Guðný Sverrisdóttir fæddist á Akureyri 3. september 1956. Hún lést 9. febrúar 2021 eftir mikil veikindi síðustu árin á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Foreldrar Guðnýjar voru Andrea Gíslína Jónsdóttir húsmóðir, f. 29. ágúst 1923, d. 4. júní 1991, og Sverrir Árnason járnsmiður, f. 22. júlí 1920, d. 26. september 2001.

Systkini Guðnýjar: Hörður, f. 28.8. 1940, d. 3.5. 2015, Ingólfur, f. 30.6. 1943, Árni, f. 18.10. 1944, Ágústa, f. 11.9. 1946, d. 26.1. 2016, Ragnar, f. 26.2. 1949, Ólafur, f. 15.9. 1951, og Gunnlaugur, f. 14.9. 1952.

Maki: Halldór Tryggvason, f. 6. júní 1957. Fyrrverandi eiginmaður: Jóhannes Sigtryggsson, f. 26. apríl 1957.

Börn Guðnýjar:

Sigtryggur Ómar Jóhannesson, f. 5. apríl 1977, d. 10. janúar 1982.

Garðar Hvítfeld Jóhannesson, f. 15. mars 1979, maki: Guðný Helga Kristjánsdóttir, börn: Sóley Hvítfeld, Viktoría Rún, Hafey Hvítfeld, Logey Hvítfeld.

Sverrir Már Jóhannesson, f. 9. september 1981, maki: Elín Helga Kolbeinsdóttir, börn: Aron Máni, Rakel Nótt, Elvar Logi.

Andrea Rún Halldórsdóttir, f. 22. júní 1993, maki: Gunnlaugur Guðmundsson, barn: Eðvar Nói.

Börn Halldórs: Kristbjörg Eva Halldórsdóttir, f. 11. janúar 1979, maki: Guðbergur Ólafsson, börn: Birta Rós, Snædís Harpa, Arnór Orri, Ólafur Dagur, Dagur Orri.

Arnar Ingi, f. 19. nóvember 1981, maki: Berglind Þórarinsdóttir, börn: Aþena Rún, Kamilla Rún, Karitas Eir.

Halldór Þórir, f. 6. janúar 1984, maki: Íris María Eyjólfsdóttir, börn: Halldór Berg, Diljá Ísfold.

Guðný ólst upp í Ránargötu 16 og var í Oddeyrarskóla og síðan í Gagnfræðaskóla Akureyrar. Eftir skólagönguna fór Guðný á vinnumarkaðinn og vann í verksmiðjunum á Akureyri í mörg ár. Síðar stundaði hún ýmis önnur störf þar til hún gat ekki unnið lengur vegna veikinda.

Guðný giftist Jóhannesi Sigtryggssyni og áttu þau heimili á Akureyri þar til þau skildu. Þau áttu þrjá drengi saman, þá Sigtrygg Ómar sem lést af slysförum 5 ára gamall, Garðar Hvítfeld og Sverri Má.

Eftir skilnaðinn við Jóhannes kynntist hún Halldóri Tryggvasyni og áttu þau eina stúlku saman, Andreu Rún. Þau bjuggu lengst af á Akureyri en í tvö ár stunduðu þau búskap í Skagafirði.

Útför Guðnýjar fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Einlægur fögnuður ríkti í fjölskyldunni í Ránargötu 16 á Akureyri við upphaf septembermánaðar árið 1956 eftir að ljósmóðirin tilkynnti að lítil stúlka hefði komið í heiminn. Þar með vorum við orðin átta talsins, sex strákar og tvær stúlkur. Ekki minnkaði fjörið á bænum við komu Guðnýjar litlu systur enda dafnaði hún vel, brosti sífellt og var okkur öllum mikill gleðigjafi. Áfram leið tíminn, hún stækkaði eins og laukur í túni, lét meira að sér kveða í strákahjörðinni heima og gaf hvergi eftir í því harki öllu. Við það hlaut hún dýrmætt veganesti út í lífið – að biðjast aldrei afsökunar á sinni tilveru en standa stolt með sjálfri sér á hverju sem gekk. Þannig var Guðný systir allt sitt líf, bæði í gleði og sorg.

Fyrr en nokkurn varði var litla systir orðin myndarstúlka og gjafvaxta. Kynntist ungum manni úr Eyjafirði, Jóhannesi Sigtryggssyni, og stofnuðu fallegt heimili. Þau eignuðust þrjá mannvænlega syni og allt virtist leika í lyndi. Þá knúði ógæfan harkalega dyra þegar elsti drengurinn, Sigtryggur Ómar fjögurra ára, drukknaði í Eyjafjarðará í ársbyrjun 1982. Eins og nærri má geta gekk þessi hræðilegi atburður ákaflega nærri systur okkar; hún bognaði vissulega en brotnaði ekki. Satt að segja var það frekar hún sem hjálpaði okkur hinum í sorginni og sýndi þá vel hvern mann hún hafði að geyma. Hún skipaði sér í hóp þeirra sem mæta grimmum örlögum af æðruleysi og reisn. Þannig var systir okkar. Ekkert gat bugað hana.

Síðan fjaraði undan hjónabandinu og við tóku nýir tímar með drengjunum tveimur þar sem vinna og sjálfsbjargarviðleitni var í forgangi. Ekki leið á löngu þar til hún hóf sambúð með Halldóri Tryggvasyni sem reyndist henni góður förunautur. Fljótt bar sambandið ávöxt þegar þau eignuðust dóttur árið 1993 sem var tvímælalaust þeirra mesta gæfa.

Lífið hélt áfram í leik og starfi. Guðný var að því leyti lík foreldrum okkar, Andreu Gíslínu og Sverri, að allt lék í höndum hennar. Handlagin í bestu merkingu orðsins. Hin fjölbreyttu verkefni sem hún fékkst við virtust gerast án fyrirhafnar og áreynslu; allt í einu var þeim lokið og eftir stóð glæsilegur afrakstur hvort heldur var inni á heimilinu eða við störf utan þess. Þessi tegund gáfna verður seint fullmetin og ærin ástæða til að hampa slíkum hæfileikum meira en gert hefur verið síðustu áratugi. Á þessu sviði var systir okkar sannarlega í fremstu röð og nutu margir verka hennar, ósérhlífni og vandvirkni enda var hún oftar veitandi en þiggjandi í þeim efnum.

Síðustu árin glímdi systir við veikindi sem gengu mjög nærri henni á stundum, en hún tókst á við þau af mikilli stillingu og hugprýði þótt oft blési harkalega á móti. En enginn má sköpum renna því örlaganornirnar höfðu af miskunnarleysi sínu ofið þann vef sem systir okkar kær komst ekki undan. Sjúkdómurinn ágerðist síðustu mánuði og hafði að lokum sigur. Eftir stöndum við sem unnum henni í djúpri hryggð en um leið full þakklætis að hafa átt hana að. Minningin um Guðnýju systur verður okkur ávallt dýrmæt og mikils virði.

Ingólfur Sverrisson.