Eyjar Sunna Jónsdóttir rífur sig lausa frá Huldu Dís Þrastardóttur.
Eyjar Sunna Jónsdóttir rífur sig lausa frá Huldu Dís Þrastardóttur. — Morgunblaðið/Íris Jóhannsdóttir
Fram og KA/Þór styrktu stöðu sína á toppi Olísdeildar kvenna í handbolta með stórsigrum á laugardag. Valur og Stjarnan misstigu sig hins vegar. Fram vann sinn fjórða sigur í röð er deildarmeistararnir heimsóttu Hauka á Ásvelli.

Fram og KA/Þór styrktu stöðu sína á toppi Olísdeildar kvenna í handbolta með stórsigrum á laugardag. Valur og Stjarnan misstigu sig hins vegar.

Fram vann sinn fjórða sigur í röð er deildarmeistararnir heimsóttu Hauka á Ásvelli. Framarar voru með völdin frá fyrstu mínútu og var sigurinn aldrei í hættu, þrátt fyrir að Haukar hafi minnkað muninn í tvö mörk í seinni hálfleik, en lokatölur urðu 32:24 . Steinunn Björnsdóttir hefur verið lygilega snögg að jafna sig á því að hafa misst sjón á öðru auga tímabundið en landsliðskonan skoraði átta mörk fyrir Fram.

KA/Þór er á enn meira flugi en 34:17-sigurinn á FH á heimavelli var sjötti sigur norðankvenna í röð. FH er án stiga á botninum og er mikill getumunur á liðunum. Hulda Bryndís Tryggvasdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir skoruðu sjö mörk hvor fyrir KA/Þór. Fram og KA/Þór mætast í stórleik í Safamýri annað kvöld klukkan 19:30.

Ríkjandi Íslandsmeistarar Vals léku sinn fjórða leik í röð án sigurs er ÍBV mætti á Hlíðarenda og vann 21:20. ÍBV var yfir nánast allan tímann og var sigurinn verðskuldaður, þrátt fyrir að Valur hafi farið illa með fín tækifæri til að jafna í lokin. Sigurinn var kærkominn fyrir ÍBV eftir tvö töp í röð. Birna Berg Haralsdóttir skoraði sjö mörk fyrir ÍBV, flest með neglum fyrir utan.

HK vann ekki síður kærkominn 28:26-sigur á Stjörnunni eftir fjóra leiki í röð án sigurs. HK er nú aðeins tveimur stigum frá Haukum í sjöunda sæti. Sigríður Hauksdóttir og Elna Ólöf Guðjónsdóttir gerðu fimm mörk hvor fyrir HK.