Frá vinstri Jóhanna María Bjarnadóttir, Sandra Lind Valgeirsdóttir, Atli Már Indriðason, Daníel Þorbjörnsson, Björgvin Axel Ólafsson og Birgir Gíslason.
Frá vinstri Jóhanna María Bjarnadóttir, Sandra Lind Valgeirsdóttir, Atli Már Indriðason, Daníel Þorbjörnsson, Björgvin Axel Ólafsson og Birgir Gíslason. — Ljósmynd/Elísabet Hansdóttir
Fyrsta skóflustungan var tekin að húsnæði fyrir Þroskahjálp í Stuðlaskarði í Hafnarfirði í gær. Þar fær hópurinn Vinabær húsnæði fyrir félagsmenn, sem eru sex einstaklingar með Downs-heilkenni.

Fyrsta skóflustungan var tekin að húsnæði fyrir Þroskahjálp í Stuðlaskarði í Hafnarfirði í gær. Þar fær hópurinn Vinabær húsnæði fyrir félagsmenn, sem eru sex einstaklingar með Downs-heilkenni. Þau hafa fylgst að frá æskuárum og fá nú nýtt heimili öll saman, eftir að hafa oft verið saman í ýmsum skammtímavistunum. Fyrirkomulagið á framkvæmdunum á sér fá ef nokkur fordæmi hér á landi, því íbúarnir tilvonandi sjá sjálfir um að reisa nýja húsnæðið. Þeir eru skrifaðir fyrir félaginu utan um reksturinn og munu sjálfir annast skipulag íbúðahúsnæðisins, með viðeigandi aðstoð aðstandenda og annarra. Hafnarfjarðarbær fjármagnar síðan rekstur Vinabæjar.

Ráðgert er að afhending íbúðanna verði í desember á þessu ári, þannig að verktakinn þarf að hafa hraðar hendur. Hann byrjar að moka í vikunni. Samkvæmt viljayfirlýsingu Hafnarfjarðarbæjar frá júní 2020 lagði bærinn félaginu til lóðina að Stuðlaskarði 2-4 og sömuleiðis kom til um 35 milljóna stofnframlag frá sveitarfélaginu. Ríkissjóður veitti um 60 milljónir til verkefnisins en 121 milljón er fjármögnuð með láni. snorrim@mbl.is