Í gær voru félagaskipti Cecilíu Ránar Rúnarsdóttur til sænska úrvalsdeildarliðsins Örebro staðfest. Hún er aðeins 17 ára en á samt 55 deildaleiki í meistaraflokki að baki! Þar af eru 30 í efstu deild með Fylki. Ljóst er að um gífurlegt efni er að ræða.
Í gær voru félagaskipti Cecilíu Ránar Rúnarsdóttur til sænska úrvalsdeildarliðsins Örebro staðfest. Hún er aðeins 17 ára en á samt 55 deildaleiki í meistaraflokki að baki! Þar af eru 30 í efstu deild með Fylki. Ljóst er að um gífurlegt efni er að ræða.

Cecilía Rán er þó ekki einsdæmi hvað þetta varðar. Ísland hefur nefnilega á að skipa gríðarlegum fjölda efnilegra knattspyrnukvenna og sumar þeirra eru raunar nú þegar orðnar það góðar að þær geta ekki talist efnilegar lengur. Til vitnis um það er hversu margar þeirra hafa á undanförnum mánuðum fengið félagaskipti í lið sem spila í mörgum af allra sterkustu deildum Evrópu.

Í úrvalsdeildinni í Svíþjóð spila nú 10 íslenskar knattspyrnukonur, fimm í í Frakklandi, tvær spila í Þýskalandi, tvær spila í Noregi og tvær spila á Ítalíu. Í atvinnudeild Bandaríkjanna spilar ein þeirra og það sama á við um England.

Þetta eru yfir 20 knattspyrnukonur í atvinnumennsku á hæsta stigi og þá eru ótaldir allir þeir gæðaleikmenn sem spila hér heima, margir hverjir sem hafa áður verið í atvinnumennsku í þessum sterkustu deildum eða munu á næstu árum halda þangað.

Óhætt er því að fullyrða að framtíðin sé afar björt hjá íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu. EM á Englandi var frestað um eitt ár og fer fram sumarið 2022.

Það eru kannski ekkert frábærar fréttir fyrir suma af eldri leikmönnum landsliðsins en er sannarlega vatn á myllu þeirra yngri leikmanna sem hafa nýlega haldið í atvinnumennsku og fá nú lengri tíma til þess að bæta og sanna sig.