Opið til 23 Veitingastaðir og barir fengu aukið svigrúm í síðustu viku.
Opið til 23 Veitingastaðir og barir fengu aukið svigrúm í síðustu viku. — Morgunblaðið/Eggert
Margt var um manninn á vettvangi næturlífsins í miðbæ Reykjavíkur um helgina, sem var fyrsta helgin eftir að sóttvarnatilslakanir tóku gildi á miðvikudaginn. Nú máttu 50 vera saman í hverju hólfi og sömuleiðis var afgreiðslutími lengdur til ellefu.

Margt var um manninn á vettvangi næturlífsins í miðbæ Reykjavíkur um helgina, sem var fyrsta helgin eftir að sóttvarnatilslakanir tóku gildi á miðvikudaginn. Nú máttu 50 vera saman í hverju hólfi og sömuleiðis var afgreiðslutími lengdur til ellefu. Þessar heimildir voru víðast hvar gernýttar og sást það tilfinnanlega á fullum bílastæðum í miðbænum.

Á Akureyri fóru hlutirnir ekki alls kostar eins friðsamlega fram, en þar greip lögregla til lokunar á veitingastað sem var enn með gesti inni eftir klukkan ellefu um kvöldið. Öðrum veitingastað var lokað vegna útrunnins veitingaleyfis.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í reglubundið eftirlit með veitingahúsum í miðborginni og í dagbók lögreglunnar sagði að skerpa hefði þurft á nokkrum reglum. Á meðal þeirra reglna er sú skylda að þjóna gestum til borðs, en ekki leyfa þeim að panta við barinn.

Eitt kórónuveirusmit greindist innanlands um helgina og viðkomandi var í sóttkví. Fram kom að smitið tengdist landamærasmiti sem kom að utan. Þá greindist eitt smit á landamærunum. Síðast greindist smit utan sóttkvíar innanlands 1. febrúar og þá höfðu liðið tólf dagar frá smiti utan sóttkvíar. Aðeins sautján eru í sóttkví á Íslandi og 14 í einangrun vegna smits. Nýgengi innanlands miðað við hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur nemur 0,3 og hefur ekki verið minna síðan 22. júlí.

snorrim@mbl.is