Ingibjörg Þorvaldsdóttir fæddist á Akureyri þann 22. desember 1938. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hlíð þann 18. febrúar 2021. Foreldrar Ingibjargar voru hjónin Sigurlaug Benediktsdóttir, f. 7.7. 1903, d. 22.8. 1995, og Þorvaldur Kr. Jónsson, f. 30.10. 1902, d. 1.4. 1965. Ingibjörg átti einn bróður, Ragnar Þorvaldsson, f. 25.2.1947, d. 11.8. 1996.

Hún giftist Hilmari H. Gíslasyni, f. 29.2. 1936, bæjarverkstjóra á Akureyri og eignuðust þau þrjú börn. 1) Þorvaldur Kristinn, f. 2.4. 1965, í sambúð með Öldu Ómarsdóttur. Börn: Ingibjörg Íris, Sara og Rannveig Tinna. 2) Ólafur Gísli, f. 12.2. 1967, kvæntur Evu Sif Heimisdóttur. Börn: Eva Kristín og Emma Guðrún. Eva Sif á einnig Ölmu Karen og Daníel Þór. 3) Kristín, f. 10.7. 1969, gift Jóhannesi Gunnari Bjarnasyni. Börn: Arndís og Bjarney Hilma. Áður átti Hilmar Guðveigu Jónu, f. 19.6. 1962. Eiginmaður hennar er Stefán Örn Ástvaldsson og eru þeirra börn Brynja og Hlynur.

Ingibjörg ólst upp á Akureyri en fór í Húsmæðraskólann í Reykjavík veturinn 1957-58, eftir það starfaði hún meðal annars hjá Landssímanum og í móttöku á Heilsugæslustöðinni á Akureyri.

Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju 1. mars klukkan 13.30. Vegna aðstæðna verða einungis nánustu ættingjar viðstaddir. Athöfninni verður streymt á facebook-síðunni Jarðarfarir í Akureyrarkirkju – beinar útsendingar. Stytt slóð á streymi: https://tinyurl.com/mj3w8kut.

Virkan hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat.

Mamma var einstök kona. Hún hugsaði alla tíð mest um aðra, var góður vinur, þolinmóð og hjálpsöm. Það var ábyggilega oft krefjandi að vera móðir okkar en það var fátt sem haggaði mömmu. Hún skipti aldrei skapi, vann sín verk í hljóði og gekk alltaf hreint til verks án nokkurs asa. Handverk lék í höndunum á henni. Hún var alltaf með eitthvað á prjónunum, langoftast var það eitthvað handa öðrum. Handbragð og frágangur var alltaf til fyrirmyndar.

Mamma var dugleg að rækta fjölskylduböndin og sinna fólkinu sínu. Afi lést tiltölulega ungur eftir erfið veikindi. Mamma var kletturinn hennar ömmu og aðstoðaði hana alla tíð og reyndist Ragnari bróður sínum afar vel. Það var henni mikið áfall þegar hann lést rétt fyrir fimmtugt.

Eftir að við systkinin fluttum að heiman skapaðist skemmtileg hefð. Á hverju sunnudagskvöldi hittumst við öll saman í Jörvabyggðinni. Þar voru allir ávallt velkomnir og oftar en ekki einhver sem bættist óvænt í hópinn. Mamma eldaði alltaf meira en nóg. Það voru líka haldnar myndarlegar veislur þegar eitthvað stóð til. Það var sama hvert tilefnið var, matarboð, saumaklúbbur eða afmæli, borðin svignuðu undan kræsingum. Mamma átti alltaf að minnsta kosti eina fermingarveislu í frystinum.

Barnabörnin elskuðu ömmu. Það var auðvelt því reglurnar voru fáar og nóg af ís og súkkulaði. Hún hafði endalausa þolinmæði til að leiðbeina þeim og kenna. Var þá gjarnan tekið í spil en mamma var alltaf með spilin nálæg. Ósjaldan sátu þær vinkonur, mamma og Hulda, og spiluðu rommý í eldhúsinu. Það var að sjálfsögðu alltaf talið og öll úrslit skráð í bók.

Mamma og pabbi voru dugleg að ferðast til útlanda en pabbi vildi helst fara í ferðir með golfsettið í farangrinum. Kom það fyrir að mamma sat í golfbílnum og prjónaði meðan pabbi spilaði á golfvöllum, m.a. í Flórída. Mamma hafði mjög gaman af því að versla þegar hún fór utan. Það skipti ekki máli hvort ferðin var einn dagur eða einn mánuður. Það fengu allir gjafir við heimkomu.

Mamma og pabbi hafa alltaf átt frábæra vini. Vinahópurinn hefur ræktað vinskapinn og deilt sorgum og gleðistundum. Mamma fékk sinn skerf af veikindum á lífsleiðinni og það hefur svo sannarlega sýnt sig í veikindum, bæði mömmu og pabba, hve mikilvægt það er að eiga ræktarsama vini. Fyrir það viljum við fjölskyldan þakka. Síðustu árin naut mamma frábærrar aðhlynningar á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hlíð og eru starfsfólki þar færðar hlýjar kveðjur.

Takk fyrir allt elsku mamma,

Þorvaldur, Ólafur

og Kristín.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast elskulegrar tengdamóður minnar, Ingibjargar Þorvaldsdóttur.

Allt frá því ég kom fyrst til þeirra Ingibjargar og Marra, haustið 2005, mætti mér afslappað og hlýtt viðmót. Allar götur síðan, þegar við Óli komum norður, beið Ingibjörg eftir okkur með heitt kaffi á könnunni og norðlenskar smurbrauðstertur á borðum, sama hversu seint við vorum á ferðinni, „hringdu í mig þegar þið rennið fram hjá Þelamörk, þá set ég á könnuna“. Síðan voru uppábúin rúm klár, fyrir okkur fjölskylduna, hvort sem það vorum við Óli tvö, Alma og Daníel með eða öll hersingin eftir að Eva Kristín og Emma Guðrún bættust í hópinn, alltaf pláss í Víðilundinum. Mikið þótti mér líka vænt um hvað þau tóku Ölmu mína og Daníel minn inn í fjölskylduna eins og þeirra eigin og þegar þau voru með í för brást ekki að Ingibjörg bauð upp á Greifapizzu kvöldið fyrir brottför.

Við Ingibjörg áttum margar góðar stundir við eldhúsborðið í Víðilundinum, spjalla með kaffi eða kók í bolla og smá kruðerí og ósjaldan tókum við spilastokkinn upp og spiluðum rommý og þar var Ingibjörg í essinu sínu.

Yndisleg kona sem ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst, traust, ósérhlífin og æðrulaus. Hún var búin að fá sinn skammt af þrautum en er núna komin í sumarlandið – ótal dýrmætar minningar um einstaka konu lifa eftir hjá okkur.

Blessuð sé minning hennar

Eva Sif Heimisdóttir.