ segir Einar.