Hjálmar Magnússon
Hjálmar Magnússon
Eftir Hjálmar Magnússon: "Stóra spurningin er af hverju hrynur stofninn svo skyndilega?"

Loðnan hefur á undanförnum áratugum staðið undir stórum hluta þjóðartekna okkar Íslendinga en hefur síðastliðin tvö ár brugðist að miklu leyti vegna hruns stofnsins og stóra spurningin er af hverju hrynur stofninn svo skyndilega?

Við Íslendingar vitum það öll, eða þau okkar sem komin eru af barnsaldri, að ef við ætlum að fá uppskeru af afurðum okkar, hvort sem er af ræktun jurta eða búfénaði okkar, þá verðum við að hlífa fræjum jurta og ungviði búfénaðar okkar þannig að fjölgun geti orðið hjá viðkomandi stofnum, þessu virðast þeir sem sjá um veiðar eða veiðiráðgjöf alveg hafa gleymt.

Mér virðist hins vegar sem leikmanni að þessir menn þurfi að athuga sinn gang og haga sinni veiðiráðgjöf og veiðum með tilliti til þessara hluta og að gjörhreinsa miðin ekki svo svakalega í veiðigræðgi sinni að öllu ungviði sé fórnað á altari græðginnar þannig að ekkert verði eftir til að viðhalda þessum mikilvæga stofni okkar.

Með ósk og von um bjartari tíma í þessum mikilvægu málum okkar Íslendinga framvegis og að loðnustofn okkar hafi burði og getu til að standa áfram undir tekjum íslensku þjóðarinnar.

Ég undirritaður er hins vegar svo heppinn að góður félagi minn og vinur ólst upp þar sem áhrif loðnunnar sáust vel, það er að segja fyrir tíma ofveiði okkar, hann man vel þá tíma þegar allar fjörur voru fullar af fiski og var þar loðnan fremst í flokki með stórar hvalavöður sem lifðu á henni þannig að lífríkið, jafnt selir, höfrungar og stærstu hvalategundir, allt raðaði þetta sér á þennan mikla fæðuhring náttúrunnar, líklega vegna ofveiði eða hvað haldið þið fræðingar góðir, en svo mikil var fiskigengd á þessum stöðum að erlendir togarar sóttu fast á þessi góðu fiskimið okkar svo við lá að þeir eyðilegðu annars góð fiskmið okkar með sínum öflugu vélum. Bið ég ykkur því, fræðingar góðir, gangið hægt um gleðinnar dyr og gerið ykkur grein fyrir því í veiðiráðgjöf ykkar að eitthvað af ungviði þarf að komast á legg þannig að framhald lífs geti orðið á jörð okkar.

Höfundur er fv. framkvæmdastjóri.

Höf.: Hjálmar Magnússon