Guðný Helga Björnsdóttir fæddist 7. desember 1929 á Suðureyri í Súgandafirði. Hún lést 7. mars 2021 á Sjúkrahúsinu á Hólmavík. Foreldrar hennar voru Karólína Hrefna Jónsdóttir, f. 13. september 1894, d. 27. febrúar 1970, og Björn Vigfússon, f. 4. september 1864, d. 23. júní 1931. Átti hún þrjú hálfsystkini, Magnús, Bjarna og Sigríði, öll látin.

Guðný giftist 31. desember 1953 Gústafi Adolf Guðmundssyni, f. 19. ágúst 1925 á Hólmavík en hann lést 6. janúar 2013 á hjartadeild Landspítalans í Reykjavík. Guðný og Gústaf hófu búskap sinn á Hólmavík og bjuggu þar til ársins 1966 er þau fluttust til Reykjavíkur og bjuggu þar alla tíð síðan. Síðastliðin tvö ár dvaldi Guðný á Sjúkrahúsinu á Hólmavík.

Börn Guðnýjar og Gústafs eru: 1) Guðmundur Viktor, f. 7. október 1952, maki hans er Birna S. Richardsdóttir, f. 17 ágúst 1951. Börn þeirra eru: a) Guðmundur Richard, f. 1977, maki Susanne Borgenstierna, eiga þau tvö börn. b) Hrefna, f. 1979, maki Gauti Þórðarson, eiga þau þrjú börn. c) Guðný, f. 1986, maki Hallvarður Jónsson. 2) Guðbjörg, f. 2 desember 1953, sonur hennar er Andri Valur Sigurðsson, f. 1975, á hann eina dóttur. Maki hennar Jakob Smári, f. 11. janúar 1950, d. 19. júlí 2010. 3) Magnús, f. 3. maí 1959, sonur hans er Júlíus Brynjar, f. 1988, maki Magnúsar er Röfn Friðriksdóttir sem áður átti tvo syni, Veigar Arthúr, f. 1982, maki Hafdís Jóna Stefánsdóttir og eiga þau þrjár dætur, Atla Arnar, f. 1985, á hann þrjú börn, en saman eiga þau Magnús og Röfn Gústaf Hrannar, f. 1994, Guðmund Ara, f. 1997, og Róbert Fannar, f. 1998.

Útför Guðnýjar fer fram frá Hólmavíkurkirkju í dag, 20. mars 2021, klukkan 14.

Elsku amma. Nú skilur leiðir. Margar minningar koma upp í hugann, þær fyrstu frá því að ég heimsótti ykkur afa í Árbæinn, stundum ein en á unglingsárum oft í fylgd Mæju vinkonu.

Þá var margt brallað og brasað, með tilheyrandi strætóferðum, sund- og bæjarferðum. Amma var nú alltaf rösk til verka og ekkert að hukla við hlutina, eins og Dúddi hefði sagt.

Eitt vorið hafði ég misst af árlegu sundnámskeiði í Laugarhól í Bjarnarfirði vegna veikinda (það er eins og maður sé 100 ára).

Amma reddaði því nú snarlega og skráði mig til leiks á sundnámskeið í Árbæjarskóla það sumarið.

Á framhaldsskólaárunum bjó ég um tíma hjá ömmu og afa. Við amma töluðum stundum „hátt“ saman á þeim tíma en alltaf vorum við samt góðar vinkonur og hlógum oft saman.

Seinna var alltaf gott að koma í Fiskakvíslina þar sem þau bjuggu, svona til að fleygja sér í sófann, lesa blöðin, fá sér aðeins í gogginn, eða biðja ömmu að passa langömmudrenginn.

Það entist þar til amma var sótt með sjúkrabíl í eitt skiptið, hafði farið úr mjaðmarlið.

Það var gott að eiga ömmu að en síðar breyttust hlutverk okkar, og í stað þess að hún leiddi mig leiddi ég hana.

Minningarnar eru dýrmætar en seinna hittumst við aftur. Takk fyrir allt.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Hrefna

Guðmundsdóttir.