Blönduós Flestir íbúar nýs sveitarfélags yrðu til húsa á Blönduósi.
Blönduós Flestir íbúar nýs sveitarfélags yrðu til húsa á Blönduósi. — Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
Stærsta skrefið sem stigið verður eftir sameiningu sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu er sameining Blönduósskóla og Húnavallaskóla, að sögn Jóns Gíslasonar, formanns samstarfsnefndarinnar.

Stærsta skrefið sem stigið verður eftir sameiningu sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu er sameining Blönduósskóla og Húnavallaskóla, að sögn Jóns Gíslasonar, formanns samstarfsnefndarinnar. Í minnisblöðum starfshópa á vegum nefndarinnar sem kynntir verða á rafrænum íbúafundum næstu daga kemur fram að rekstrarhagræði er að því að sameina skólana. Jón segir að ákveðinn aðlögunartími verði gefinn að því að leggja Húnavallaskóla niður enda þurfi að finna því góða húsnæði sem er á Húnavöllum nýtt hlutverk sem kalli á fjölbreytt störf.

Fulltrúar sveitarfélaganna fjögurra, Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Skagastrandar, hafa undanfarna mánuði átt í viðræðum um sameiningu. Tillögur sameiningarnefndar verða lagðar fyrir sveitarstjórnir um miðjan næsta mánuð og er við það miðað að íbúarnir gangi til kosninga um sameiningu 5. júní.

Í þessari viku verða tveir íbúafundir þar sem afrakstur af vinnu starfshópa um hina ýmsu málaflokka verður kynntur og íbúum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Fundirnir verða rafrænir. Fyrri fundurinn verður miðvikudaginn 3. mars kl. 20 til 23 og sá seinni laugardaginn 6. mars kl. 10 til 13.

helgi@mbl.is