Friðrik Björnsson fæddist í Reykjavík 1. janúar 1943. Hann lést 16. febrúar 2021á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi.

Foreldrar hans voru Ása Friðriksdóttir, f. 1. desember 1920, d. 20. febrúar 2003 og Björn Arnórsson, f. 16. júní 1915, d. 27. mars 1961. Fljótlega eftir fæðingu Friðriks skildi leiðir þeirra Ásu og Björns. Ása giftist Ólafi Einarssyni, f. 6. september 1912, d. 19. mars 1986 og var Ólafur uppeldisfaðir Friðriks. Systkini Friðriks sammæðra eru Þórhildur Ólafsdóttir, f. 18. ágúst 1946, Einar Ólafsson, f. 1. des 1947 og Ingileif Ólafsdóttir, f. 19. janúar 1954, d. 26. ágúst 1999. Systkini Friðriks samfeðra eru Mekkinó Björnsson, f. 18. apríl 1950 og Árni Björnsson, f. 23. febrúar 1951.

Að lokinni hefðbundinni skólagöngu fór Friðrik í Verslunarskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist 1963. Þaðan lá leiðin til starfa hjá Heklu hf., þar sem hann kynntist eiginkonu sinni, Herdísi Björgu Gunngeirsdóttur, f. 26.9. 1947, d. 28.10. 2008, og giftu þau sig í Árbæjarkirkju 15. júlí 1967. Börn þeirra eru: 1) Gunngeir, f. 16. apríl 1968, kona hans er Edda Björg Sigmarsdóttir, f. 26. ágúst 1972, börn þeirra eru Elísa Björg, f. 7. október 1995, Aron Andri, f. 9. júlí 1997 og Valdís Ósk, f. 11. febrúar 2002. 2) Ásgeir, f. 14. maí. Börn hans eru Friðrik Máni, f. 2. mars 1997, barnsmóðir Hildur Guðbjörnsdóttir, f. 1. mars 1972, Kristín Theodóra, f. 25. maí 2005, barnsmóðir Guðrún Steingrímsdóttir, f. 6. mars 1976, Kirsten Helga, f. 23. janúar 2008 og Herdís Hlín, f. 19. febrúar, 2010, barnsmóðir Helga Lára Ólafsdóttir, f. 23. febrúar 1980. 3) Sigurrós Friðriksdóttir, f. 10. janúar 1981, í sambúð með Steinari Óla Jónssyni, f. 4. júní 1982, börn þeirra eru Heiðar Máni, f. 2. janúar 2018 og Herdís Björk, f. 21. apríl 2019.

Friðrik starfaði hjá Heklu hf. í um það bil 10 ár og eftir það lá leið hans til Heildverslunar Sverris Þóroddssonar. Árið 1981 hóf hann ásamt Herdísi konu sinni eigin atvinnurekstur, þar sem þau störfuðu saman hlið við hlið, samfellt í 25 ár. Þau ráku og áttu heildverslunina Frico ehf. til margra ára en söðluðu svo um og hófu gistihúsarekstur á Suðurgötu 22 frá árinu 1997 allt til ársins 2006.

Eftir að formlegum rekstri lauk sinnti Friðrik ýmsum gæluverkefnum auk þess sem hann naut þess að ferðast, spila golf og eyða tíma í sumarbústað fjölskyldunnar í Grímsnesinu. Friðrik kynntist eftirlifandi vinkonu sinni, Kristínu Hinriksdóttur, f. 24 mars 1951, árið 2009 og voru þau veigamikill partur af lífi hvort annars í rúm ellefu ár eða allt til dánardags Friðriks.

Útför Friðriks verður gerð frá Lindakirkju í dag, 1. mars 2021, kl. 13 og verður streymt frá athöfninni á

https://www.lindakirkja.is

Virkan hlekk má finna á

https://www.mbl.is/andlat

Það er skrítið að fylgjast með kyrrðinni út um gluggann. Horfa á fuglana koma sér makindalega fyrir á greinum trjánna, finna ylinn frá geislum sólarinnar sem skína inn um rúðuna og heyra óminn frá umferðinni í fjarska. Þegar persónuleg veröld manns umpólast skyndilega og manni finnst tíminn standa í stað þá missir lífið ekki úr takt. Það ríkir enn þá sama kyrrð og daginn sem þú kvaddir, elsku pabbi, en fjarvera þín er áþreifanleg, hávær og köld.

Þú varst máttarstólpinn minn. Við pössuðum upp á hvort annað, hvort á sinn hátt og við upplifðum ýmsar hæðir og lægðir lífsins saman. Sólin skein hvað skærast þegar nýjar sálir sameinuðust fjölskyldunni en kuldinn gerði líka vart sig þig þegar við kvöddum þá sem voru okkur kærir og nísti inn að beini þegar við misstum mömmu fyrir tæpum þrettán árum. Við héldumst þétt í hendur í gegnum sorgina sem fylgdi og hún færði okkur nær hvort öðru. Hún varpaði líka ljósi á marga af þínum bestu eiginleikum. Allt það góða sem mamma var og gerði tókst þú nú að þér og þú gekkst greiðlega til verka. Þú hélst utan um okkur, bauðst okkur reglulega í vöfflukaffi, kjötsúpu og lambalæri, bakaðir óteljandi haframjölskökur og hélst heimilinu óaðfinnanlegu. Þótt við höfum oft gert góðlátlegt grín að snyrtimennskunni og ofurnákvæmninni sem voru þitt aðalsmerki þá var það í hreinskilni sagt aðdáunarvert. Allt sem þú tókst þér fyrir hendur gerðir þú vel og þú ætlaðist til þess sama af öðrum. Ekkert verkefni var of stórt fyrir þig og þú færðist aldrei of mikið í fang.

Þú varst einstaklega ósérhlífinn og þoldir illa óvönduð verk, leti eða seinagang. Þú lást aldrei á skoðunum þínum en þú varst líka maður orða þinna og ég gat alltaf, alltaf leitað til þín. Það er leitun að traustari manni en þér og að hafa þig með sér í liði var ómetanlegur fjársjóður.

En þú varst líka svo miklu meira en þessi samviskusami dugnaðarforkur. Þú varst pabbinn sem breiddi yfir mig á kvöldin, kenndi mér að hjóla, fór með mig á skauta og skíði, í ísbíltúra og til útlanda og eftir að ég flutti að heiman bauðstu mér reglulega í mat, í göngutúr, dansaðir og hlóst með börnunum mínum, samgladdist yfir litlum sigrum og gast hlegið að sjálfum þér. Ég er eilíflega þakklát fyrir að börnin okkar Steinars, Heiðar og Herdís, hafi borið gæfu til að hafa fengið að kynnast afa sínum þótt þau kynni hafi orðið allt of stutt. Demanturinn þeirra er nú týndur og er þeirra missir mikill.

Ég mun sakna þín að eilífu, elsku pabbi minn, og nú þegar ég kveð þig, kveð ég stóran hluta barnæsku minnar, á sama tíma sem ég syrgi framtíðarsýn með þig mér við hlið. Ég hef nú fylgt þér að bryggjunni og þar skilja leiðir okkar. Ég hélt í hönd þína og strauk hár þitt meðan þú gekkst um borð í skipið sem nú hefur siglt úr minni augsýn en þegar þú leggur að landi í nýrri höfn veit ég að þín bíður þar myndarlegur hópur sem fagnar komu þinni. Ég bið þig að faðma mömmu og ömmu þéttingsfast frá mér og skila ástarkveðjum inn í eilífðina.

Takk fyrir allt sem þú varst og allt sem þú gafst.

Þín dóttir,

Sigurrós Friðriksdóttir.

Það er vorhret á glugga þegar ég rita þessar línur í þeim tilgangi að minnast æskufélaga míns sem og kærs vinar í 70 ár. Er ekki raunveruleiki finnst mér. Að geta ekki gripið símann og hringt í gamlan vin og gantast er ekki núið í mínum huga. Við strákarnir í Herskólakampnum sem höfðum svo mikið að gera að sólarhringurinn dugði ekki til. Við sem stofnuðum Leynifélagið Náttfara sem dó eiginlega á stofnfundi en gerði samt sem áður það mikinn usla í hverfinu að við þorðum varla að líta framan í nokkurn mann. Þú sem sendir mig í sveit fyrir þig, vegna þess að þú varst búinn að ráða þig í byggingarvinnu inni í Álfheimum, þar sem þú fengir miklu hærra kaup þar en í sveitinni. Við kynntumst í Laugarnesskólanum 1954 og urðum síðan bekkjarbræður í Víkingsheimilinu sem var upphafið á Réttó. Árin okkar í handboltanum á Hálogalandi sem átti hug okkar allan um tíma undir stjórn Árna Njáls. Ég minnist líka hversu formfastur þú varst alla tíð. Uppi í súðarherberginu þínu varstu með bókhaldsbók. Þú varst ekki kátur þegar ég greip hana og las þar: „1 fl. Pólo kr. X, 1 stk. bíómiði kr. X. Lánaði Örra bíómiða kr. X, strætisvagnamiði á Hálogaland kr. X.“ Þetta var sko sannarlega þú. Ég verð að minnast á snyrtimennið Frikka, þeir kostuðu oft þrek og tár snúningarnir þínir varðandi útlitið, hvort tennurnar væru nógu vel burstaðar, hárið í réttum skorðum og neglurnar nýklipptar. Skórnir nýburstaðir og brotið í buxunum sómasamlegt. Formfastir voru sunnudagarnir hjá okkur í den, fyrst var farið á fund hjá KFUM á Amtmannsstígnum. Þar var hlustað á sögu og sungið t.d. „Áfram Kristsmenn krossmenn“, þá stóðum við strákarnir allir upp og stöppuðum í gólfið og sungum hástöfum. Að því loknu var hlaupið upp í Austurbæjarbíó og horft á Roy Rogers og Trigger, þótt við værum búnir að sjá myndina þrisvar fjórum sinnum. Þegar Roy birtist á skjánum og Trigger prjónaði þá trylltist allur salurinn og öskrað var Roy-Roy-Roy! Þetta voru sæludagar bernskunnar. Um leið og ég kveð þig, vinur minn, í för þinni í Sumarlandið okkar, þakka ég þér göngutúrinn sem hefði mátt vera lengri. Frá Einarsstöðum sendum við hjónin samúðarkveðjur til Gunngeirs, Ásgeirs og Sigurrósar, Friðriksbarna og barnabarna sem og Kristínar Hinriksdóttur.

Ef dimma kvöldsins deyfir skyn

og dvínar ljósið bjarta

þá átt þú þennan æskuvin

sem eld í þínu hjarta.

Ef sérð þú falla heimsins hlyn

og harmur eyðir neista

þá átt þú þennan æskuvin

sem ávallt máttu treysta.

Ef þögnin magnar þungan dyn,

já, þegar yfir lýkur,

átt þú þennan æskuvin

sem aldrei frá þér víkur.

Þinn æskufélagi og vinur,

Örn Byström Jóhannsson (Örri).

Tryggasti vinur minn er látinn 78 ára. Kynni okkar Friðriks hófust þegar við vorum 6 ára, þar sem hann gekk kotroskinn í humátt á eftir vörubifreið sem ók löturhægt upp Háaleitisveginn, á palli hennar var íbúðarhús, byrðingarnir dingluðu með hliðunum, því húsið var mun breiðara en pallurinn. Ég og Hebbi vinur minn stóðum við vegkantinn og fylgdumst spenntir með. „Þetta er húsið mitt,“ sagði Friðrik. Húsið var sett á grunn, efst á hæðinni. Hér bjó Friðrik í tuttugu ár eða allt þar til hann hóf sambúð með Herdísi Gunngeirsdóttur.

Við tengdumst strax sterkum vináttuböndum. Það er margs að minnast frá þessum tíma. Við gengum saman í Laugarnesskólann, hálftíma gangur, fórum ekki hratt yfir, þurftum að ræða hin ýmsu mál og skoða og skynja umhverfið sem var margbreytilegt, lífið í braggahverfinu og búskapinn á sveitabýli neðan Suðurlandsbrautar, svo eitthvað sé nefnt. Á veturna nýttum við Háaleitisveginn sem sleðabraut, en þar var ágætisbrekka. Þá var ekki bílaumferðinni fyrir að fara.

Að skyldunáminu loknu urðum við samferða í Gaggó Réttó og þaðan í Versló, útskrifuðumst 1963.

Þegar komið var í gaggó var það til siðs á þessum árum að stunda sumarvinnu. Friðrik hélt sig við fiskinn framan af. Hann starfaði m.a. í Sænska frystihúsinu og Jupiter og Mars, að lokum réð hann sig sem háseta á gamlan eikarbát sem stundaði síldveiðar. Þeirri vertíð lauk þannig að báturinn sökk í blíðskaparveðri, skráð sem óhapp en ástæðan mun hafa verið aflaleysi ásamt samverkandi þáttum. Eftir þetta gerðist Friðrik landkrabbi og réð sig í símavinnuflokk í tvö sumur.

Að loknu skólanámi hóf Friðrik störf hjá Heklu hf. Í mörg ár að lokinni vinnuviku hittumst við reglulega á raftækjavinnustofu Heklu, áður en við svifum inn í helgina. Eftir 10 ára veru hjá Heklu hóf Friðrik störf hjá Sverri Þóroddssyni, heildsala m.m., og var þar í nokkur ár. Samhliða því hóf Friðrik að huga að eigin rekstri og starfaði sjálfstætt nánast alla tíð eftir að hann hætti hjá Sverri. Í fyrstu var það aðallega innflutningur, síðar fór hann yfir í gistihúsarekstur, þegar hann keypti sögufrægt hús, Suðurgötu 22. Það átti vel við Friðrik að starfa sjálfstætt, hann var hugmyndaríkur, ósérhlífinn.

Eftir að við urðum ráðsettir og komnir í foreldrahlutverkið dró allnokkuð úr samgöngum okkar á milli en þó var eitt og annað brallað. Í nokkur ár stunduðum við laxveiði saman í vatnaskilum Brúarár og Hvítár, en þar hef ég löngum haft aðstöðu. Veiðin var upp og ofan, náðum eitt sinn við þriðja mann 12 löxum, meðalþyngdin var 11,5 pund.

Friðrik gekk í Oddfellowregluna 1983 og leiddi hann mig inn í regluna árið 1988.

Að frumkvæði Friðriks byrjuðum við að spila bridge með eldri borgurum í Kópavogi fyrir nokkrum árum og skemmtum okkur vel. Okkur gekk stundum bara þokkalega, enda höfðum við farið á bridgenámskeið hjá Guðmundi Páli. Við urðum að draga okkur í hlé þegar veikindi Friðriks ágerðust. Eftir það létum við okkur nægja að taka að draga fram taflið af og til. Ég þakka Friðriki fyrir samfylgdina, traustið og öll þau gæfuspor sem fylgdu ráðum hans, það er mér mjög dýrmætt að hafa átt hann sem vin.

Við vottum börnum Friðriks og Herdísar, Gunngeiri, Ásgeiri og Sigurrós, afkomendum þeirra og Kristínu Hinriksdóttur okkar dýpstu samúð.

Hermann Tönsberg og Kristín Arnardóttir.

Sá er eftir lifir

deyr þeim sem deyr

en hinn dáni lifir

í hjarta og minni

manna er hans sakna.

Þeir eru himnarnir

honum yfir.

(Hannes Pétursson)

Ég kvaddi kæran vin minn, Friðrik Björnsson, á fallegum og björtum vetrardegi 16. febrúar síðastliðinn. Kynni okkar hófust fyrst í Breiðholtinu snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Ég hafði tekið að mér að standsetja lóðina við myndarlegt hús sem Friðrik og Herdís höfðu reist sér í Þingaseli. Er mig bar að garði var fjölskyldan að búa sig til brottfarar í sólarlandaferð. Mín beið hins vegar krefjandi og spennandi garðyrkjuverkefni. Samskipti okkar Friðriks meðan á framkvæmdunum stóð voru bæði mikil og góð og leiddu til ævarandi

vináttu. Mannkostir hans leyndu sér ekki, hann var hreinskiptinn, traustur og stutt í grín og glens.

Margs er að minnast þegar litið er til baka, enda oft hist, málin rædd og þegar þurfa þótti glösum lyft. Minnisstæðar samverustundir eru t.d. í tengslum við standsetningu á gistiheimilinu Krían við Suðurgötu og fjölmargar heimsóknir í sumarbústaðinn í Grímsnesi.

Friðrik leiddi mig inn í Oddfellowregluna fyrir rúmum 20 árum sem styrkti okkar vináttubönd enn frekar.

Að leiðarlokum vil ég þakka Friðriki fyrir langa og gefandi vináttu.

Guð blessi minningu hans.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Gunngeirs, Ásgeirs, Sigurrósar, barnabarnanna og Kristínar.

Theodór Hallsson.