[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristinn Sigmundsson er fæddur 1. mars 1951 í Reykjavík og ólst upp á Holtsgötu og í Gnoðarvogi. Hann var í sveit í tvö sumur hjá afabróður sínum, Guðmundi Benónýssyni, á Gerðhömrum í Dýrafirði og síðan tvö sumur á Litla-Ármóti í Flóa.

Kristinn Sigmundsson er fæddur 1. mars 1951 í Reykjavík og ólst upp á Holtsgötu og í Gnoðarvogi. Hann var í sveit í tvö sumur hjá afabróður sínum, Guðmundi Benónýssyni, á Gerðhömrum í Dýrafirði og síðan tvö sumur á Litla-Ármóti í Flóa.

Kristinn gekk í Vogaskóla og varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1971. „Það voru mikil mótunarár, ég var í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og kynntist þar klassískri tónlist en áður hafði ég mest verið að hlusta á popp, Bítlana og Rolling Stones. Svo vaknaði mikill áhugi á bæði líffræði og íslensku og ég vissi ekki hvort ég ætti að velja þegar ég fór í háskólann.“ Líffræðin varð fyrir valinu og lauk Kristinn BS-prófi í því fagi 1977. Kristinn kenndi líffræði við Menntaskólann við Tjörnina og síðan Menntaskólann við Sund þar til hann fór út í söngnám.

Söngferillinn

Kristinn hóf söngferilinn frekar seint, en hann lauk söngprófi þrítugur að aldri og ferill hans á alþjóðavettvangi hefst ekki fyrr en hann fer að nálgast fertugt „Ég var alltaf að syngja í kórum, bæði í Söngsveitinni Fílharmóníu og Pólýfónkórnum. Svo tók ég þátt í konsertuppfærslu á La Traviata og var með þrjú minnstu hlutverkin í óperunni. Guðmundur Jónsson sem söng eitt af aðalhlutverkunum fór að hæla röddinni minni og sagði að ég þyrfti að gera eitthvað í þessu og ég fór að læra hjá honum í Söngskólanum í Reykjavík. Fyrst kitlaði þetta bara egóið að vera að læra hjá honum og svo leiddist maður út í þetta hægt og rólega. Svo sagði konan mín að ég þyrfti að fara til útlanda. Það tæki enginn maður mig alvarlega nema ég myndi fara út og læra og ég hlýddi því bara.“ Kristinn lauk 8. stigs prófi í Söngskólanum 1981 og var svo í söngnámi í Vínarborg 1982-1983 og Washington DC 1984-1985.

Eftir námið var Kristinn við kennslustörf í Nýja tónlistarskólanum, Söngskólanum í Reykjavík og Tónlistarskólanum í Grindavík, sá um kórstjórn í Grindavík og var í Íslensku óperunni frá 1981 til 1982 og síðan 1985-1989. „Ég var í alls konar vinnu á þessum tíma, en allt í sambandi við söng, var til dæmis með þætti í útvarpinu um klassíska tónlist og söng í jarðarförum og á árshátíðum.“

Árið 1989 hófst síðan alþjóðlegur ferill þegar Kristinn var fastráðinn sem óperusöngvari við Hessisches Staatstheater Wiesbaden. Hann var þar á mála til 1991 en síðan þá hefur hann verið sjálfstætt starfandi söngvari. Hann hefur sungið nokkuð á annað hundrað óperuhlutverka víðs vegar um heim, t.d. í New York, Vínarborg, París, London, Mílanó, San Francisco, Los Angeles, Tókýó, Beijing og víðar í helstu óperuhúsum heims.

„Það hefur kosti og galla að vera í lausamennsku. Maður sér meira af heiminum og fær betur borgað en að vera fastráðinn einhvers staðar. En á móti er atvinnuöryggið ekkert og það er mikil samkeppni og svo er maður minna heima hjá sér.“

Uppáhaldshlutverkin

Aðspurður segist Kristinn syngja mest Wagner í seinni tíð en líka Rossini. „Það er kannski svolítið skrítið því þeir eru mjög ólíkir. Ég hef t.d. mikið sungið hlutverk Gurnemanz í óperunni Parsifal. Það er hlutverk sem mér þykir mjög vænt um og er eitt af stærstu bassahlutverkunum enda tók það mig um tvö ár að læra það. Svo er annað hlutverk, Ochs barón í Rósariddaranum eftir Richard Strauss, ég hef sungið það nokkuð oft og er eitt af uppáhaldshlutverkunum. Síðan er annað Wagner-hlutverk sem er mér mjög hjartfólgið og hef sungið oft en það er Marke konungur í Tristan og Ísold.“

Það hefur ekkert verið að gera í söngnum á liðnu ári enda hefur tónlistarlíf fallið niður vegna Covid en til stendur að Kristinn syngi á tónlistarhátíð í Búkarest í september nk. og síðan fylgja tónleikar í Atlanta, München og Tókýó í kjölfarið. Kristinn er því hvergi nærri hættur að syngja „Það fer eftir röddunum hversu söngferillinn getur orðið langur. Hjá hærri röddum eins og sópran og tenór þá er ferillinn oft búinn um fimmtugt. Ég syng samt mun minna núna en áður. Þegar var sem mest að gera var ég bara heima yfir sumarmánuðina og ég hefði getað verið að vinna allt árið, en ég vildi vera með fjölskyldunni yfir sumarið. En núna er ég að verða með elstu mönnum á sviðinu.“

Kristinn hefur verið duglegur að syngja hér heima og hefur oft sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og í Íslensku óperunni. Hann hefur einnig haldið fjölmarga sjálfstæða tónleika, með Jónasi Ingimundarsyni píanóleikara og fleirum. Hann hefur sungið inn á fjölmargar hljómplötur með innlendum og erlendum útgáfum, óperur, í hljómsveitarverkum og ljóðasöng. Frá 2013 hefur Kristinn verið gestaprófessor við Listaháskóla Íslands.

Kristinn hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir söng sinn. Hann hlaut verðlaun í Belvedere-óperukeppninni 1983, Stämgaffeln 1991, sem eru sænsk verðlaun, fyrir upptöku á Don Giovanni. Hann hlaut Riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu 1994, var bæjarlistamaður Kópavogs 2005 og fékk Íslensku tónlistarverðlaunin 1996, 2011, 2012, 2013, fyrir söng og/eða hljómplötu ársins. Hann hlaut menningarverðlaun DV 2010, útflutningsverðlaun forseta Íslands 2011 og Grímuverðlaunin 2015, þar sem hann var valinn söngvari ársins fyrir hlutverk sitt í óperunni Don Carlo. Hann hefur hlotið Grammy-verðlaun, en hann söng í uppfærslu með Los Angeles-óperunni á The Ghosts of Versailles eftir John Corigliano sem fékk tvenn Grammy-verðlaun 2016. Hann hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2017.

Helstu áhugamál Kristins eru tónlist, ljósmyndun og fluguveiði. „Ég hlusta á klassíska tónlist en ekki endilega sungna tónlist, fæ nóg af henni í vinnunni. Svo hlusta ég töluvert á djass. Ég hef verið með áhuga á ljósmyndun alveg frá því ég var unglingur. Ég átti framköllunargræjur og stækkara og myrkvaði herbergi hjá foreldrum mínum. Svo er ég alveg forfallinn fluguveiðimaður. Ég veiddi mikið í Grímsá og Langá í seinni tíð og svo var ég mörg mörg ár í Laxá í Laxárdal, á urriðasvæðinu. Það er yndislegt svæði og eins og maður sé kominn í friðland.“

Fjölskylda

Eiginkona Kristins er Ásgerður Þórisdóttir, f. 21.3. 1953, hjúkrunarfræðingur. Þau eru búsett á Birkigrund í Kópavogi. Móðir Ásgerðar var Svava S. Ásgeirsdóttir, f. 26.7. 1934, d. 20.7. 2015, og stjúpfaðir var Þorvaldur J. Matthíasson, f. 29.4. 1934, d. 23.1. 2015. Þau hjónin ráku heildverslunina Skjólborg í Reykjavík. Faðir Ásgerðar var Þórir Kristjónsson, f. 25.6. 1932, d. 31.1. 2000.

Synir Kristins og Ásgerðar eru 1) Gunnar, f. 14.11. 1979, leikari, bús. í Reykjavík. Sonur hans er Mikael Bjarni, f. 21.9. 2000; 2) Jóhann, f. 6.5. 1988, óperusöngvari, búsettur í Hamborg í Þýskalandi. Maki hans er Sarah Butenschön.

Bróðir Kristins er Þórður Sigmundsson, f. 26.6. 1956, geðlæknir, búsettur í Skien í Noregi.

Foreldrar Kristins voru hjónin Ásgerður Kristjánsdóttir, f. 9.7. 1918, d. 24.5. 2010, húsmóðir og verkakona, og Sigmundur Þórðarson, f. 14.6. 1920, d. 4.4. 1973, sjómaður í Reykjavík.