Norðurslóðir Guðlaugur Þór og Bryndís á blaðamannafundinum.
Norðurslóðir Guðlaugur Þór og Bryndís á blaðamannafundinum. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is „Ég tel mikilvægt að við skilgreinum okkur sem norðurslóðaríki og við tölum ávallt í þágu íbúa norðurslóða,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem tók í gær við tillögum að nýrri stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Í framhaldinu mun ráðherra leggja fram þingsályktunartillögu, byggða á stefnunni.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

„Ég tel mikilvægt að við skilgreinum okkur sem norðurslóðaríki og við tölum ávallt í þágu íbúa norðurslóða,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem tók í gær við tillögum að nýrri stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Í framhaldinu mun ráðherra leggja fram þingsályktunartillögu, byggða á stefnunni.

„Mikilvægi norðurslóða hefur breyst mjög mikið á þessum tíma og það er engin tilviljun að þetta hafi verið ein af höfuðáherslunum í utanríkisstefnunni á mínum tíma,“ segir hann og bætir við að sjálfbærni sé grunnþema í þeirri stefnu.

Bryndís Haraldsdóttir, formaður nefndarinnar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kynnti tillögur nefndarinnar á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í gær. Hún telur mikilvægt að móta stefnu í samræmi við aukinn áhuga heimsbyggðarinnar á norðurslóðum.

Þverpólitískur vilji til staðar

„Það hefur mjög margt breyst á þessum tíu árum. Við sjáum til dæmis gígantískar breytingar í loftslagsmálum í ljósi hlýnunar jarðar og áhuginn á svæðinu eykst í hlutfalli við það. Við sjáum einnig mikla hernaðaruppbyggingu Rússa á svæðinu og á sama tíma sjáum við Vesturveldin uggandi yfir þessari þróun,“ segir hún og bætir við að vitanlega sé lögð áhersla á að norðurslóðir verði lágspennusvæði.

„Við í starfshópnum leggjum m.a. sérstaklega til að Akureyri verði efld enn frekar sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi og það er ánægjulegt að finna þennan þverpólitíska vilja fyrir því. Það eru mikilvæg skilaboð til þess öfluga hóps fólks sem starfað hefur um árabil á Akureyri í tengslum við norðurslóðamálin,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Íslandsdeildar NATO, sem einnig átti sæti í nefndinni.

Um er að ræða nítján tillögur um áhersluþætti sem norðurslóðastefna Íslands ætti að miða að; má þar nefna virka þátttöku í alþjóðasamstarfi, áframhaldandi stuðning við Norðurskautsráðið og áherslu á alþjóðalög og friðsamlega lausn deilumála.