Bændahöllin Búnaðarþing verður sett í Súlnasal Hótel Sögu. Hótelið er í eigu Bændasamtaka Íslands og eru skrifstofur samtakanna á 3. hæðinni.
Bændahöllin Búnaðarþing verður sett í Súlnasal Hótel Sögu. Hótelið er í eigu Bændasamtaka Íslands og eru skrifstofur samtakanna á 3. hæðinni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Við bændur þurfum að stilla saman strengina til að geta talað fyrir mikilvægi íslensks landbúnaðar, sama hvað við erum að framleiða,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands (BÍ). Aðalmálið á búnaðarþingi sem sett verður á mánudag er tillaga um að einfalda félagskerfi bænda, meðal annars með því að gera búgreinafélögin að deildum innan Bændasamtakanna og draga úr vægi búnaðarsambandanna við kosningar á búnaðarþing.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Við bændur þurfum að stilla saman strengina til að geta talað fyrir mikilvægi íslensks landbúnaðar, sama hvað við erum að framleiða,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands (BÍ). Aðalmálið á búnaðarþingi sem sett verður á mánudag er tillaga um að einfalda félagskerfi bænda, meðal annars með því að gera búgreinafélögin að deildum innan Bændasamtakanna og draga úr vægi búnaðarsambandanna við kosningar á búnaðarþing.

Unnið hefur verið að einföldun félagskerfis bænda frá því Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands voru sameinuð í Bændasamtök Íslands á árinu 1995. Á búnaðarþingi fyrir ári voru samþykktar breytingartillögur sérstakrar starfsnefndar og stjórn BÍ falið að útfæra þær frekar og leggja fyrir búnaðarþing að nýju. Það verður gert nú.

Marglaga félagskerfi

Félagskerfi bænda er í mörgum lögum. Búnaðarfélög um allt land og samtök þeirra, búnaðarsamböndin, eru grunneining samtakanna ásamt sjálfstæðum búgreinasamböndum. Stærri búgreinasamböndin eru mynduð úr svæðisbundnum búgreinafélögum. Auk þess eiga nokkur félög sem ekki eru bundin við búgreinar aðild að BÍ.

Búgreinasamböndin eru mismunandi að stærð. Upphaflega voru eingöngu búgreinafélög um aukabúgreinarnar svonefndu, svo sem hrossarækt, garðyrkju, svínarækt, kjúklingarækt, eggjaframleiðslu og loðdýrarækt. Á árinu 1995 voru stofnuð búgreinafélög og búgreinasambönd um stóru greinarnar, nautgriparækt og sauðfjárrækt. Þar braust fram viss óánægja með störf bændaforystunnar að ákveðnum málum sem snertu hagsmuni þessara bænda mikið. Síðar fengu búgreinasamböndin aðild að heildarsamtökunum.

Breytingarnar gera ráð fyrir að búgreinasamböndin verði deildir í Bændasamtökunum og starfsfólk þeirra, samtals um þrjú og hálft stöðugildi, færist til heildarsamtakanna. Bændur greiði veltutengd félagsgjöld beint til BÍ, heldur hærra gjald er nú er innheimt. Jafnframt er gert ráð fyrir að dregið verði úr vægi búnaðarsambandanna við kosningar til búnaðarþings en starfi þeirra í héraði viðhaldið.

Vilja þessa vegferð

„Það verður að líta til hagsmuna bænda, alveg sama hvað þeir eru að gera, og þétta raðirnar. Við verðum veikari ef okkur er att saman í innbyrðis karpi. Á því þrífast þeir sem hafa horn í síðu landbúnaðarins,“ segir Gunnar.

Forystufólk bænda hefur kynnt hugmyndirnar á fundum um allt land. Gunnar segist hafa tilfinningu fyrir því að fólk vilji fara í þessa vegferð en fulltrúum bænda gefist kostur á að ræða málið á búnaðarþingi eftir helgi. Þó er blaðamanni kunnugt um efasemdir innan einstakra búgreinafélaga. Þau þurfa að samþykkja sameiningu á eigin aðalfundum.

Spurður hvað gerist ef ekki verði ráðist í breytingar segir Gunnar að þá muni menn þurfa að hugsa málin upp á nýtt og Bændasamtök Íslands verði að velja hvaða verkefni það hafi efni á að sinna. Sjálfur telur hann að efling samtakanna sé lykilatriði til að geta sinnt hagsmunagæslu fyrir landbúnaðinn í heild.

Einn fundur með ríkinu

Búnaðarþing er aðalfundur Bændasamtaka Íslands. Fundur þess í ár verður á mánudag og þriðjudag. Hefst þingið með ræðu formanns Bændasamtakanna og forsætisráðherra, landbúnaðarráðherra og forseti Íslands munu ávarpa þingfulltrúa. Að þessu sinni verður setningarathöfnin aðeins opin fulltrúum og boðsgestum. Auk breytinga á félagskerfinu er búist við að málefni Hótel Sögu komi til umræðu. Hótelið er lokað og í greiðslustöðvun og húsið til sölu eða leigu. Háskóli Íslands, fjárfestar í ferðaþjónustu og fleiri hafa sýnt áhuga. Gunnar Þorgeirsson segir að einn viðræðufundur hafi farið fram við fulltrúa fjármálaráðuneytisins um kaup á húsinu fyrir Háskólann.