Stefán Erlendur Þórarinsson fæddist 1. ágúst 1926. Hann lést 4. mars 2021. Útförin fór fram 15. mars 2021.

Nýlega var borinn til grafar Stefán Þórarinsson, fjölskylduvinur frá Húsavík, og viljum við börn Sigrúnar Stefánsdóttur og Hannesar Þórðar Hafstein minnast hans. Fjölskylduvinur er rétta orðið. „Stebbi og Heiða“ voru okkur börnunum í Skeiðarvogi þekkt og mikilvæg stærð. Þeir Stebbi og faðir okkar voru æskuvinir „heiman frá Húsavík“ og rofnuðu aldrei þau bönd. Ólust þeir upp saman, voru á síld menntaskólaárin og útskrifuðust frá MA. Síðar varð það eins kona pílagrímsferð úr Skeiðarvoginum að fara heim til Húsavíkur og í Höfðabrekkuna þar sem beið myndarlegt heimili með hressum barnaskara sem okkur þótti mikið til um. Heiða, hin mikla húsmóðir, og Stebbi, hinn mikli húmoristi. Kankvíst og ísmeygilegt bros hans þegar sagðar voru sögur af samferðamönnum á Húsavík sem staðnir höfðu verið að kostulegum uppákomum og tilsvörum. Skrítið hve lítill bær elur marga kynjakvisti. Okkur var snemma innrætt að Húsavík væri miðpunktur alheimsins, einmitt þar sem kirkjan stendur skammt frá sýslumannshúsinu, horfir yfir höfnina á Kinnarfjöllin, Skjálfanda – og Þingeyjarsýslur fegurstar á jörð. Sá sannleikur lét að vísu aðeins á sjá þegar Stebbi og Heiða fluttu til Akureyrar til að hægja á í ellinni, en lengi býr að fyrstu gerð.

Síðar á lífsleiðinni ferðuðust foreldrar okkar með þeim víða um lönd. Stefáni Jóni er minnisstætt þegar þau komu til London og hann kenndi þeim að snæða Kínamat. Þingeyingunum tveimur þótti það góð stund, enda vel krydduð frásögnum af heimamönnum sem komist höfðu í kynni við heimsborgir og fann þar Kínakryddið ofjarl sinn.

Þeir bræður, Ingvar bóksali og Stefán, urðu þjóðkunnir með Tónakvartettinum frá Húsavík sem enn má hlýða á í vönduðum útvarpsþáttum. Fyrir okkur sem kynntumst fjölskyldunni í Höfðabrekku stendur þó næst hjarta sú glaðlega og næma hlýja sem þar einkenndi fas og viðmót. Þegar Stebbi Þór kveður minnumst við börnin úr Skeiðarvogi langra kvöldstunda þegar pabbi sat við svarta fastlínusímann, átti hljóðskraf norður, í hálfum hljóðum eða með hækkandi rómi sem átti til að enda í hlátursrokum. Við vissum öll hver var á línunni.

Stefán Jón, Þórunn Júníana, Sigrún Soffía, Hildur Björg og Hannes Júlíus.