Guðmundur Marísson fæddist 7. ágúst 1945. Hann lést 12. febrúar 2021.

Útför hans fór fram 26. febrúar 2021.

Traustur Valsmaður er fallinn frá, Guðmundur Marísson, sem var tíður gestur á Hlíðarenda frá því börnin hans, Kári Marís og Anna María, stigu sín fyrstu skref í yngri flokkum Vals í handbolta fyrir rúmum þremur áratugum. Bæði áttu eftir að gera garðinn frægan með meistaraflokki og var Kári Marís í sérstaklega sigursælum árgangi og landaði fjölda titla með félögum sínum. Guðmundur lét sig aldrei vanta þegar börnin léku handbolta og var orðinn heimagangur á Hlíðarenda áður en langt um leið.

Á yngri árum lék hann sér með Þrótti í fótbolta og síðar í fótbolta með Hjálparsveitinni og Björgunarsveitinni þar sem hann var öflugur liðsmaður. Slíkt segir allt um þann persónuleika sem hann hafði að geyma, sífellt að hjálpa öðrum en lét ávallt lítið á sér bera. Guðmundur var viðloðandi old-boys hjá Val í fótbolta samtímis því sem Kári Marís og Anna María voru í handbolta en síðastliðna tvo áratugi mætti hann vikulega á Hlíðarenda og lék sér með gömlum traustum vinum í innanhússfótbolta. Og hann lét sig ekki vanta þótt hann ætti við veikindi að stríða.

Tenging Guðmundar við Val nær reyndar til ársins 1970 en það ár var körfuknattleiksdeild Vals stofnuð. Þá gekk Kári bróðir hans í félagið og varð fljótt fyrirliði liðsins. Kári flutti síðan norður á Sauðárkrók og stofnaði körfuknattleiksdeild Tindastóls og hefur verið aðaldriffjöðrin þar áratugum saman.

Guðmundur var því umvafinn íþróttafólki stóran hluta ævinnar. Hann undi sér vel í góðum félagsskap og mætti samviskusamlega á herrakvöld Vals, ár eftir ár, hógværðin uppmáluð.

Við Valsmenn munum sakna þess að sjá félaga okkar ekki lengur á Hlíðarenda og vottum fjölskyldu hans, vinum og vandamönnum okkar dýpstu samúð.

F.h. Knattspyrnufélagsins Vals,

Árni Pétur Jónsson

formaður.

Guðmundur Marísson, góður vinur og félagi okkar í Knattspyrnufélaginu Val, er fallinn frá.

Guðmundur var traustur meðlimur í æfingahópi okkar eldri drengja, sem hafa stundað fótboltaæfingar á fimmtudagskvöldum í gamla salnum í Valsheimilinu í nokkra áratugi. Hópurinn hefur tekið ýmsum mannabreytingum í gegnum tíðina, en Guðmundur var lengi fastur punktur og líklega sá okkar sem hafði hvað besta ástundun. Guðmundur var okkar elstur en hann var um 40 árum eldri en þeir sem yngstir okkar eru í hópnum í dag.

Covid hefur auðvitað haft áhrif á knattspyrnuiðkun hópsins og hafði hún legið niðri í tæpt ár þegar við hittumst loks á ný í Valsheimilinu þann 21. janúar sl. Það reyndist örlagaríkt kvöld og ekki sú byrjun eða endurfundir, sem við hefðum óskað okkur. Guðmundur veiktist á miðri æfingunni án nokkurs fyrirboða og var fluttur á spítala þar sem hann dvaldi þar til yfir lauk, þremur vikum síðar.

Við félagarnir í Val munum sakna hans frá æfingum og sjá ekki lengur þennan glaðlynda, ljúfa og kurteisa félaga tifa yfir völlinn eins og honum einum var lagið. Hann hafði yndi af því að sprikla með okkur og var það gagnkvæmt.

Guðmundur var músíkalskur og mætti oft með geisladiska með upptökum af eigin lagasmíðum á æfingar og naut yngsti sonur minn, sem oft mætti með mér á æfingar áður en hann flutti utan til framhaldsnáms, góðs af, en þeir náðu afar vel saman og var þar ekkert til sem hét kynslóðabil, þótt tæp 50 ár væru á milli þeirra. Þetta lýsir Guðmundi einkar vel.

Börn Guðmundar, þau Kári Marís og Anna María, léku bæði við góðan orðstír með meistaraflokkum Vals í handknattleik og við það má bæta að Kári bróðir Guðmundar var einn af brautryðjendum körfuknattleiksiðkunar í Val á sínum tíma, þannig að Guðmundur var hluti af mikilli Valsfjölskyldu.

Við færum fjölskyldu Guðmundar okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Guðmundar er sárt saknað en minningin um góðan dreng lifir.

Fyrir hönd fimmtudagsfélaga Guðmundar í Knattspyrnufélaginu Val.

Kristján Ásgeirsson.