Fyrir Svona lítur húsið Skipholt 1 út í dag. Engin starfsemi hefur verið í húsinu að undanförnu.
Fyrir Svona lítur húsið Skipholt 1 út í dag. Engin starfsemi hefur verið í húsinu að undanförnu. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík hefur tekið jákvætt í ósk eiganda hússins Skipholt 1 um að innrétta þar 36 íbúðir. Fyrir liggur leyfi til að innrétta hótel í húsinu en nú hefur verið fallið frá þeim áformum.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík hefur tekið jákvætt í ósk eiganda hússins Skipholt 1 um að innrétta þar 36 íbúðir. Fyrir liggur leyfi til að innrétta hótel í húsinu en nú hefur verið fallið frá þeim áformum.

Myndlista- og handíðaskólinn var áður til húsa í Skipholti 1 og seinna Listaháskóli Íslands. Kvikmyndaskóli Íslands var þar um tíma.

Skipholt 1 samanstendur af tveimur húsum, samtals 2.938,2 fermetrar. Eldri hlutinn er frá árinu 1960, alls 1.867,2 fermetrar og nýrri hlutinn frá 1975, alls 1.070,8 fermetrar.

Aðstæður hafa breyst

Fram kemur í fyrirspurn Aðalsteins Snorrasonar arkitekts til skipulagsnefndar, fyrir hönd eiganda, að árið 2017 samþykkti Reykjavíkurborg leyfi til að stækka húsið og innrétta það fyrir hótelstarfsemi. Gert var ráð fyrir 84 herbergjum fyrir 170 gesti.

Nú hafi aðstæður breyst og ekki þyki skynsamlegt annað en breyta húsinu í íbúðir. Meðfylgjandi tillögur samkvæmt frumdrögum Arkís arkitekta auki ekki það byggingamagn sem samþykkt var í tengslum við hóteláformin og húsið verði eftir stækkun 3.538,9 fermetrar. Eftir stækkun yrði hornhúsið fimm hæðir en aðrir hlutar fjórar hæðir. Svalir verða settar á húsið og gefa því svip. Atvinnustarfsemi yrði á jarðhæð þess hluta hússins sem snýr að Skipholti en íbúðir í þeim hluta sem snýr að Stórholti. Íbúðir verða alls 36, þar af 17 þriggja/fjögurra herbeggja, 16 tveggja herbergja íbúðir og þrjár stúdíóíbúðir. Sameiginlegur garður verður á innra rými lóðarinnar.

Verkefnastjóri skipulagsfulltrúa segir í umsögn sinni að vel þyki fara á því að nýta húsið fyrir íbúðir. Húsið sé áberandi kennileiti á svæðinu og því þurfi að vanda vel til verka þegar húsið sé uppgert og stækkað.

Eigi það ekki síst við hvað varðar útlit þess, svo sem yfirborðsfrágang útveggja, glugga og gerð nýrra svala. Farið verði sérstaklega yfir þetta sem og annað tengt byggingaleyfisumsókn.

Verkefnastjórinn bendir einnig á að við frekari vinnslu tillögunnar þurfi að skoða samsetningu íbúðagerða í húsinu með tilliti til þess að auka hlutfall stærri íbúða. Þá þurfi að vinna betur útfærslu lóðar.

Ekki kemur fram í fyrirspurn Aðalsteins Snorrasonar hver er eigandi hússins. Þegar fréttir voru fluttar af fyrirhugaðri hótelstarfsemi árið 2016 kom fram að félagið Fjórir GAP ehf. væri eigandi húsnæðisins, en eini eigandi þess er Kjartan Gunnarsson, fjárfestir og fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.