Teravött Bitcoin hefur bæði kosti og galla sem greiðslumiðill.
Teravött Bitcoin hefur bæði kosti og galla sem greiðslumiðill. — AFP
Verð rafmyntarinnar bitcoin hefur verið á niðurleið undanfarna viku og var komið niður í 43.720 dali síðdegis á sunnudag. Hæst fór verð bitcoin upp í u.þ.b. 58.300 dali sunnudaginn 21. febrúar og nemur vikulækkunin því liðlega 25%.

Verð rafmyntarinnar bitcoin hefur verið á niðurleið undanfarna viku og var komið niður í 43.720 dali síðdegis á sunnudag. Hæst fór verð bitcoin upp í u.þ.b. 58.300 dali sunnudaginn 21. febrúar og nemur vikulækkunin því liðlega 25%. Vantar þó mikið upp á að öll hækkun þessa árs gangi til baka en rafmyntin kostaði rösklega 29.000 dali í ársbyrjun og um 10.000 dali áður en yfirstandandi hækkunarhrina hófst í október síðastliðnum.

Styrking bitcoin undanfarna mánuði hefur m.a. beint kastljósinu að því mikla magni raforku sem bitcoin-hagkerfið þarf á að halda. Bálkakeðjan, þ.e. hugbúnaðurinn sem skráir bitcoin-færslur og -eignarhald, kallar á mikla reiknigetu. Gagnaver um allan heim keppast við að halda utan um færslurnar og fá bitcoin-einingar að launum ef þeim tekst að klára útreikningana á undan öðrum.

BBC fjallaði um orkuþörf bitcoin um helgina og vitnar í rannsóknir sem áætla að bitcoin þurfi í dag um 111,7 teravattstundir af rafmagni árlega sem er ögn meira en öll orkuþörf Hollands árið 2019. Ekki nóg með það heldur er áætlað að um tveir þriðju hlutar af þeirri raforku sem bitcoin-kerfið notar séu framleiddir með bruna jarðefnaeldsneyta. Til að auka enn frekar á vandann eru undirstöður bitcoin hannaðar þannig að eftir því sem fleiri keppast um að halda utan um færslunar í bálkakeðjunni, því flóknari verða útreikningarnir og því meiri þörf fyrir reiknigetu.

Vitnar BBC í sérfræðing sem bendir á að megnið af þeim útreikningum sem eiga sér stað vegna bitcoin séu í reynd ekki að gera neitt gagn. Þá sé kerfið það flókið að ef bitcoin ætti að þjóna hlutverki forðagjaldmiðils fyrir allan heiminn myndi bálkakeðjan þurfa tvöfalt meira rafmagn en allar þjóðir heims framleiða í dag. ai@mbl.is