Óskar Reykdalsson
Óskar Reykdalsson
Talsvert hefur borið á öndunarfærasýkingum og ælupest á höfuðborgarsvæðinu undanfarið, að sögn Óskars Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Talsvert hefur borið á öndunarfærasýkingum og ælupest á höfuðborgarsvæðinu undanfarið, að sögn Óskars Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hann rekur það til árstímans, en einnig sé líkleg skýring aukin samskipti fólks samfara minni takmörkunum vegna kórónuveikinnar. Óskar segist ekki hafa tölulegar upplýsingar um inflúensu hérlendis í vetur.

Óskar segir að ælupest stingi sér niður á hverjum vetri og hún hafi verið nokkuð áberandi undanfarið. Þannig séu dæmi um að heilu fjölskyldurnar hafi lagst, en oft beri börn ælupestina á milli.

Lýsingin sé gjarnan uppköst og hiti í 1-2 daga og vanlíðan á þriðja degi. Hann segir að ælupestin sé bráðsmitandi og ráðleggur fólki að vera heima í tvo sólarhringa eftir síðustu uppköst. Í flestum tilvikum sé pestin tiltölulega saklaus, en geti verið erfið fyrir fólk með undirliggjandi sjúkdóma.

Þá segir Óskar að fólk hafi undanfarið leitað talsvert til heilsugæslunnar og Læknavaktarinnar vegna kvefs, hálsbólgu og annarra öndunarfærasjúkdóma. aij@mbl.is