[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Verðtryggðar skuldir ríkissjóðs hafa hækkað í verðbólguskotinu undanfarið. Afborgun af 65 milljarða skuldabréfi í apríl mun hins vegar lækka hlutfall verðtryggðra skulda.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Verðtryggðar skuldir ríkissjóðs hafa hækkað í verðbólguskotinu undanfarið. Afborgun af 65 milljarða skuldabréfi í apríl mun hins vegar lækka hlutfall verðtryggðra skulda.

Verðtryggðar skuldir ríkissjóðs jukust úr tæpum 290 milljörðum króna í desember í 310 milljarða í febrúar, eða um 20 milljarða. Það var tæplega 7% aukning (sjá graf).

Þetta má lesa úr markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins. Miðað er við nafnverð með áföllnum verðbótum en árleg verðbólga mældist 3,6% í desember, 4,3% í janúar og 4,1% í febrúar. Það er umtalsverð verðbólga miðað við stöðugleikaskeiðið síðustu misseri en telst þó ekki mikil verðbólga í sögulegu samhengi.

Erlendar skuldir jukust mun meira, eða um 110 milljarða króna. Það hefur þó óveruleg áhrif á hreinar skuldir sem stendur, enda aukast erlendar eignir sem því nemur.

Borga 65 milljarða í apríl

Björgvin Sighvatsson, forstöðumaður Lánamála ríkisins, segir vægi verðtryggðra skuldbindinga munu lækka þegar verðtryggða ríkisskuldabréfið RS21 falli á gjalddaga 14. apríl næstkomandi. Ríkissjóður muni þá greiða niður 65 milljarða eftirstöðvar skuldabréfs sem upphaflega var gefið út 2010.

Þá sé fram undan gjalddagi á óverðtryggða skuldabréfinu RB21 í ágúst, alls 60 milljarðar. Með því aukist vægi verðtryggðra skulda af heildarskuldum ríkissjóðs á ný.

Björgvin segir ríkissjóð hafa gefið út skuldabréf til að mæta þessum tveimur gjalddögum, sem samtals séu 125 milljarðar. Hinni miklu útgáfu hjá ríkissjóði sé því ekki aðeins ætlað að mæta rekstrarhallanum, heldur líka að mæta endurfjármögnun á skuldum sem séu að falla á gjalddaga.

Varðandi verðbæturnar bendir Björgvin á að ríkissjóður sé vel varinn fyrir verðlagsbreytingum.

„Verðtryggðar skuldir hækka til samræmis við verðbótaþáttinn. Á móti kemur, sem er ágætt að hafa í huga, að ríkissjóður á sem útgefandi ríkisskuldabréfa auðveldara með að takast á við verðbólgu en aðrir útgefendur þar sem stór hluti af tekjustofnum ríkissjóðs hækkar með hækkandi verðlagi. Þannig að þegar verðbólga fer upp má til dæmis gera ráð fyrir, að öðru óbreyttu, að virðisaukaskattur og tekjuskattur fari upp líka og þar með tekjur ríkissjóðs. Verðbólga er enda ekkert annað en endurspeglun á því hvernig vara og þjónusta hefur hækkað í verði. Það má því segja að það sé að einhverju leyti auðveldara fyrir ríkissjóð að takast á við verðtryggðar skuldbindingar en aðra,“ segir Björgvin.

Lækkaði niður í 27,6%

Heildarskuldir ríkissjóðs hækkuðu um rúmlega 21 milljarð milli desember og febrúar en lækkuðu sem hlutfall af vergri landsframleiðslu úr 28,9% í 27,6%, líkt og lesa má úr grafinu hér til hliðar.

Í þessu samhengi má rifja upp að samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar dróst landsframleiðslan saman um 6,6% í fyrra. Það var minni samdráttur en Seðlabankinn, Viðskiptaráð og greiningardeildir bankanna höfðu spáð, líkt og rifjað var upp í Morgunblaðinu 2. mars sl.

Um þetta segir orðrétt í síðustu Peningamálum Seðlabankans:

„Vísbendingar eru um að landsframleiðslan hafi haldið áfram að vaxa á fjórða ársfjórðungi og að samdrátturinn á árinu öllu hafi verið 7,7% en í nóvember var spáð að hann yrði 8,5%. Horfur fyrir þetta ár hafa jafnframt heldur batnað en þar vega lakari horfur um útflutning á móti bjartari horfum um innlenda eftirspurn,“ sagði þar m.a. En því meiri sem landsframleiðslan er þeim mun minni er hlutfallsleg skuldaaukning.

Varðandi verðbólguna og verðbæturnar má nefna að í síðustu Peningamálum spáði Seðlabankinn því að verðbólga yrði um 3,9% á fyrsta fjórðungi ársins en myndi hjaðna tiltölulega hratt er líður á árið. Það sé enda töluverður slaki í þjóðarbúinu, ásamt því sem gengi krónu hafi hækkað undanfarna mánuði.