Dugnaðarforkar Hópurinn lét ekki sitja við markmiðið sem fyrst var sett. Ekki náðist að mynda hann allan því margir voru á fjöllum eða enn á göngu.
Dugnaðarforkar Hópurinn lét ekki sitja við markmiðið sem fyrst var sett. Ekki náðist að mynda hann allan því margir voru á fjöllum eða enn á göngu. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Líney Sigurðardóttir Þórshöfn Á Þórshöfn er almennur áhugi á hreyfingu og útivist og hefur farið vaxandi. Fólk á öllum aldri stundar gönguferðir eða hvers kyns útivist, auk sunds og annarrar hreyfingar. Einn hópur sker sig þó úr en það eru Hörkunaglarnir, hópur sem til varð í sófanum á dimmu janúarkvöldi.

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Á Þórshöfn er almennur áhugi á hreyfingu og útivist og hefur farið vaxandi. Fólk á öllum aldri stundar gönguferðir eða hvers kyns útivist, auk sunds og annarrar hreyfingar. Einn hópur sker sig þó úr en það eru Hörkunaglarnir, hópur sem til varð í sófanum á dimmu janúarkvöldi.

„Mér datt í hug að stofna hóp á Facebook sem hefði það markmið að fara saman hringveginn á þann hátt að hver einstaklingur myndi skrá alla hreyfingu sína og saman næði hópurinn kílómetrafjölda hringvegarins, sem er 1.322 kílómetrar,“ segir hörkunaglinn Valgerður Sæmundsdóttir á Þórshöfn.

Búið að vera skemmtilegt átak

Tími átaksins var frá 19. janúar til febrúarloka og segir Valgerður að nafnið Hörkunaglarnir hafi eiginlega komið af sjálfu sér, „ég vildi bara hvetjandi og skemmtilegt nafn fyrir okkur öll“.

Viðbrögðin við þessu framtaki voru betri en hún reiknaði með. „Ég bjóst ekki við svona góðri þátttöku, við erum núna 28 í hópnum, fólk á öllum aldri og þetta er búið að vera mjög skemmtilegt átak fyrir okkur öll, ekki síst mig sjálfa.“

Upphaflegt markmið var einn hringvegur, en þegar Valgerður sá dugnaðinn í hópnum setti hún næsta markmið, einn og hálfan hring en lét sig dreyma um tvo hringi, 2.644 km. Hörkunaglarnir fóru létt með það og gott betur.

Valgerður heldur nákvæmt bókhald yfir alla kílómetra Hörkunaglanna. „Það skrifar bara hver einstaklingur hreyfingu sína inn á síðuna sem ég held utan um, þetta er hreyfing af öllu tagi og mikil útivist,“ sagði hún.

Skapa liðsheild og gott hópefli

Valgerður lét ekki þar við sitja, hún hefur líka sett líkamsræktaráætlun inn á síðuna þrisvar í viku fyrir þá sem vilja nýta sér það. Hún hefur alltaf verið mikið fyrir hreyfingu af öllu tagi og byrjar allflesta daga á líkamsrækt. Aðspurð segir hún að vissulega þurfi í byrjun nokkurn sjálfsaga en síðan komist þetta upp í vana og verði sjálfsagður hluti af lífsstílnum.

„Það er líka svo frábært að vinna að markmiði með góðum hópi, skapa liðsheild og gott hópefli. Svo bætist sjósundið við og ég dríf mig í það en verð að viðurkenna að það er nú í kaldara lagi,“ segir hún en lætur sig hafa það.

Valgerður er snyrtifræðingur og rekur eigin snyrtistofu á Þórshöfn. „Að vera eini starfsmaðurinn á vinnustaðnum hefur líka í för með sér þörf fyrir að vera með í góðum hópi, gera eitthvað skemmtilegt og stefna að ákveðnu markmiði.“

Átaki Hörkunaglanna lauk í gær og hafði hópurinn þá lagt að baki rúmlega tvöfalda vegalengd hringvegarins en ekki bara einu sinni, eins og áformað var í upphafi, eða alls 3.410 kílómetra.

„Þetta er búið að vera frábært og gaman að fá svona jákvæðar viðtökur við hugmynd sem kastað er fram,“ segir Valgerður sem heldur ótrauð áfram að hvetja til hreyfingar og heilbrigðs lífsstíls í heimabyggðinni. Hinir hörkunaglarnir í hópnum kunna Valgerði bestu þakkir og einhverjir hafa laumað heim til hennar þakklætisvotti í formi blóma og súkkulaðis.