[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM 2021 Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik fór ekki vel af stað í undankeppni HM 2021 í Skopje í Norður-Makedóníu í gær, en liðið tapaði sínum fyrsta leik gegn Norður-Makedóníu með sjö marka mun í A1 Arena.

HM 2021

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik fór ekki vel af stað í undankeppni HM 2021 í Skopje í Norður-Makedóníu í gær, en liðið tapaði sínum fyrsta leik gegn Norður-Makedóníu með sjö marka mun í A1 Arena.

Leiknum lauk með 24:17-sigri Norður-Makedóníu í kaflaskiptum leik hjá íslenska liðinu.

Staðan var jöfn, 2:2, eftir tíu mínútna leik en þá kom frábær leikkafli hjá íslenska liðinu sem skoraði fimm mörk í röð.

Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, kom Íslandi yfir 7:2 eftir fimmtán mínútna leik en hún lenti illa á hnénu eftir að hafa komið boltanum í netið og gat ekki haldið leik áfram.

Norður-Makedónar nýttu sér fjarveru íslenska fyrirliðans, skoruðu níu mörk gegn einu, og leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 11:8.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og tókst að komast yfir 13:12 þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Jafnræði var með liðunum næstu tíu mínúturnar en Norður-Makadónar voru mun sterkari á lokamínútunum og skoruðu sjö mörk gegn tveimur mörkum íslenska liðsins.

Áfall að missa Steinunni

Leikur íslenska liðsins var afar kaflaskiptur svo ekki sé meira sagt, en liðið byrjaði leikinn ágætlega en gaf mikið eftir að Steinunn fór meidd af velli.

Varnarleikurinn, sem lofaði mjög góðu framan af með Steinunni fremsta í flokki, var ekki svipur hjá sjón restina af fyrri hálfleik.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn svo vel en líkt og í fyrri hálfleik dró mikið af liðinu á síðustu fimmtán mínútum leiksins.

Þegar allt kemur til alls var það slakur sóknarleikur sem varð íslenska liðinu að falli en liðinu gekk afleitlega að skora stóran hluta leiksins.

Skotin voru slök, hátt yfir markið, og að auki tapaði íslenska liðið boltanum allt of oft á klaufalegan hátt í sókninni.

Hvort brottfall Steinunnar hafi haft svona mikið að segja skal látið ósagt en eftir að hún fór af velli kom upp ákveðið óöryggi í liðinu sem fylgdi því allt til loka.

Þá má velta því fyrir sér hvort Arnar Pétursson, þjálfari liðsins, hafi brugðist of seint við eftir að Steinunn fór af velli í stöðunni 7:2 en hann beið með að taka sitt fyrsta leikhlé allt þangað til að Norður-Makedónar jöfnuðu metin í 7:7 með sínu fimmta marki í röð.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir var besti leikmaður Íslands í leiknum með ellefu varin skot og þær Ragnheiður Júlíusdóttir, Rut Jónsdóttir og Lovísa Thompson skoruðu þrjú mörk hver.

Tveir úrslitaleikir eftir

Þrátt fyrir sjö marka tap er ekki öll von úti fyrir íslenska liðið enda tveir leikir eftir í undankeppninni.

Það bendir hins vegar allt til þess að fyrirliðinn, Steinunn Björnsdóttir, taki ekki þátt í fleiri leikjum Íslands í undankeppninni vegna meiðsla en þetta staðfesti Arnar Pétursson, þjálfari íslenska liðsins, í samtali við handbolti.is.

Litháen vann dramatískan eins marks sigur gegn Grikklandi í hinum leik riðilsins í gær, 27:26, þar sem úrslitin réðust á lokamínútunum.

Ísland mætir Grikklandi síðar í dag í Skopje og verður að vinna til þess að eiga möguleika á að enda í efstu tveimur sætum 2. riðils og komast áfram í umspil um laust sæti á HM sem fer fram í Katar í desember síðar á árinu.

Lokaleikur liðsins er svo gegn Litháen á sunnudaginn en íslenska liðið þarf að spila miklu betri sóknarleik ef það ætlar sér áfram í umspilið.

Mörk Íslands: Ragnheiður Júlíusdóttir 3/2, Rut Jónsdóttir 3/1, Lovísa Thompson 3, Helena Rut Örvarsdóttir 2, Thea Imani Sturludóttir 1, Sigríður Hauksdóttir 1, Birna Berg Haraldsdóttir 1, Sunna Jónsdóttir 1, Steinunn Björnsdóttir 1, Ásdís Guðmundsdóttir 1.