Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru í gær sakfelldir í CLN-málinu svokallaða, en það hefur einnig verið kallað Chesterfield-málið.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru í gær sakfelldir í CLN-málinu svokallaða, en það hefur einnig verið kallað Chesterfield-málið. Áður höfðu þeir verið sýknaðir í héraði við endurupptöku málsins, en Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, var sýknaður á báðum dómstigum.

Hreiðari og Magnúsi var ekki gerð refsing, þar sem þeir höfðu áður hlotið hámarksrefsingu fyrir efnahagsbrot í fyrri málum sem tengdust fjármálahruninu árið 2008. Dómurinn, sem nú hefur verið birtur á vef Landsréttar, er ítarlegur, eða upp á 80 blaðsíður.

Í dómi Landsréttar segir að þegar lánveitingar, sem ákært er fyrir í þremur liðum ákærunnar, hafi átt sér stað hafi ekki legið fyrir lánsbeiðnir eða samþykki lánanefnda bankans. Þá hafi félögin sem lánað var ekki verið metin til lánshæfis og engar tryggingar settar fyrir endurgreiðslu lánanna. „Lánveitingarnar hefðu því stangast á við reglur bankans og verið með öllu óheimilar,“ segir í útdrætti dómsins.

Þeim Hreiðari og Magnúsi var jafnframt gert að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna, alls 9,6 milljónir. Nánari umfjöllun á mbl.is.