Landsliðið Arnór Ingvi Traustason í leik gegn Dönum í haust en hann er á förum í landsleikjatörnina áður en hann heldur til Bandaríkjanna.
Landsliðið Arnór Ingvi Traustason í leik gegn Dönum í haust en hann er á förum í landsleikjatörnina áður en hann heldur til Bandaríkjanna. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bandaríkin Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Arnór Ingvi Traustason verður fjórði íslenski knattspyrnumaðurinn til að spila í bandarísku MLS-deildinni en hann skrifaði í vikunni undir tveggja ára samning við New England Revolution.

Bandaríkin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is Arnór Ingvi Traustason verður fjórði íslenski knattspyrnumaðurinn til að spila í bandarísku MLS-deildinni en hann skrifaði í vikunni undir tveggja ára samning við New England Revolution.

Arnór sagði við Morgunblaðið að hann væri afar spenntur fyrir sínu nýja félagi en hann fer vestur um haf strax og landsliðstörninni lýkur.

„Ég kem úr mjög metnaðarfullu umhverfi í Malmö þar sem fyrir er lagt að vinna alla leiki, og er að fara í lið sem ætlar sér að fara alla leið eftir að hafa komist í undanúrslitin um bandaríska meistaratitilinn á síðasta ári,“ sagði Arnór sem fer á morgun til Þýskalands vegna landsleikjanna.

Stutt frá Keflavík

Hann fer eftir það til Massachusetts á austurströnd Bandaríkjanna. New England Revolution hefur aðsetur í Foxborough, skammt suðvestan við stórborgina Boston, og leikur þar á sama 70 þúsund manna velli, Gillette Stadium, og ruðningsliðið New England Patriots.

„Ég hef einu sinni komið til Boston og þekki marga sem hafa búið þar. Bæði foreldrar mínir og tengdaforeldrar hafa oft komið þangað og svo tekur bara fjóra og hálfan tíma að fljúga til Boston frá Keflavík þannig að ferðalagið er einfalt. Ætli við reynum ekki að finna okkur samastað einhvers staðar á milli Foxborough og Boston til þess að það verði bæði stutt að fara á æfingar og í borgina,“ sagði Arnór sem er alfarinn frá Malmö og hefur dvalið á Íslandi undanfarna daga.

Sterkari en margir halda

Í MLS-deildinni, sem hefur nýtt tímabil 17. apríl, hafa á undan honum leikið þeir Guðlaugur Victor Pálsson með New York Red Bulls og Kristinn Steindórsson með Columbus Crew, og síðan er Guðmundur Þórarinsson leikmaður með New York City. Arnór segir deildina sterkari en margir haldi.

„Ég hef aðeins fylgst með henni að undanförnu og margir halda að fótboltamenn fari bara þangað til að ljúka sínum ferli. En það er alls ekki þannig. Mjög margir koma þangað á mínum aldri og ég fer til New England til að ná árangri og vera partur af liði sem ætlar að gera hlutina almennilega og ná langt. Í þessari deild er mikið af suðuramerískum strákum sem lita deildina með sínum fótbolta. Ég tel að deildin henti mér og mínum leikstíl og er mjög spenntur fyrir því að prófa þetta, ásamt því að koma með mína reynslu og mína sýn á fótboltann inn í þetta lið,“ sagði Arnór sem er 27 ára gamall og hefur leikið 37 landsleiki, spilað bæði á EM og HM, og verið atvinnumaður í Svíþjóð, Grikklandi og Austurríki frá 2014. Hann hefur orðið tvisvar sænskur meistari, með Norrköping 2015 og með Malmö 2020.

Veist ekki hvar þú býrð næst

Hann kveður ekki Svíþjóð með sérstakri eftirsjá. „Nei, ekki þannig. Mér líður alltaf vel í Svíþjóð og hef eignast vini á þremur árum í Malmö. Svona er bara að vera fótboltamaður, þú veist ekki hvar þú býrð á næsta ári. Ég hefði verið til í að vinna fleiri titla með Malmö, við glutruðum niður titlinum 2019 og töpuðum tveimur bikarúrslitaleikjum sem var smá svekkelsi en bættum fyrir það í fyrra.“

Arnór fer bjartsýnn og spenntur í leikina þrjá gegn Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein.

„Þetta eru ólíkir mótherjar en samt eru þetta bara þrír fótboltaleikir og við nálgumst þá alla á sama hátt. Við ætlum okkur að eiga góða leiki og ná í sem flest stig. Eftir svekkelsið í Ungverjalandi í nóvember held ég að allir séu vel peppaðir fyrir því að fara alla leið á HM. Við munum nýta alla þá reynslu sem býr í hópnum og við vitum hvað þarf,“ sagði Arnór Ingvi Traustason.