Árni Magnús Emilsson fæddist í Vestmannaeyjum 14. apríl 1943. Hann lést á Landspítalanum 17. febrúar 2021.

Foreldrar Árna: Emil Jóhann Magnússon, f. 25.7. 1921, d. 8.2. 2001, kaupmaður á Þórshöfn og í Grundarfirði, og Ágústa Kristín Árnadóttir, f. 6.8. 1921, d. 27.10. 2014, húsfreyja.

Systkini Árna: Aðalheiður Rósa (látin), Aagot (látin), Gísli Már Gíslason, Hrund (látin), Ágústa Hrund og Emil.

Eiginkona Árna er Þórunn Björg Sigurðardóttir, f. 1.7. 1943, tónmenntakennari. Hún er dóttir Sigurðar Árnasonar, f. 14.7. 1900, d. 10.9. 2000, bónda á Sámsstöðum í Fljótshlíð, og Hildar Árnason, f. 25.5. 1913, d. 23.1. 2003, húsfreyju.

Börn Árna og Þórunnar eru: 1. Orri, f. 1964, maki Anna Rún Ingvarsdóttir. Hún á Jóhönnu Hrund og Þórunni Þöll Einarsdætur. 2. Arna, f. 1966, hún á Victoriu Varela með Javier Varela. 3. Ágústa Rós, f. 1977, maki Svavar Jósefsson. Þau eiga Sölku og Hrafn Styrkár, en fyrir átti Ágústa Rós Úlf með Árna Fjölnissyni.

Árni ólst upp á Þórshöfn frá þriggja ára aldri til 1952. Þá flutti fjölskyldan í Grundarfjörð þar sem faðir hans varð framkvæmdastjóri hjá Sigurði Ágústssyni, útgerðar- og alþingismanni. Árið 1987 flutti Árni í Garðabæ.

Árni var í barnaskólum Þórshafnar og Grundarfjarðar, stundaði nám við Héraðsskólann í Skógum og lauk þaðan landsprófi, við MR í einn vetur, þá við lýðháskóla í Lófóten í Norður-Noregi og við Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni og lauk þaðan íþróttakennaraprófi 1962.

Árni var í sveit á Langanesi til 14 ára aldurs og næstu sjö sumur á síldarbátum frá Grundarfirði. Árni kenndi við Barnaskóla Grundarfjarðar frá 1963, sinnti verslunarstörfum hjá föður sínum í Verslunarfélaginu Grund, var sveitarstjóri Grundarfjarðar 1970-79, framkvæmdastjóri fiskvinnslufyrirtækisins Sæfangs í Grundarfirði 1979-82, útibússtjóri Búnaðarbankans í Grundarfirði 1982-87, útibússtjóri Búnaðarbankans í Garðabæ 1987-2002, útibússtjóri aðalbanka Kaupþings í Austurstræti 2002-2004 og við Landsbankann 2004-2010. Árni var, ásamt Sturlu Böðvarssyni, ritstjóri fjögurra binda rits, Ísland – atvinnuhættir og menning 2010.

Árni æfði og keppti í knattspyrnu, körfubolta og öðrum íþróttagreinum á vegum UMFG, var mikill áhugamaður um skák og var nokkur ár gjaldkeri Skáksambands Íslands, stóð fyrir ýmsum skákmótum og frægu skákmóti í Grundarfirði í tilefni af 200 ára verslunarsögu Grundarfjarðar. Hann er upphafsmaður að Friðriksmótinu sem haldið hefur verið á vegum Landsbankans frá 70 ára afmæli Friðriks Ólafssonar skákmeistara. Einn af stofnendum Félags ungra sjálfstæðismanna á Vesturlandi og fyrsti formaður þess. Sat í sveitarstjórn Grundarfjarðar frá 1974-1987 og einnig í fulltrúa- og kjördæmisráði flokksins á Vesturlandi. Starfaði í Sjálfstæðisfélagi Garðabæjar og sótti landsfundi um áratuga skeið. Sat í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og var formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Hann var formaður byggingarnefndar Fjölbrautaskólans í Garðabæ.

Útför Árna fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 1. mars 2021, klukkan 13.

Ég sé þá fyrir mér, afa leiða hann pabba, fjögurra ára kút upp í Staðarsel á Langanesi, fjarri alfaraleið, þar sem hann dvaldi sumarlangt í torfbæ hjá barnlausum hjónum, Vigfúsi og Ragnheiði, sem elskuðu hann eins og það barn sem þau þráðu að eignast. Næsta ár fluttu þau í Sætún og einnig þar var pabbi hjá þeim, næstu sjö sumurin. Fyrstu árin voru engar vélar og ekkert rafmagn, en þeim mun meiri gestagangur og gleði.

Þegar hann var tólf ára flutti fjölskyldan til Grundarfjarðar. Fjórtán ára munstraði hann sig á síldarbát og fylgdi síldinni eftir umhverfis landið, inn á alla firði og vinirnir flugust á sumrin löng, fiskuðu og þénuðu. Fyrir fyrstu sumarhýruna keypti hann ísskáp handa mömmu sinni.

Pabbi þreyttist seint á að segja okkur frá æskuárum sínum sem honum þótti svo vænt um og sveipaði ævintýraljóma. Þau mótuðu hann, frjálsræðið algert, uppátækin endalaus og hann fann til sín. Hann tapaði aldrei þeirri gleði sem einkennir æskuna, fágæt blanda af glettnum íþróttastrák og spökum öldungi var hann.

Það var kært með þeim feðgum, afa og pabba. Ræðuskörungurinn hélt bókum að pabba og þeir mátuðu sig hvor við annan í innblásnum og fjörugum samræðum, undirbúningi pólitískra skylminga og við krakkarnir hlustuðum hugfangin á. Pabbi las mikið og þekkt var dálæti hans á Halldóri Laxness, sem hann vitnaði í öllum stundum. Bjartur var hans maður og Gerpla sú bók sem best hefur verið skrifuð á íslenska tungu. En bókasafnið var stórt og hann naut þess að segja frá og kunni þá list að greina frá atburðum eða skoðunum með svo hárfínu og ljóðrænu orðavali að aðeins þurfti eina hendingu til. Stutt var í glensið og bílfarma af sögum.Hann þekkti ættir allra og mundi allt.

Í pabba sameinuðust í heppilegum hlutföllum, keppnisskap íþróttamannsins og þor sjómannsins, áhuginn fyrir fólki, bókmenntum og listum og minningin um elskuríka æsku. Ekkert yfirskyggði annað. Hann var fjölhæfur og fjölmenntaður, glaður, jákvæður og mildur og átti auðvelt með að hrífa fólk, en gat líka verið harður og fylginn sér.

Ég man ekki eftir miklu uppeldi af pabba hálfu. Hann var enda þeirrar skoðunar að affarsælast væri að hver flygi eins og hann væri fiðraður, en við áttum margar samverustundir. Í öllu hans vafstri sem sveitarstjóri í Grundarfirði fylgdumst við með þeirri miklu uppbyggingu sem átti sér stað í þorpinu og sem hann beitti sér fyrir af svo miklum áhuga og þrótti og harðfylgni ef með þurfti. Heimili okkar var hótel og veitingastaður til margra ára. Fæða og hýsa þurfti fjölda verkfræðinga, arkitekta og aðra sem að uppbyggingunni komu, enda engin gistihús önnur í boði. Margt var skeggrætt við eldhúsborðið og okkur systkinunum fannst ekkert eðlilegra en að fá að fylgjast með.

Þannig var það alla tíð að margt var rætt, byggt, farið og skoðað og stundum veitt.

Nú græt ég föður minn rétt eins og Akkiles harmaði Patróklos fóstbróður sinn forðum. Vinur minn er horfinn á braut og skarð hans verður ekki fyllt. Guð blessi minningu Árna Magnúsar Emilssonar, pabba míns.

Orri Árnason.

Á eftir söknuði kemur þakklæti upp í huga mér í dag er pabbi verður jarðsunginn. Þakklæti fyrir að hafa átt slíkan föður í heil 43 ár. Ég velti því oft fyrir mér hvernig pabbi fór að því að vera eins og hann var. Afburðamaður sem ég gat leitað til með allt og réð mér ávallt heilt. Háskólagráður þvældust ekki fyrir honum en samt var hann víðmenntaður, ríkur í anda, kjarkaður og kom ávallt að kjarna málsins.

Þegar nánar á málið er horft þá liggur svarið í augum uppi. Hann umgekkst gott fólk. Líklega var það hans dýrmætasti lærdómur. Fjögurra ára gamall var hann sendur til bændahjóna til sumardvalar vegna veikinda móður hans. Í burstabæ þar sem fyrst var hvorki rafmagn né vélar var pabba sinnt af slíkri alúð að hann dvaldi þar á hverju sumri til fjórtán ára aldurs og lærði góð gildi. Við tóku sjö sumur á síldveiðum. Aftur vann hann með sómafólki við aðstæður sem 14 ára unglingar gætu vart ímyndað sér í dag. Vinnudagar langir, rými fyrir hvíld lítið en samverustundir þeim mun betri. Pabbi vann ungur við verslunarfélagið Grund sem faðir hans rak í Grundarfirði. Þeir voru vinir sem unnu náið saman. Afi var skarpgreindur ræðumaður, leiftrandi húmoristi og víðlesinn dugnaðarforkur sem átti ógrynni bóka. Amma nostraði við heimili og fjölskyldu af mikilli reisn. Það var ekki ónýtt fyrir föður minn að njóta leiðsagnar slíks fólks og mótast af því umhverfi sem hér hefur verið nefnt.

Pabbi hafði sterkar skoðanir, var rökfastur og ákveðinn en á sama tíma mildur og skilningsríkur, sem er einstök blanda. Hann var örlátur á tíma sinn þegar fólk þurfti hjálp. Oft bauð hann fram aðstoð áður en mér hafði hugkvæmst að nefna nokkuð og ég veit að margir hafa notið góðs af hjálpsemi hans. Hann naut þess er öðrum gekk vel og hafði metnað fyrir því að samfélag hans dafnaði.

Íslensk tunga lék í höndum hans. Tilsvör hafði hann á reiðum höndum og studdi með vísan í bókmenntir. Og það sem hann gat skemmt okkur með sögum! Þegar hann gerði sig líklegan til að taka til máls í margmenni vissi fólk að von væri á góðu. Það birti til þar sem hann kom og hann setti brag á það sem hann snerti. Glettni og gleði var allsráðandi.

Minningar streyma fram um þá góðu samfylgd sem við áttum. Ég man bílferðirnar fyrir vestan þegar keyrt var í óveðrum yfir fjöll og firnindi. Engum treysti ég betur til að koma okkur upp úr sköflum og niður ísilagðar brekkur. Ég man öll ferðalögin okkar innanlands og utan og þá var nú gaman. Minnist þess að þvælast um sem barn með pabba að hitta fólk og redda málum. Óteljandi samverustundir eru nú dýrmætar minningar. Hans gæfuspor var að hitta mömmu og það yljar þegar ég hugsa til þess hve pabbi talaði fallega um hana í mín eyru. Undir lokin var hún það fyrsta og síðasta sem hann nefndi þegar við hittumst.

Ég sé hann fyrir mér á fögru sumarkvöldi fara glettinn með vísu í húsinu sem hann byggði með bravúr, Sætún í Grundarfirði, og kríurnar taka undir.

Nú er pabbi farinn í langferð sem við öll þurfum einhvern tímann að halda í en ég get huggað mig við það að hann kveið henni ekki. Hann bjó yfir styrk og yfirvegun sem var engu líkt. Við sjáumst síðar, elsku pabbi minn, en þangað til lifir minningin um þig í hjarta mínu. Takk fyrir allt og allt.

Þín dóttir,

Ágústa Rós.

Þakklæti er mér efst í huga í dag þegar ég kveð tengdaföður minn og vin, Árna Emilsson. Þakklæti, því það er ekki sjálfgefið á fullorðinsárum að kynnast mannbætandi fólki sem auðgar líf manns.

Ég hitti Árna og Þórunni fyrst fyrir um áratug, í sumarhúsi þeirra við Grundarfjörð, á fyrstu dögum sambands okkar Orra. Þau komu óvænt og ég hafði áhyggjur af að koma ekki nógu vel fyrir. Þær áhyggjur voru óþarfar því ég vissi ekki þá, það sem ég veit nú, að Snolli kunni þá list öðrum fremur að skapa þægilegt andrúmsloft og leiða innihaldsríkar umræður um menn og málefni. Úr varð hin notalegasta stund þar sem ættfræði bar á góma og örugglega vísanir í verk Laxness og Íslendingasögurnar líka.

Þetta var góð byrjun á farsælum viðkynnum okkar Árna. Hann var mikill sagnameistari og litríkar frásagnirnar hans einkenndust af glettni og hlýju í garð samferðamanna.

Þegar ég kynntist Árna var farið að hægjast um hjá honum eftir fjölbreyttan og farsælan starfsferil. Ég náði þó að kynnast vinnugleði hans og samskiptahæfni þegar við Orri byggðum okkur hús í félagi við hann. Verkaskipting var góð, Orri sá um hönnunina og ég um peningamálin, en Árni sinnti mikilvægasta verkefninu sem var að hvetja til góðra verka og halda mönnum við efnið. Hann sá til þess að iðnaðarmennirnir fengu kjarngóðan mat í hádeginu, sagði sögur og fór með vísur ásamt því að leggja þeim lið og snattast. Það var alltaf tilhlökkunarefni að koma á verkstað.

Hlýjar minningar um elsku Árna lifa áfram í hjörtum okkar sem standa honum nærri.

Hann var með allra bestu mönnum.

Anna Rún Ingvarsdóttir.

Elskulegur mágur minn Árni Magnús Emilsson (Snolli, eins og hann var oftast kallaður) er látinn. Hann og Þórunn Björg systir mín kynntust á unglingsárunum á Héraðsskólanum að Skógum. Mér finnst því sem hann hafi alla tíð verið einn af fjölskyldunni okkar, en ég var bara stelpukrakki þegar þau ákváðu að leggja upp í sameiginlega lífsgöngu. Á sama tímabili og þau kynntust var Árni Þorsteinn bróðir okkar systra einnig nemandi á Skógum og mynduðust sterk vináttubönd milli þeirra nafna sem héldust alla tíð en auk vináttunnar varð systir Snolla, Aagot, síðar sambýliskona Árna bróður.

Kynslóðirnar koma og fara, það er víst lífsins gangur og þegar fólk nær því að verða sjötugt eða þaðan af eldra þá telst það vera orðið eldra fólk sem hefur þörf fyrir hvíld. Þá er oft sagt að fólk setjist í helgan stein. Aldrei sást til Snolla í þeim steini eða í nálægð við hann því Snolli var sífellt í ýmsum erindagjörðum, verkefnum og framkvæmdum út um borg og sveit við að rétta fjölskyldunni eða vinum sínum hjálparhönd. Það var mjög gaman að koma í heimsókn til hans og Þórunnar hvort heldur það var í Grundarfirði eða Garðabæ. Margvíslegar umræður fóru þá í gang og oft sagði húsbóndinn mergjaðar sögur af kynlegum kvistum sem annaðhvort voru upprunnir úr bókum eða byggðarlögum. En það sem einkennt hefur þau hjón sameiginlega umfram annað er hversu þau hafa alltaf haft það að leiðarljósi í lífinu að gera öðrum gott.

Það væri hægt að telja upp svo óteljandi atriði um ágæti Snolla en í fáum orðum þá koma strax upp í hugann eftirfarandi eiginleikar og einkenni: Hann var mikið glæsimenni og vandaður og góður maður. Hann var hress og skemmtilegur, fróðleiksfús og bjó yfir mikilli þekkingu á þjóðlegum fróðleik og skáldskap. Hjálpfús og óeigingjarn var hann með eindæmum. Mikill sögumaður með góða jarðtengingu. Úrræðagóður og sjálfbjarga. Tryggðartröll og meðvitaður um hvað það er sem skiptir höfuðmáli í lífinu. Vinnusamur og mikill fjölskyldumaður.

Snolli bjó líka yfir ýmsum hæfileikum sem glöddu hann sjálfan sérstaklega í lífinu. Sem dæmi má nefna hversu drátthagur maður hann var. Hann málaði og teiknaði flottar myndir á yngri árum. Ég man eftir nokkrum málverkum sem Þórunn hafði fengið að gjöf af aflabátum, sennilega málaðar eftir sumarvinnu Snolla á síld. Hann stundaði mikið íþróttir og fótbolta á yngri árum og útskrifaðist sem íþróttakennari frá Laugarvatni. Til Noregs fóru þau Þórunn saman þar sem Snolli fór í frekara nám í íþróttafræðum. Hann hafði mikla unun af taflmennsku og fylgdist grannt með og kom víða við í öllu sem við kemur skák.

Nú hefur mikið tómarúm myndast hjá öllum þeim sem nánir voru Snolla. Við í tengdafjölskyldunni munum ætíð minnast hans með innilegu þakklæti og væntumþykju. Við sendum Þórunni systur okkar, Orra, Örnu og Ágústu Rós, tengdabörnunum og barnabörnum og systkinum Snolla, mökum þeirra og systkinabörnum innilegar samúðarkveðjur á þessum tímamótum.

Blessuð sé minning Árna M. Emilssonar.

Þórdís A. Sigurðardóttir.

Okkur langar til að minnast mágs okkar og svila, Árna Emilssonar, sem alla tíð frá fyrstu kynnum reyndist okkur og allri stórfjölskyldunni einstaklega vel og sú kynni spanna nú um 60 ár.

Þegar þau fjölskyldan bjuggu í Grundarfirði var alltaf gott að koma til þeirra. Þau hjónin voru afar gestrisin og tóku ávallt sérlega vel á móti vinum sínum og vandamönnum. Árni var einstaklega fróður og skemmtilegur maður, vinmargur og félagslyndur. Hvar sem hann kom létti hann iðulega lundina hjá fólki með orðhnyttni sinni og kímni. Fáir skreyta sögur af mönnum og málefnum eins og hann gerði.

Eftir að Árni hætti að vinna og um hægðist voru hann og Þórunn samhent í því að hjálpa til við það sem þurfti í stórfjölskyldunni, sama hvort um var að ræða flutninga, málningarvinnu eða uppörvandi samtöl.

Árna verður saknað af okkur öllum, en mestur er þó söknuður hjá Þórunni, börnum, tengdabörnum og barnabörnum. Við sendum ykkur öllum samúðarkveðjur. Minning um góðan mann lifir.

Sara og Gunnar.

Glaður, áhugasamur og óhræddur, þannig maður var Árni M. Emilsson „Snolli“. Við systkinin sem vorum nokkru yngri en hann litum ætíð upp til hans, hann var leiðtogi í svo mörgu, sérstaklega á sveitarstjórnarstiginu, þar sem hann leiddi hið unga samfélag okkar Grundarfjörð til öflugrar uppbyggingar. Fáir menn hafa haft áhrif á sitt umhverfi með eins sterkum ummerkjum og Snolli á Grundarfjörð, allt mannlíf og atvinnusköpun. Snolli studdi alla sem vildu stuðla að uppbyggingu atvinnulífs hvar í flokki sem menn voru. Hann var bakhjarl karls föður okkar, Guðmundar Runólfssonar, er hann lét byggja fyrir sig skuttogarann Runólf SH, og fór ófáar ferðir til Reykjavíkur til að tryggja verkefninu framgang. Hann tók að sér að stýra fiskvinnslu fyrirtækisins á fyrstu árum þess. Hann var einn af örfáum sem barðist fyrir því að fisksölumál Íslendinga yrðu frjáls, sem þau voru ekki langt fram á 9. áratug síðustu aldar. Þar kom hans einharða skoðun um frelsi einstaklingsins og frjálsa verslun fram. Snolli var sjálfstæðismaður. Það var einstakt fyrir okkur að fá að fylgjast með Snolla í pólitískum slag, þar hafði hann yfirburði og dró til Sjálfstæðisflokksins fjölda manna bæði í kosningum til Alþingis og ekki síst til sveitarstjórnar þar sem hann hafði fylgi langt út fyrir hin venjulegu flokksbönd. Þannig var í okkar sveit að vinstrið og framsókn þurftu að ganga í eina lúna sæng til að hafa roð í Sjálfstæðisflokkinn, og dugði sjaldnast til. Það var missir fyrir okkur að sjá á eftir Snolla á höfuðborgarsvæðið en þangað drógu m.a. bankarnir blóma landsbyggðarinnar. En hann hafði óslítandi taug til Grundarfjarðar og byggði sér hér fallegan bústað teiknaðan af Orra syni hans. Þar dvaldi hann löngum og las fagurbókmenntir.

Minningin um hinn fróma svein mun lengi lifa meðal Grundfirðinga. Þórunni, börnum þeirra og barnabörnum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðju.

Börn Guðmundar og Ingu,

Guðmundur Smári

Guðmundsson.

Árni Magnús Emilsson bar nöfn afa sinna. Hann var annað barn foreldra sinna og var fæddur í Vestmannaeyjum 1943, þar sem foreldrar hans voru fyrstu hjúskaparárin á heimili móðurforeldra hans. Undirritaður (þ.e. Guðmundur föðurbróðir Árna Magnúsar) varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vera á því rausnarheimili á vetrarvertíðinni 1941 og verður ávallt þakklátur fyrir það.

Þegar Árni Magnús var kornabarn kom föðursystir hans, Guðný Ragnheiður, í heimsókn. Hún ljómaði yfir fegurð barnsins og sagði: mikið er hann snollalegur. Þetta orð finnst ekki í orðabókum en gælunafnið Snolli festist við drenginn.

Þessi efnispiltur óx úr grasi á Þórshöfn og í Grundarfirði, í barnmargri fjölskyldu Emils og Ágústu. Eftir að barnaskóla lauk fór hann að heiman til náms, m.a. suður á land, fyrst í Skógarskóla og síðan í Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni. Á þessum árum kynntumst við honum vel, því hann gisti oft hjá okkur á leiðinni að heiman og heim úr þessum skólum. Þá var tímafrekara að koma sér á milli staða en nú er. Það var alltaf tilhlökkunarefni að fá hann í heimsókn, því hann hafði svo góða nærveru, var ávallt glaður og reifur, kíminn, skrafhreifinn og minnti svo mikið á karl föður sinn, sem var sannarlega skemmtilegur frændi. Og ekki minnkaði aðdáun frændsystkinanna þegar hann sýndi snilli sína og gekk á höndum!

Árni Magnús átti glæstan feril bæði í störfum sínum og áhugamálum og farsælt líf með Þórunni sinni, börnum og barnabörnum. Það var alltaf jafn gaman að hitta hann, hvort sem var á förnum vegi, í heimsóknum eða á ættarmótum, nú síðast á Laugarvatni sumarið 2019, þar sem hann var einn af skipuleggjendum vel heppnaðs móts. Það er sárt að þurfa nú að kveðja hann Snolla, sem var ímynd hreysti og lífsgleði og við samhryggjumst Þórunni, afkomendum og stórfjölskyldunni allri af heilum hug. Minningin um góðan dreng mun lifa með okkur.

Guðmundur Magnússon, Anna A. Frímannsdóttir,

börn og fjölskyldur.

„Mikið er hann snollalegur,“ varð Gunsu frænku okkar að orði er hún leit hvítvoðunginn augum úti í Eyjum fyrir 77 árum. Spurð um merkingu orðsins var fátt um svör og enn þann dag er málið óleyst sem í sjálfu sér er hið besta mál því litlaus væri tilveran ef við hefðum svör við öllu. En sum sagt, þetta var tilurð gælunafnsins Snolla og með fullri virðingu fyrir Árnanafninu þá var og er nóg til af Árnum í landinu en aðeins eitt eintak af Snolla og það eðaleintak.

Við Snolli vorum systkinasynir og fyrstu kynni mín af honum munu hafa verið upp úr miðri síðustu öld. Þá tíðkaðist sá siður í landinu að börn voru send til sumardvalar í sveit en þá var frændi kominn til Grundarfjarðar. Ekki sluppum við frændur undan þessari hefð, ég var sendur í sveitarfélög ekki mjög fjarri höfuðstaðnum, væntanlega til að lágmarka fyrirhöfn af stroki og ekki dugði minna en að senda Snolla landið á enda alla leið á Langanesið með strandferðaskipi með viðkomu í Reykjavík. Nú eru strandsiglingar illu heilli löngu aflagðar og þess í stað var þjóðvegakerfinu kerfisbundið splundrað sem var létt verk og löðurmannlegt enda lagt einungis í aðra áttina. Á þessu ferðalagi sínu í sveitina gisti Snolli einatt á heimili foreldra minna. Þá var nú hátíð í bæ og við 10 ára guttarnir máluðum bæinn rauðan, þræddum flestar sjoppur borgarinnar þar sem aðalrétturinn var Lindubuff og kók með lakkrísröri. Bíóin voru heiðruð með nærveru okkar og Roy Rogers og Tarzan aðalhetjurnar og auðvitað reynt að svindla sér inn á myndir bannaðar innan 12. Allt þetta í boði Snolla sem hafði ríflegan farareyri í langt og strangt ferðalag til sveitardvalar.

Ekki fara sögur af fjárreiðum Snolla í sveitinni eftir borgarsollinn.

Þeir feðgar Bói og Snolli voru nauðalíkir í fasi og framkomu, frábærilega skemmtilegir og til allrar hamingju varð þeim ekki fótaskortur á minnimáttarkenndinni. Snolli var vel lesinn og hygg ég að hann hafi lesið allar Íslendingasögurnar og flestar oftar en einu sinni. Hitti hann suður á Spáni fyrir nokkrum árum við lestur Njálu. Nóbelsskáldið var í uppáhaldi og Bjartur kallinn hans maður. Sennilega væri Bjartur í Sumarhúsum sjálfstæðismaður væri hann meðal okkar í dag og þá áhugaverð spurning hvort aðild okkar að ESB væri honum þekkileg að ekki sé talað um kvótakerfið. Fyrir skömmu tókum við frændi tal saman og ræddum m.a. sögupersónuna Bjart í Sumarhúsum sem margur hefur sterkar skoðanir á, einkum nú í seinni tíð þar sem allt skal vera nýmóðins og gömul og góð gildi úti í kuldanum. „Þeir mættu vera fleiri Bjartarnir í þessu landi,“ sagði frændi og glotti kalt. Þar þekkti ég minn mann.

Við Margrét, Ágústa og fjölskylda sendum Þórunni, börnum og ástvinum öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Kannski eigum við Snolli eftir að fá okkur Lindubuff og kók með lakkrísröri, ég býð og bíð.

Vertu kært kvaddur og Höfuðsmiðnum falin.

Ólafur Ágúst Þorsteinsson.

Nú þegar við kveðjum Árna M. Emilsson er ástæða til þess að minnast hans. Árni var tryggur vinum sínum og uppruna. Þau óteljandi samtöl sem við Árni áttum enduðu oft á því að hann lagði áherslu á mál sitt með því að vitna í Njálu eða Eyrbyggju sem hann hafði dálæti á. Ævisaga séra Árna á Stórahrauni eftir Þórberg var líka í uppáhaldi sem og skáldverkið Kristnihald undir Jökli þar sem finna mátti líkingu við skrautlega framvindu samtímans. Kynni okkar Árna hófust þegar ég var í Skógaskóla og hann kom þangað með hópi fyrrverandi nemenda. Hann var mikill íþróttagarpur og vakti mikla aðdáun þegar hann fór heljarstökk í íþróttahúsinu. Þegar leiðir okkar lágu saman á Skógum höfðum við ekki hist. Samskipti á milli unglinga þorpanna á Snæfellsnesi voru ekki mikil því Búlandshöfðinn var þar farartálmi uns vegur var lagður yfir Þrælaskriðu. Hann tók mér vel þegar við hittumst á Skógum og sagði við mig að Snæfellingar ættu hvorki að vera feimnir né hlédrægir. „Stattu á þínu,“ sagði þessi vígreifi ungi maður til þess að efla unglinginn.

Upp frá þessum kynnum okkar skapaðist vinátta sem leiddi til stöðugra samskipta og samráðs. Árni var aðsópsmikill á vettvangi félagsmála á Snæfellsnesi. Til hans var leitað vegna starfa í þágu samfélagsins. Hann var sveitarstjóri í Grundarfirði og sat í stjórnum og ráðum og beitti sér mjög í þágu Snæfellinga. Hann kom að mörgum framfaramálum svo sem varanlegri gatnagerð í þorpunum á Snæfellsnesi sem unnin var með einstöku samkomulagi sveitarstjórnanna og stuðningi vinar okkar Guðjóns Yngva Stefánssonar framkvæmdastjóra SSV en þeir Árni unnu mikið saman. Eftir að Árni flutti til Garðabæjar var hann fljótlega kominn á kaf í málefni þess samfélags og lagði fram krafta sína. En hugur hans var samt allur við starfið í bankanum. Ég varð þess ríkulega var úr ýmsum áttum að hann þótti einstakur bankamaður hvort sem hann stýrði útibúi Búnaðarbankans í Grundarfirði eða starfaði í aðalstöðvum Landsbankans sem hann gerði við starfslok árið 2010. Fyrri störf Árna nýttust honum vel þegar hann hóf störf sem útibússtjóri og hann hafði einstaka tilfinningu fyrir þörfum viðskiptavina bankans. Þegar Árni var hættur störfum í bankanum var leitað til hans að ritstýra verkinu Ísland – atvinnuhættir og menning 2010. Fékk hann mig með sér í þetta verkefni og við nutum þess báðir.

Eins og fyrr er getið þá var Árni mikill áhugamaður um bókmenntir og sagnfræði, en það áhugamál sem hann naut hvað mest og best var skákin. Árni var lánsamur að kynnast sinni góðu konu Þórunni í Skógaskóla þegar þau voru unglingar. Þrátt fyrir að þau Árni og Þórunn flyttu frá Grundarfirði í Garðabæinn voru ræturnar sterkar við Eyrarsveitina sem sást best á því er þau reistu fallegt frístundahús við Grundarfjörðinn þaðan sem Kirkjufellið blasir við í allri sinni dýrð. Þangað leitaði fjölskyldan og þar tóku þau á móti vinum og ættingjum. Við Hallgerður þökkum vináttu og samverustundir liðinna ára og vottum Þórunni og fjölskyldunni innilega samúð á kveðjustundu.

Sturla Böðvarsson.

„Það syrtir að, er sumir kveðja.“ Þessi fleygu orð Davíðs Stefánssonar koma í hugann líkt og ljóðskáldið lýsir í líkindamáli, þegar horft er á fölnandi brá, sem áður brosti svo bjart. Og þannig verður mörgum innanbrjósts við hinstu kveðju Árna Magnúsar Emilssonar; aldrei fremur en þegar menn verða að kveðja fullir orku og atgervis eftir snarpa baráttu við illvíg veikindi eins og við átti um hann.

Ég naut þeirrar gæfu að vera samferða honum stóran hluta ævinnar, fyrst sem góðir félagar og síðar nánir vinir. Mér er í fersku minni, þegar leiðir okkar lágu fyrst saman á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi fyrir fjórum áratugum síðan. Í kvöldverðarboði samtakanna réð lánið því að mér var skipað til sætis með glaðbeittum Snæfellingum. Þar á meðal var Árni, hrókur alls fagnaðar – þá sem endranær. Fasið var vingjarnlegt, hann var kátur og glaður að upplagi, brosti með augunum og raunar andlitinu öllu, og með fáum var jafngaman að skemmta sér og hlæja.

Ljóst var að hugur Árna hefur mótast mjög af uppvaxtarárunum á Þórshöfn og í Grundarfirði. Það heyrðist best, þegar hann lýsti æsku- og unglingsárunum, þá kom glöggt í ljós, hvernig þessi sonur sjávarbyggðanna var samgróinn þessu öllu: landinu, lífinu, sögunni og fólkinu. Hann bjó að einstöku sagnaminni og var úrtökufróður, ekki síst um atvinnusöguna og stjórnmál liðinnar aldar. Þessi góða blanda gerði Árna að samræðusnillingi, sem menn sóttust eftir að kynnast, enda gat hann með hnyttnum tilsvörum snúið gráum degi í gleðistund. Húmor hans var græskulaus og í brjósti hans var hjarta, sem jafnan sló með þeim, sem ranglæti voru beittir. Þannig sagði hann sjálfur að væri hjartalag góðra frjálslyndra íhaldsmanna.

Sumir menn eru þeirrar gerðar að vera hvort tveggja í senn athafnamenn á veraldlega vísu og trúir andans menn, merkisberar tveggja oft að því er virðist ólíkra heima. Þannig hefur Árni Emilsson gjarnan komið mér fyrir sjónir; einbeittur hugsjónamaður kaldrar rökhyggju, þegar það á við, en samtímis hjartahlýr og margfróður um menn og málefni, víðlesinn og vellesinn í sögum jafnt sem ljóðum og auk þess sérstakur áhugamaður um myndlist og skák. Hann var fjölmenntaður maður í þess orðs fyllstu merkingu, átti gott safn góðra bóka, minnugur mjög og hafði firnagaman af að segja góðar sögur. Mörgum molum laumaði hann að mér og á góðum stundum reyndi ég að launa líkum líkt eftir bestu getu. Þótt í mörgu hallaði á lét hann þó aldrei á neinu bera. Margt, sem á milli fór í löngum samtölum, mun seint gleymast. Ekki verður séð hvað komið getur í stað þeirra stunda.

Árni var röggsamur sveitarstjóri í Grundarfirði og atkvæðamikill á vettvangi sveitarfélaga á Vesturlandi um árabil. Fjölskyldan flutti í Garðabæ árið 1986, þegar Árni tók við útibúi Búnaðarbankans í bænum. Hann var fljótt kallaður til verka fyrir bæjarfélagið, fús til þess að leggja lið. Í hverju góðu máli munaði miklu um liðveislu hans. Árni sat í nefndum á vegum bæjarins og veitti formennsku í byggingarnefnd Fjölbrautaskólans í Garðabæ, sem ásamt þáverandi skólameistara, Þorsteini Þorsteinssyni, stóð fyrir og fylgdi eftir byggingu þessa glæsilega skóla. Hann var lengi vel í trúnaðarsveit sjálfstæðismanna í Garðabæ og á kjördæmisvísu og lagði þar ávallt gott eitt til mála. Þegar mikið lá við, var Árni jafnan kallaður til, enda var hann vel tengdur utan sem innan bæjar, ráðagóður, hreinskiptinn og öllum heill. Það er vissulega ómetanlegt að eiga slíka að í ölduróti stjórnmálanna.

Nú er komið að leiðarlokum. Þín verður sárt saknað kæri vinur. Heimurinn verður annar – raunar allt annar. Við Hallveig og fjölskyldan þökkum ómetanlega viðkynningu og einlæga vináttu. Innilegar samúðarkveðjur sendum við ykkur kæra Þórunn, Orri, Arna og Ágústa Rós, barnabörnum og öðrum ættingjum. Minningin um gott og farsælt æviskeið mun lengi lifa.

Ingimundur Sigurpálsson

Við Árni Emilsson sátum aldrei saman í stjórn Skáksambands Íslands (SÍ). Hann hætti sama ár og ég kom inn í stjórnina, árið 1992. Sem ungur maður fylgdist ég með Árna Emilssyni með mikilli virðingu þótt ég þekkti hann lítið sem ekkert.

Ég man vel eftir honum á aðalfundum SÍ. Einu sinni óskaði hann eftir að tillögu, sem honum þótti heimskuleg, yrði vísað út í ystu myrkur. Fundarstjóri vildi ekki samþykkja það sem frávísunartillögu. Ég man ekki hvað málið snerist efnislega um eða hver niðurstaðan varð en Árni hafði örugglega rétt fyrir sér!

Árni kom inn í stjórn SÍ árið 1989 og setti þegar svip sinn á stjórnina. Hann var lykilmaður í byggingarnefnd SÍ og á aðalfundinum 1992, árið sem hann hætti, flutti hann skilaboð um byggingarstyrk frá ríkisstjórn Íslands, upp á 15 milljónir króna, sem skipti um sköpum um að SÍ eignaðist veglegt húsnæði.

Skákþing Íslands var haldið í Grundarfirði árið 1986. Árni var þá útibússtjóri Búnaðarbankans og beitti sér fyrir mótshaldinu. Mótið var eitt það sterkasta í sögunni og vakti þar 14 ára skákmaður, Hannes Hlífar Stefánsson, mikla athygli fyrir góða frammistöðu.

Sjálfur kynntist ég Árna fyrst af alvöru þegar við unnum saman í Búnaðarbankanum og síðar Landsbankanum. Þá urðum við góðir kunningjar og stundum leit ég við á skrifstofu Árna til að spjalla um heima og geyma. Þó mest um skák sem Árna var mjög hugleikin. Í Landsbankanum, þar sem Árni var útibússtjóri útibúsins í Austurstræti, átti hann frumkvæði að afar vel heppnuðum viðburði sem hét Friðriksmót Landsbankans og var haldið í útibúinu. Fyrsta mótið var haldið árið 2004. Mótið varð ómissandi hluti af jólahaldi skákmanna og er enn.

Í október 2008 hrundi svo bankaspilaborgin. Bankarnir drógu mjög úr öllu markaðsstarfi. Létu lítið fyrir sér fara. Við Árni forðuðumst umræðuefnið Friðriksmótið en þegar áætluð dagsetning var farin nálgast óðfluga kíkti ég við á skrifstofu Árna. „Hvað segirðu um Friðriksmótið – er ekki vonlaust að fá samþykki fyrir því?“ Árni horfði á mig í smástund og sagði svo glottandi „Þá er best að spyrja ekki!“

Mótið var haldið í desember 2008 og hefur verið haldið síðan – skákmönnum til mikillar ánægju. Meira að segja lifði mótið Covid af og var haldið á netinu í fyrra. Árni kíkti yfirleitt við á mótið eftir að hann hætti í bankanum og lék stundum fyrsta leikinn eða afhenti verðlaun.

Árna verður saknað á Friðriksmótum framtíðar. Ég minnist Árna af miklum hlýhug. Hann átti mikinn þátt í uppbyggingu skákhreyfingarinnar og því að hún eignaðist sitt húsnæði. Án hans væri ekkert Friðriksmót í Landsbankanum. Honum verður seint fullþakkað.

Ég votta aðstandendum hans samúð mína. Skákhreyfingin hefur misst góðan mann.

Gunnar Björnsson,

forseti Skáksambands Íslands.

Mér finnst ekki langt síðan hringt var í mig og mér sögð þau tíðindi að starfsfélagi minn og góður vinur til fjölda ára, Árni M. Emilsson, væri alvarlega veikur. Engan veginn bjóst ég þó við að svo stutt yrði á milli fregna um veikindin og andláts þessa góða vinar og hjálparhellu. Ég segi hjálparhellu því eitt helsta einkenni Árna var hjálpsemi og aðstoð við fólk sem átti í vandræðum og þurfti á aðstoð að halda.

Við Árni kynntumst og hófum fljótlega góðan vinskap, árið 1978, þegar ég og fjölskylda mín fluttumst til Ólafsvíkur og ég tók við starfi útibússtjóra Landsbanka Íslands. Skömmu síðar tók Árni við framkvæmdastjórn fiskvinnslufyrirtækisins Sæfangs í Grundarfirði, hans heimabæ. Svo varð að Árni kom með bankaviðskipti fyrirtækisins til Landsbankans í Ólafsvík.

Nú, en svo þróuðust málin þannig að ég flutti minn starfsvettvang aftur til Reykjavíkur í ársbyrjun 1982 og var ráðinn til að gegna starfi aðstoðarbankastjóra Búnaðarbanka Íslands og jafnframt starfi forstöðumanns erlendra viðskipta Búnaðarbankans. Fljótlega var ákveðið að setja á stofn útibú Búnaðarbanka Íslands í Grundarfirði. Hvorki varð leitin að útibússtjóra löng né ströng. Árni Emils var ráðinn. Árið 1986 tók Árni við starfi útibússtjóra Búnaðarbankans í Garðabæ og árið 2002 tók hann svo við starfi útibússtjóra aðalútibús hins nýsameinaða banka, Kaupþings Búnaðarbanka. Ég lét af störfum sem bankastjóri KB banka í árslok 2004 og sama ár hvarf Árni til starfa í Landsbanka Íslands. Af allri þessari upptalningu má sjá að samstarf okkar Árna var bæði langt og gott.

Ég minntist á það hér að framan að eitt helsta einkenni Árna, og kostur sem bankamanns, hefði verið hjálpsemi við náungann. Reyndar var það svo að yfirstjóra bankans fannst á stundum helst til ógætilega lánað. Ekki minnist ég hins vegar að útlánatöp hafi verið meiri þar sem Árni kom að verki en annars staðar í bankanum.

Árni hafði hins vegar mikinn kost, sem hreint ekki var öllum gefinn. Kosturinn var sá að hafa hæfileika til að laða í viðskipti hjá sér menn, konur og fyrirtæki, sem áttu fé til að geyma á vöxtum í banka. Í þá daga a.m.k. var það talið nauðsynlegt að banki hefði innlán til að standa að baki útlánum sínum. Allt átti það eftir að breytast.

Auk þess sem hér að framan segir um hjálpsemi við viðskiptavini bankans vil ég þakka Árna sérstaklega fyrir hans góðvild og hjálpsemi í minn garð og fjölskyldu minnar, nú seinast fyrir aðstoð hans í sambandi við veikindi konu minnar.

Kæra Þórunn, ég samhryggist þér og fjölskyldu ykkar Árna innilega vegna ótímabærs fráfalls hans.

Guð veri með ykkur,

Sólon Rúnar Sigurðsson.

Kær vinur er fallinn frá. Árni Magnús Emilsson var einstakur öðlingur og traustur vinur. Ég kynntist Árna fyrst upp úr 1970 á vettvangi ungra sjálfstæðismanna. Þá var Árni sveitarstjóri í Grundarfirði. Í sveitarstjórnarmálum var hann öflugur forystumaður á Vesturlandi til margra ára. Við urðum strax góðir vinir og á þá vináttu bar aldrei skugga. Alla tíð síðan vorum við í góðum samskiptum og mörg samtöl höfum við átt þar sem málefni lands og þjóðar voru brotin til mergjar. Árni var forystumaður í öllum þeim verkefnum sem hann starfaði við á sínum langa starfsferli. Hann átti auðvelt með að leysa flókin mál og leiða menn saman í þeim fjölmörgu viðfangsefnum sem hann tókst á við. Hann var hollur og góður ráðgjafi.

Árni kom víða við á lífsleiðinni og naut ávallt trausts og virðingar í þeim störfum sem hann gegndi. Allt frá fyrstu kynnum okkar Árna á vettvangi ungra sjálfstæðismanna hafa samverustundir okkar verið margar. Frásagnargáfa Árna var slík að viðstaddir hlustuðu vel þegar Árni sagði sögur af mönnum og málefnum. Þær frásagnir einkenndust ósjaldan af glettni og jákvæðni. Hann kryddaði sögur sínar með þeim hætti að þær voru ógleymanlegar. Hann var í raun einstakur sögumaður. Samvera með þeim hjónum, Árna og Þórunni, voru ávallt gleðistundir og eftirminnilegar.

Árni var mikill félagsmálamaður, öflugur þátttakandi í félags- og stjórnmálastarfi Sjálfstæðisflokksins, vinsæll og virtur sveitarstjóri á Grundarfirði og síðar í öðrum störfum sem hann gegndi. Hann var heilsteyptur og baráttuglaður í öllum þeim viðfangsefnum sem hann tók sér fyrir hendur á lífsleiðinni og átti gott með að finna lausnir þegar öll sund virtust lokuð. Það er mikill sjónarsviptir af Árna. Minningin um góðan dreng mun lifa og ég er einstaklega þakklátur fyrir að hafa átt hann að nánum vini í áratugi. Guð blessi minningu hans.

Við Guðrún sendum Þórunni, börnum og barnabörnum og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Við vorum tólf sem útskrifuðumst vorið 1963 frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni. Þetta var hópur ungs fólks sem kom víða að af landinu. Í dag minnumst við eins úr hópnum, okkar góða félaga Árna Emilssonar sem hefur allt frá haustinu 1962 átt svo stóran hlut í lífi okkar samnemenda hans. Hans miklu mannkostir og ljúfa nærvera hefur gert okkur að betri manneskjum. Árni, eða Snolli, eins og hann var jafnan kallaður, vakti fljótt athygli okkar hinna og þá einkum fyrir þrennt: Einstaka jákvæðni, glaðlyndi og tilvitnanir í Halldór Kiljan og þá sérstaklega Bjart í Sumarhúsum. Ef eitthvað sérstakt kom upp á var vitnað í Kiljan eða önnur stórskáld. Meira að segja tiltekt á Timburvöllum gaf tilefni til góðra tilvitnana.

Árni lagði mikið af mörkum í námi og félagslífi skólans. Hann var áhugamaður um skák og þýddi lítið fyrir okkur hin að etja kappi við hann við taflborðið. Eins og flest okkar hafði Árni lagt stund á íþróttir og fengum við að kynnast keppnisskapi hans. Hjá strákunum á heimavistinni var stöðugt verið að keppa í hinu og þessu en frægust var þó handstöðukeppnin. Kári Árnason, fimleika- og knattspyrnukappi frá Akureyri, hafði oftast vinninginn en í síðustu keppninni var Árni staðráðinn í að sigra. Og það gerði hann svo sannarlega – stóð keikur á höndum lengur en nokkur annar. Eftir góðan vetur á Laugarvatni þar sem byggst hafði upp ákaflega góð vinátta meðal allra í hópnum hélt síðan hver til síns heima að lokinni útskrift um vorið og undantekningarlaust hófu allir störf við kennslu.

Þegar við kvöddumst þarna á Laugarvatni áttum við varla von á því að þessi hópur ætti eftir að eiga samleið allt frá þessum sólríka degi í júnímánuði 1963. Upphafið var að stúlkurnar í hópnum mynduðu saumaklúbb sem hefur hist reglulega allt fram á þennan dag og strákarnir í hópnum héldu sambandi sín á milli. Fjölskyldur mynduðust og makar bættust í hópinn. Við vorum svo lánsöm að kynnast Þórunni konu Árna strax á Laugarvatni þar sem hún stundaði nám við Húsmæðraskóla Suðurlands sama vetur. Hápunktarnir í samskiptum hópsins hafa ætíð verið afmælisferðirnar sem hafa verið með fimm eða tíu ára millibili. Síðasta ferðin var á æskuslóðir Árna í Grundarfirði og sá Árni um að skipuleggja hana frá A til Ö. Er óhætt að segja að þetta hafi verið mikil ævintýraferð. Við gistum í smáhýsum á Þórdísarstöðum en þau eru örskammt frá þeim stað þar sem Árni og Þórunn höfðu byggt sér bústaðinn Sætún. Þar tóku þau hjón höfðinglega á móti okkur fyrsta kvöldið og daginn eftir fengum við fróðlega kynningu á Grundarfirði og nágrenni ásamt því að skoða þá frábæru náttúru sem þar er að finna allt í kringum jökulinn. Kærar þakkir Árni og Þórunn.

Það er erfitt að þurfa að sætta sig við að fá ekki að hitta Árna aftur. Að spjalla um heima og geima, finna hvað hann var víðlesinn og fróður um svo margt. Við sendum Þórunni og fjölskyldu þeirra Árna innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd útskriftarhóps frá ÍKÍ 1963,

Helgi Hólm.

Kveðja frá skólasystkinum í Skógaskóla

Látinn er helsti forystumaður og leiðtogi okkar skólasystkina í Skógaskóla, frá árunum 1957-1960. Árni Magnús Emilsson hét hann fullu nafni, í okkar hópi ætíð kallaður Snolli.

Það var mislitur hópur ungmenna sem hittist haustið 1957 í Héraðsskólanum í Skógum. Mörg okkar voru að fara að heiman í fyrsta sinn á ævinni, til langvarandi dvalar fjarri bernsku- og æskuheimilum.

Þetta voru mikil umskipti í lífi óharðnaðra unglinga. Skógaskóli var heimavistarskóli á gagnfræðastigi, fyrir börn og ungmenni úr Rangárvalla- og Skaftafellssýslum. Nemendafjöldinn á þessum árum var um og yfir 100 manns, í þremur aldursflokkum. Meirihlutinn af okkar hópi kom úr sveitum og þorpum á Suðurlandi. Fáeinir krakkar voru lengra að komnir, úr þéttbýlinu suðvestanlands, af Snæfellsnesi og að norðan.

Strax á fyrstu dögum og vikum skólalífsins stokkaðist nemendahópurinn saman. Sú samstokkun gekk misjafnlega vel. Hver og einn hafði veganesti heiman að frá sér, frá sínu æskuheimili.

Þéttleiki mannlífsins var mikill. Vettvangi daglega lífsins var þröngur stakkur skorinn, í skólastofum, heimavistarherbergjum og í matsalnum. Þessu til viðbótar nutu nemendur útiveru og íþrótta í yndisfögru nágrenni skólasetursins. Aðskilnaður kynjanna var strangur, stelpugangur einn og strákagangar tveir.

Skólastjórinn, Jón R. Hjálmarsson, var röggsamur stjórnandi og harður í horn að taka. Með honum starfaði fámennur og góður hópur samviskusamra kennara. Agi var strangur og skólabragur allur í föstum skorðum.

Snolli var allt frá upphafi sjálfkjörinn forystumaður okkar hóps í öllum meginþáttum skólalífsins. Hann var öðrum krökkum lífsreyndari og félagslega bráðþroska. Kaupmannssonur vestan úr Grundarfirði, nýkominn af sumarvertíð sem síldarsjómaður fyrir norðan.

Hann var glæsilegur að vallarsýn, hávaxinn og hnarreistur. Bráðvel gefinn, víðlesinn og vel að sér um menn og málefni. Frábærlega skemmtilegur félagi og einstakur sagnamaður. Það sópaði að honum hvert sem hann fór og hvar sem hann var.

Eftirminnilegasti þáttur skólalífsins í Skógum var íþrótta- og félagslífið. Á þeim sviðum nutum við leiðsagnar Snorra Jónssonar íþróttakennara. Tvær greinar heilluðu Snolla öðrum fremur. Annars vegar knattspyrnan og hins vegar skáklistin.

Á báðum þessum áhugasviðum eignaðist Snolli góðan vin og sálufélaga, Aðalbjörn Kjartansson frá Hvolsvelli, Alla Kjartans. Þeir voru óvenjunánir vinir alla tíð. Báðir kynntust þeir verðandi eiginkonum sínum á skólaárunum í Skógum. Eftirlifandi eiginkona Snolla er Þórunn B. Sigurðardóttir frá Sámsstöðum í Fljótshlíð.

Nú eru þeir vinirnir báðir horfnir yfir móðuna miklu. Væri þess nokkur kostur, handan ljósvakans, að stunda dægrastyttingu, þá myndu þeir örugglega taka nokkrar spyrnur í fótbolta, setjast að tafli og kíkja á enska boltann. Og segja gamansögur frá Skógaárunum af kennurum og nemendum.

Við skólasystkinin kveðjum mikilhæfan og minnisstæðan forystumann og félaga. Þórunni og fjölskyldunni sendum við samúðarkveðjur.

Njáll Sigurðsson.

Árni Emilsson var gull af manni. Hann var ekki aðeins einstakur samstarfsmaður okkar um áratuga skeið heldur líka trölltryggur vinur og velgjörðarmaður.

Við hittum hann fyrst í Grundarfirði daginn sem við fórum þangað vestur í til að heilsa upp á söfnuð Setbergsprestakalls haustið 1974. Þá var hann sveitarstjóri og áhugi hans á velferð samfélagsins leyndi sér ekki. Árni unni þessari byggð og lagði henni til krafta sína af miklum metnaði. Hann var stórhuga athafnaskáld, ekkert var of gott fyrir Grundarfjörð og stóran hlut á hann í flestum þeim framfaramálum sem við höfum glaðst yfir í gegnum tíðina. Við bjuggum í Grundarfirði í 16 ár. Á þeim tíma sinnti Árni mörgum ábyrgðarstörfum, vinsæll og vel látinn af samborgurum sínum.

Árni var mikill gæfumaður í einkalífi. Þau Þórunn voru kornung þegar þau hittust fyrst og samhent og einhuga hafa þau leiðst um lífsins veg. Börnum sínum bjuggu þau traust og gott atlæti og hollan heimanbúnað. Heimilið óvenjufallegt og vel búið með menningarlegu yfirbragði, bæði hrifnæmir fagurkerar með einlægan áhuga á fögrum listum. Mikill gestagangur var á heimili þeirra. Um langt árabil áttu margir erindi við sveitarstjórann, framkvæmdastjóra fiskvinnslufyrirtækis eða bankastjóra. Öllum var tekið af hlýrri gestrisni og rausn. Þess nutum við einnig grannar þeirra og vinir ríkulega þessi árin og samfélagið á Fagurhólnum var yndislegt. Börnin trítluðu á milli húsanna og gerðu kannski lítinn mun á sínu heimili og annarra. Fullorðna fólkið datt inn í kaffi fyrirvaralaust í tíma og ótíma, öll hús ólæst og lyklar aldrei teknir úr bílum. Það voru góðir tímar, fullir af gleði, gæsku og trausti.

Árni var glæsimenni svo eftir var tekið og viðmót hans hlýtt og aðlaðandi. Hann var skarpgreindur, vel menntaður og víðlesinn og kunni góð skil á ótrúlega mörgu. Hann var hégómalaus og gerði sér ekki mannamun. Hann var einkar lipur í mannlegum samskiptum, næmur og læs á aðstæður hverju sinni, ráðhollur og greiðvikinn, hlýr og skilningsríkur og dugði þeim vel sem áttu undir högg að sækja fyrir einhverra hluta sakir og fylgdi eftir slíkum erindum. Hann var hreinskiptinn og réttsýnn maður en engu að síður fastur fyrir og ákveðinn ef því var að skipta. Heilindi og trúnaður einkenndu framgöngu hans og samskipti við samferðamenn.

Árni var afar snjall skákmaður og hafði mikið yndi af þeirri glímu og útsjónarsemi sem sú íþrótt kallar eftir. Hann talaði fallegt mál, skrifaði fallegan texta með fallegri rithönd og hann bjó yfir einstakri frásagnargáfu með leikrænum tilburðum og eftirhermum þegar það átti við. Öll var sú frásögn græskulaus og skemmtileg. Sögupersónur Halldórs Laxness voru heimilisvinir og orð þeirra og tilsvör töm á tungu. Hann var góður ræðumaður, hnyttinn og orðheppinn en gat líka verið hvass og beittur í stjórnmálaumræðu ef svo bar undir, sótti fast og tók hressilega á móti. Alltaf þó af fullri virðingu fyrir mótstöðumönnum, sanngjarn og réttsýnn. Þannig var Árni hrókur hvers fagnaðar, glaður og hress.

Árni var hugsjónamaður í stjórnmálum og þau voru ofarlega í huga hans hverja stund. Sjálfstæðismaður af lífi og sál. Áskorun hans var tekið um þátttöku í sveitarstjórnarmálum í Grundarfirði á sínum tíma og reyndist upphaf að 30 ára ferli í sveitarstjórn og á Alþingi. Hvatning hans og stuðningur var heill og óskiptur allan þann tíma og munaði um hann meira en flestra. Sú liðveisla öll skal þökkuð hér sérstaklega.

Það er á meðal stærstu þakkarefna lífsins að hafa átt samleið með Árna og Þórunni og eignast vináttu þeirra og trúnað. Stutt er á milli heimila okkar í Garðabænum og sumarhúsin okkar í framsveitinni fyrir vestan eru steinsnar hvort frá öðru. Þar er gott að una í sælureit í samfélagi fjölskyldu og vina, með gönguferðum í fjörunni við Naustál, dorg á trilluhorni á lygnum firði og notalegt skraf í kvöldkyrrunni þar sem landið er fegurst alls sem fagurt er á Fróni. Og nú er vorið í vændum í sveitinni kæru. Frostköld holtin lifna senn af söng vorboðanna, blessuð sólin signir landið og gyllir Barðaströndina, brekkan okkar á milli húsanna grænkar, sjófuglarnir bíða þess að setjast upp í eyjuna og fönnin hverfur úr herðum fjalla. Birtan að sigra myrkrið og fram undan er náttlaus voraldar veröld.

Á slíkri tíð kveður Árni vinur okkar. Sú vinátta heldur áfram að vera til þótt leiðir skilji og bjart er um þá minningu sem hann lætur eftir.

Guð blessi minningu um góðan dreng.

Guð blessi Þórunni, börnin þeirra og afkomendur alla.

Sigríður Anna Þórðardóttir,

Jón Þorsteinsson og dætur.

Unga sveitarstjóranum fylgdi ferskur andblær; vænting um nýja tíma. Í lofti lágu breytingar af því tagi sem annaðhvort vekja ugg hjá fólki eða efla því kjark. Árni M. Emilsson var þeirrar gerðar að strax varð ljóst að hann myndi marka skýr og mikilvæg spor í sögu byggðarlagsins.

Vorið 1970 blésu pólitískir vindar þannig að sjálfstæðismenn í kompaníi við Framsókn ákváðu að ráða heimamanninn Árna sem sveitarstjóra, þá 27 ára gamlan. Verkefni hreppsins voru ærin og ekkert lát á uppbyggingu síðustu ára í kjölfar vaxandi útgerðar og hafnarbóta. Fjárhagurinn var þó æði þröngur. En Árni var tilbúinn. Hann þekkti krafta sína og köllun, hans andi var vaknaður til sín sjálfs, og vængirnir vaxnir og fleygir, eins og Einar Ben. orti. Árni varð gjörvilegur leiðtogi þessa unga byggðarlags á tímum mikilla þjóðfélagsbreytinga og aukins frelsis á mörgum sviðum.

Með fyrsta togaranum varð viðurværið stöðugra. Áttundi áratugurinn varð mesta húsbyggingartímabil í sögu byggðarinnar og ráðist var í það stórvirki að leggja bundið slitlag á götur og skipta um lagnir. Bærinn var sundurgrafinn og sannfæra þurfti fólk um ágæti slíkra framkvæmda. „Auðvitað sættust menn á að það væri eftirsóknarvert að framvegis gætum við gengið um á dönskum skóm á sólskinsdögum, rétt eins og þeir í Reykjavík,“ ritaði hann.

Við kosningar 1978, '82 og '86 var Árni jafnframt kjörinn í sveitarstjórn og naut mikils persónulegs fylgis, þvert á flokkslínur. Árna leiddist ekki pólitískt vafstur. Hann var vel lesinn og fróður, minnugur, mælskur og rökfastur og fundvís á kjarna hvers mál. Umfram allt var hann skemmtilegur sögumaður og kunni öðrum betur að átta sig á fólki. Í þá daga var pólitíkin öðruvísi og flokkslínur skarpari. Í vöggugjöf hafði Árni hins vegar fengið einkar góðar gáfur og hafði þroskað með sér fágæta samskiptahæfileika, byggða á jákvæðu upplagi hans og húmorísku lífsviðhorfi. Hann var pólitískur fram í fingurgóma, en slíkt stórmenni að hann lét ekki pólitískar þrætur hafa áhrif umfram það sem ástæða var til. Menn voru þrátt fyrir allt í sama liði og málstaðurinn var verðugur: „Við setið býli, sóttan fjörð, skal sýnd vor ást í verki,“ orti Einar Ben. Ást sína á byggð og samfélagi sýndi Árni alla tíð í verki, enda mikill Grundfirðingur. Þau Þórunn og fjölskyldan öll létu ekki síður um sig muna í íþrótta-, menningar- og félagsstarfi.

Eftir að fjölskyldan flutti suður 1986, þar sem Árni stýrði bankaútibúum, reistu þau Þórunn sér glæsilegt hús í Framsveitinni, hannað af Orra syni þeirra. Þar dvöldu þau oft „því æskustöðvarnar eiga allan kærleik manns lengst“ svo enn sé vitnað í skáldið.

Ég naut þeirrar gæfu að vera sumarstarfsmaður í Búnaðarbankanum hjá Árna. Seinna naut ég stuðnings hans og góðra ráða sem ungur sveitarstjóri í sömu sveit og æ síðan. Fyrir þau kynni er ég ævinlega þakklát. Við Hemmi sendum Þórunni, Orra, Örnu og Ágústu Rós og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Um leið færi ég ástvinum samúðarkveðjur frá Grundarfjarðarbæ. Hinstu kveðju og virðingu vottar bæjarstjórn Árna M. Emilssyni, með þakklæti fyrir hans verðmæta framlag til byggðar og samfélags.

Vertu kært kvaddur er heldur þú þinn veg og teflir á nýjum slóðum. Þar mun ekki ríkja lognmollan, en án alls vafa gleðin, með orðum Einars Ben.:

Bráðum slær í faldafeykinn –

forlög vitrast gegnum reykinn.

Alls má freista. Eitt ég vil.

Upp með taflið. – Ég á leikinn.

Meira á www.mbl.is/andlat/.

Björg Ágústsdóttir,

bæjarstjóri í Grundarfirði.

Árni M. Emilsson fyrrum bankastjóri var sannur sjálfstæðismaður sem hafði að leiðarljósi að menn ættu að vera sjálfstæðir, hugsa um náungann og rækta gott samband við þjóð og land. Á síðari árum fannst honum þessu miður farið og lét hann þær skoðanir sínar í ljós þegar svo bar undir.

Kynni okkar Árna hófust fyrir nær 30 árum, þegar ég réð frænda hans, Hallgrím Hallgrímsson, í vinnu til mín á Þórshöfn þegar ég bjó þar. Á síðastliðnum tveimur árum höfðum við oft hist hjá Halla á Droplaugarstöðum og þá var oft glatt á hjalla og gaman að hlusta á frásagnir Árna. Hann var mjög víðlesinn og einstaklega fróður um flestar bókmenntir og vitnaði oft í skáldsögur eftir Laxness og hina ýmsu fornkappa Íslendingasagnanna. Þegar Árni sagði sínar skemmtilegu sögur þá skipti það engu hvort ég hafði heyrt sömu söguna einu sinni eða tíu sinnum, því alltaf hló maður jafn mikið að sagnaspeki hans. Rödd Árna var mjög skýr og glettin og stundum þegar hann komst á flug þá fór hann í mikinn frásagnarham sem endaði oft með því að hann hló manna mest og allir með honum. Margar sögur sagði hann mér af gömlum Langnesingum og Þistlum, þar á meðal af hjónunum Vigfúsi og Ragnheiði frá Sætúni, þar sem hann dvaldi nokkur sumur í sveit. Ættfræði var einnig mikið áhugamál hjá honum og vissi hann óhemju í þeim fræðum.

Með þessum fátæklegu orðum ætla ég að kveðja góðan vin og veit að hann er á góðum stað. Elsku Þórunn, Arna, Orri, Ágústa og aðrir fjölskyldumeðlimir, ég sendi hér mínar dýpstu samúðarkveðjur og megi góður guð styrkja ykkur í ykkar mikla missi.

Magnús H. Helgason.

Nú reikar harmur í húsum

og hryggð á þjóðbrautum.

Svo hljóðar brot úr ljóði Jónasar Hallgrímssonar sem hann orti um skáldbróður sinn Bjarna Thorarensen og talið er að hann hafi farið með í útför hans. Þannig voru upphafsorð í minningargrein sem Árni skrifaði til föður míns, Ragnars Haraldssonar og finnst mér vel eiga við í dag.

Í dag kveðjum við stórvin okkar Grundfirðinga. Árni kom víða við í Grundarfirði og bar hag okkar alltaf fyrir brjósti. Hann varð framkvæmdastjóri í nýstofnuðu fiskvinnsluhúsi Sæfangs hf. Þar var ég svo heppinn að fá að vinna með honum. Árni og Þórunn bjuggu á holtinu í nágrenni við foreldra mína, góður vinskapur skapaðist á holtinu, tekist var á um menn og málefni, eins og gengur. Þær voru ófáar skákirnar sem Árni og pabbi tóku, sérstaklega á sunnudögum áður en pabbi lagði af stað suður á flutningabílnum. Það var svo ómetanlegt að fá ykkur pabba saman í hádeginu í fisk og gellur í einum af síðustu ferðum hans hingað vestur.

Nú að leiðarlokum erum við þakklát fyrir mikla vináttu og vinsemd í gegnum árin.

Ég sendi Þórunni, Orra, Örnu, Ágústu og fjölskyldum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Jóna Björk Ragnarsdóttir

og fjölsk.

Kynni okkar Árna Emilssonar hófust fljótlega eftir að hann varð útibússtjóri Búnaðarbankans í Garðabæ. Ég leitaði til hans um stuðning við ákveðið verkefni hjá Stjörnunni en bankinn hafði löngum verið hliðhollur félaginu. Ég komst fljótt að raun um að Árni hafði einlægan áhuga á félaginu enda íþróttaáhugamaður. Hann veitti styrkinn en notaði tækifærið til að spyrja margs um eðli og starf félagsins. Það var hans háttur að setja sig inn í mál á starfssvæði bankans, kynna sér þau ítarlega og taka ákvarðanir út frá því.

Óhætt er að segja að það var góð ráðstöfun fyrir samfélagið í Garðabæ að Árni kom til starfa í bankanum og ekki er á neinn hallað þó að sagt sé að hann átti stærsta þáttinn í því að útibúið í Garðabæ varð undir hans stjórn stærsta útibú bankans utan Reykjavíkur. Sú alúð sem hann lagði í verk sín skilaði sér í trausti og vinsældum sem urðu m.a. til að auka félags- og atvinnustarfsemi í Garðabæ og auðvelda einstaklingum að taka sér búfestu í bænum.

Síðar áttum við nána samvinnu við ákveðinn þátt í starfsemi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Okkur var falið að leiða vandasamt starf tengt kosningum. Þar kom það til að margir voru kallaðir en fáir útvaldir. Skákviska Árna kom að góðum notum, sú að meta stöðuna og sjá leiki fram í tímann. Stundum reyndi verulega á og kæmi til togstreitu vitnaði Árni gjarnan í þær ágætu sögupersónur séra Jón prímus og Bjart í Sumarhúsum sem leystu mál með ólíkum hætti. Og þegar niðurstaðan var fengin var staðið við hana með sannfæringu um að hún væri sú eina rétta.

Árni var glaðsinna maður sem einstaklega gott var að umgangast og þiggja af ráð. Hann var vinmargur í Garðabæ og til hans lá gott orð ekki aðeins sem bankamanns heldur einnig sem félaga. Fyrir daga net- og hraðbanka voru persónuleg samskipti mikilvæg í þjónustu bankanna og þau kunni Árni Emilsson sannarlega að rækta. Við sem áttum hann að kunningja eða vini munum sakna hans af heilum hug þegar hann hefur nú gengið inn í þá tilveru þar sem jökulinn ber stöðugt við loft, landið er ekki jarðneskt og engar sorgir búa. Þar mun fegurðin ein ríkja.

Steinar J. Lúðvíksson.

Í dag kveðjum við góðan kunningja minn og stuðningsmann til margra ára. Árni var í mörg ár formaður skólanefndar Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Hann reyndist okkur ævinlega vel í skólanum og var jafnan boðinn og búinn að styðja okkur til góðra verka í skólastarfinu. Í ýmsum erfiðum málum reyndist Árni útsjónarsamur og fljótur að finna góðar leiðir til að leysa mál, menn með lausnamiðaða hugsun eru gulls ígildi. Þá var jafnan stutt í gamansamar frásagnir hans í alvöruþrungnum málum og oft með skemmtilegum tilvitnunum í góð íslensk bókmenntaverk. Fyrir utan hina hefðbundnu fundi í skólanum naut ég þess að geta oft hitt Árna og rætt ýmis mál og þegið af honum góð ráð. Hann hafði mikinn áhuga á skák og var virkur stuðningsmaður íslenskrar skákhreyfingar og sat um tíma í stjórn Skáksambands Íslands.

Það var okkur mikill og góður fengur þegar Árni var valinn fulltrúi menntamálaráðherra í byggingarnefnd nýs skólahúsnæðis fyrir Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Nefndin var skipuð öflugum og vandvirkum mönnum og árangurinn varð góður eftir því: Glæsileg og vönduð skólabygging. Það var ævinlega gott og gaman að hitta Árna. Hann hafði létta lund og var jafnan spaugsamur og skiptumst við oft á gamansögum.

Ég votta eiginkonu Árna, börnum þeirra og öðrum ættingjum og vinum innilega samúð mína.

Blessuð sé minning Árna M. Emilssonar.

Þorsteinn Þorsteinsson.

Fyrstu kynni mín af Árna voru þegar hann tók við starfi útibússtjóra í Garðabæ og myndaðist frá þeirri stundu ævarandi samband.

Fundarstaðir voru oft og tíðum mjög óhefðbundnir, ýmist heima í stofu, á Kaffivagninum, Heiðmörk eða eftir venjulegan vinnutíma í bankanum.

Árni á heiðurinn af því að við höfum haldið áfram þessari útgáfustarfsemi okkar. Í baslinu og baráttunni fyrsta áratuginn var hann óþreytandi í að hvetja okkur áfram. Og hélt því áfram með aðstoð og áhuga fram á síðasta dag.

Ég leitaði til hans eftir hrun og lagði að honum hvort hann væri ekki til í að koma að ritstýra ritverki um atvinnulífið enda fáir eins burðugir til að koma að því verki. Það var auðsótt og hafði hann annan mætan mann, Sturlu Böðvarsson, með sér í verkið sem meðreiðarmann eins og hann orðaði það.

Í framhaldi af þessu fórum við ófáar ferðirnar um landið og hittum forystumenn atvinnulífsins og það var sama hvert maður kom. Það var eins og Árni hefði alltaf tengingar, hann náði alltaf að tengja fólkið við aðra sem hann þekkti.

Í öllum ferðunum skein í gegn hversu mikill sögumaður hann var og mannþekkjari sem ég fékk að njóta í ferðum okkar á milli staða.

Það sem einkenndi Árna var áhugi hans á fólki, hverra manna það væri, og sýndi virkilegan áhuga á viðmælanda sínum. Sýndi mikið umburðarlyndi, hófsamur og gríðarlega hjálpsamur.

Hann þekkti fólk alls staðar út um land og bar með sér augljósa manngæsku. Hann var góðmenni.

Árni var svo miklu meira, hann var mikill fjölskylduvinur og fyrir utan vinnuna naut ég þess oft að vera í návist hans á hinum ýmsu stundum. Átti óteljandi gæðastundir með honum í gegnum tíðina.

Það er mikil eftirsjá eftir Árna sem fór oft óhefðbundnar leiðir hvort sem það var í bankanum eða daglegu lífi.

Ég vil votta Þórunni og fjölskyldu hans samúð mína um leið og ég kveð mikinn öðling með mikilli eftirsjá.

Farvel kæri vinur.

Bragi og Brynhildur.