Berufjörður Hreindýr halda sig oft við vegina í skammdeginu.
Berufjörður Hreindýr halda sig oft við vegina í skammdeginu. — Morgunblaðið/Eggert
Tugir hreindýra drepast þegar þau verða fyrir bíl á Austurlandi á hverju ári. Þannig voru skráðir 27 árekstrar á síðasta ári og það sem af er þessu eru dýrin orðin tólf. Hefur þetta verið viðvarandi ástand í langan tíma, að sögn Skarphéðins G.

Tugir hreindýra drepast þegar þau verða fyrir bíl á Austurlandi á hverju ári. Þannig voru skráðir 27 árekstrar á síðasta ári og það sem af er þessu eru dýrin orðin tólf. Hefur þetta verið viðvarandi ástand í langan tíma, að sögn Skarphéðins G. Þórissonar, líffræðings hjá Náttúrustofu Austurlands. Það er ekki til marks um aukningu þótt fólk verði meira vart við viðvaranir um hreindýr á vegum í fjölmiðlum.

Á 20 ára tímabili frá árinu 1999 urðu 340 hreindýr fyrir bíl, samkvæmt skráningu Náttúrustofu Austurlands. Fram kemur í skýrslu sem Náttúrustofan gaf út á árinu 2018 að flestar ákeyrslur verði í skammdeginu þegar hreindýr sækja á láglendi til fæðuöflunar og eru þar af leiðandi nær vegum á sama tíma og skilyrði eru almennt verri til aksturs í hálku, myrkri og vetrarfærð. Skapar þetta einnig hættu fyrir vegfarendur og veldur eignatjóni. Árekstrar að sumarlagi eru fátíðir þótt umferðarþungi sé þá mun meiri en á vetrum, enda halda dýrin sig þá meira til fjalla.

Algengast í Lóni

Á þeim tíma sem skýrslan nær til urðu flest dýrin fyrir bíl á vegkaflanum milli Hafnar í Hornafirði og Djúpavogs, einkum í Lóni.

Til að draga úr árekstrum er mikilvægt að skilja hvar og hvenær þeir verða og merkja staðina vel, bæði með skiltum og á upplýsingavef Vegagerðarinnar. Náttúrustofan og Vegagerðin reyna að vara vegfarendur við, eftir því sem upplýsingar berast. Skarphéðinn bendir á að menn hætti að taka eftir merkingum ef þeir aka sama veginn oft en sjái aldrei hreindýr. Því bendir hann á þann möguleika á að setja upp blikkandi ljós á þekktum hættuköflum þegar vitað er að hreindýr halda sig við veginn. helgi@mbl.is