[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Elías Gunnlaugsson fæddist 22. febrúar 1922. Elías lést 5. febrúar 2021.

Útför fór fram 26. febrúar 2021.

Tengdapabbi minn Elías Gunnlaugsson (Elli á Gjábakka) kvaddi þennan heim 5. febrúar saddur lífdaga, átti stutt eftir í 99 árin. Líf Ella eins og margra samferðamanna hans einkenndist af að byrja snemma á því að draga björg í bú, hjá því var ekki komist þegar margir voru í heimili. Elli var fæddur og uppalinn Eyjapeyi þannig að vinnuævi hans snerist eingöngu um sjómennsku og eftir að sjómannsferli hans lauk fór hann að vinna í fyrirtækjum sem þjónustuðu sjávarútveginn. Þegar Elli var til sjós voru starfsgildi hans allt frá því að vera hálfdrættingur upp í að vera skipstjóri, en lengst af var Elli vélstjóri til sjós. Þegar Elli hætti til sjós réð hann sig til Vélsmiðjunnar Magna, þar starfaði hann sem lagermaður. Þar lágu leiðir okkar saman þar sem ég var að hefja störf í Magna sem iðnnemi. Og hlutirnir æxluðust þannig að innan fárra ára var ég orðinn tengdasonur hans. Við Elli náðum fljótt vel saman og urðum við fljótt mjög góðir vinir og hélst sú vinátta alla okkar sameiginlegu lífsgöngu. Eftir að Heimaeyjargosinu lauk 1973 ákváðu eigendur Vélsmiðjunnar Magna að flytja starfsemi sína aftur til Eyja, en þeir þurftu að hætta starfseminni í Eyjum þegar gosið hófst. Elli og Maggý byggðu sér fallegt heimili að Boðaslóð 17. Húsið er þannig staðsett að það varð fyrir litlu tjóni í gosinu og þurfti því ekki mikið að gera til að gera það íbúðarhæft. Starfsmenn Magna voru á leið út í Eyjar til að gera vinnustað sinn starfhæfan. Elli bauð mér og föður mínum að búa hjá sér en hús foreldra minna varð fyrir miklum skemmdum í gosinu og var því ekki íbúðarhæft. Samveran myndaði með okkur þá vináttu sem ég hef nefnt. Einnig mynduðust mjög góð kynni milli fjölskyldu minnar og fjölskyldu Ella. Þegar Skipalyftan varð til með sameiningu Magna, Völundar og Geisla hóf Elli störf þar á lager. Þar lauk Elli starfsævi sinni tæplega 78 ára gamall. Elli bar hag fjölskyldu sinnar ávallt fyrir brjósti. Hann var í eðli sínu ljúfur og barngóður, gat þó verið hrjúfur í tilsvörum og stríðinn. Elli var sannkallað náttúrubarn, hugsaði vel um heilbrigt líferni stundaði fjallgöngur og synti mikið. Elli hafði skemmtilega frásagnarhæfileika, sérstaklega þegar hann var að vitna í gamla tímann. Þú komst ekki að tómum kofunum hjá Ella þegar þú þurftir upplýsingar um staðhætti eða húsanöfn í Eyjum, þar var Elli á heimavelli. Elli var félagi í Lions og vera hans þar veitti þeim mikla ánægju. Lífshlaup Ella var orðið langt en það var líka gjöfult. En hann háði ekki lífshlaupið einsamall því Maggý hans stóð þétt við bakið á honum alla tíð. Þó svo þau væru ekki alltaf samála og eins ólík og þau voru var samheldni þeirra til eftirbreytni. Elli og Maggý eignuðust þrjú börn sem þau hjón voru mjög stolt af. Eftir að tengdamamma mín lést 2016 fór að draga af mínum manni, lífslöngun hans dvínaði við að missa lífsförunaut sinn, lífið hafði ekki sama tilgang fyrir hann eftir andlát hennar. Kæri Elli, ég kveð þig með þakklæti. Það var mikið gæfuspor fyrir mig að vera hluti af fjölskyldu þinni. Þú skilar kveðju til tengdamömmu.

Stefán Örn Jónsson.

Nú er komið að ferðalokum hjá elsku afa Ella. Afi var hógvær og traustur maður. Aldrei læti, aldan stigin af yfirvegun og málin leyst.

Þegar við systkinin vorum lítil vorum við svo lánsöm að umgangast ömmu og afa mikið og heimsóknir á Boðaslóðina og síðar Brimhólabrautina nánast daglegt brauð. Það sem okkur þótti mest spennandi var að fá að kíkja á smíðaverkstæðið í kjallaranum og fá að taka í hefilbekkinn eða skera út alls konar listaverk, þó aldrei nema undir þinni traustu leiðsögn. Ef okkur bar snemma að garði varstu oftar en ekki farinn út í þínar daglegu göngu- og sundferðir, á meðan amma Maggý var rétt komin fram úr til að finna til súrmjólk með púðursykri handa þér eftir hreyfingu dagsins.

Það var gaman að upplifa samband ykkar ömmu, ást ykkar var svo sannarlega sönn þrátt fyrir ólík áhugamál og skoðanir.

Eftir heimsókn var manni alltaf fylgt út á pall á Brimhólabrautinni, þá horfði afi til himins, leit svo á fuglabjargið í Hánni og tilkynnti manni síðan hvernig veðrið yrði næsta dag. Þarna var náttúrubarnið, maður sem mótaður var af umhverfinu. Þekkti Eyjuna sína og vildi hvergi annars staðar vera.

Takk fyrir samveruna afi. Við erum ótrúlega lánsöm fyrir allan þann tíma sem við fengum með þér.

Þín barnabörn,

Bjarni Geir, Sindri,

Margrét Lára og Elísa.

Elsku hjartans afi minn.

Nú er komið að kveðjustund og þú hefur lokið þínum kafla hér í þessari jarðvist.

Þú ert eflaust hvíldinni feginn en samt er svo erfitt að kveðja. Það voru aðeins nokkrir dagar í 99 ára afmælisdaginn þinn þegar þú sofnaðir síðasta svefninum og eru það algjör forréttindi að hafa fengið að hafa þig svona lengi á meðal okkar.

Þú varst ekki maður margra orða og naust þín best á göngu úti í náttúrunni eða í sundlauginni. Þú varst líka svo hlýr þó að þú hleyptir alls ekki öllum að þér. Þeir sem komust í faðm þinn áttu sérstakan stað í hjarta þínu. Yfir þér var alltaf svo mikil ró og þú varst alltaf svo þolinmóður.

Afi var svo hlýr og góður maður sem öllum sem hann þekktu þótti vænt um. Hann var líka einn sá þrjóskasti maður sem ég hef kynnst og var ómögulegt fá hann til að breyta um skoðun ef hann var búinn að taka ákvörðun.

Afi var mikill áhugamaður um veður og spáði í veðrið fram á síðasta dag. Vond veður fóru mjög illa í hann og vildi hann helst að afkomendur hans væru ekkert á ferðalagi yfir veturinn. Sjálfur fór hann nánast ekkert frá Eyjum og leið hvergi betur en þar. Afi var líka mikil barnagæla og þótti honum afar vænt um börnin sín og barnabörn. Hann hristi oft hausinn yfir okkur krökkunum en alltaf var afi boðinn og búinn að stjana við okkur eins og t.d. að skutla okkur heim eftir æfingar eða leyfa okkur að keyra bílinn sinn einn hring í dalnum. Við barnabörnin sóttum mikið í að koma til ömmu og afa eftir skóla og æfingar en þar beið okkar alltaf veisla sem amma hafði töfrað fram. Afi beið eftir okkur svo hann gæti fengið sér eitthvað sætt með kaffinu með okkur.

Í kjallaranum hjá afa og ömmu á Brimhólabrautinni hafði afi komið sér upp smíðaaðstöðu þar sem hann dundaði sér. Okkur krökkunum þótti afar spennandi að fá að vera með afa í kjallaranum þar sem við smíðuðum alls konar fyrirbæri eins og báta og spýtukarla. Aldrei kvartaði afi yfir draslinu eftir okkur, kinkaði bara kolli og tók svo til eftir okkur þegjandi og hljóðalaust.

Afi var alla tíð mjög heilsuhraustur og í góðu formi og er það eflaust því að þakka hversu duglegur hann var að ganga og fara í sund. Hann var mér mikil fyrirmynd hvað varðar heilsu og heilbrigði.

Ég er svo þakklát og ánægð að hafa tamið mér að segja bæði afa og ömmu hversu vænt mér þótti um þau og hversu mótandi þau hafa verið á líf mitt. Það sem stendur upp úr núna eru allar þær dýrmætu stundir og minningar sem við eigum saman. Þær mun ég geyma að eilífu í hjarta mínu. Mér þykir einnig mjög vænt um það að afi fékk að kynnast börnunum mínum og þau honum, strákarnir mínir tveir vita hvernig maður afi var og þekkja alla þá kosti sem hann bjó yfir. Afi var nefnilega sá sem hélt verndarvæng yfir okkur öllum, hann var besti vinur barnanna sinna.

Elsku afi minn. Góða ferð í sumarlandið þar sem ég veit að elsku amma mun taka svo vel á móti þér. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og allar dásamlegu minningarnar sem ég mun geyma í hjarta mínu.

Þín

Anna Fríða.