[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nokkur dæmi úr hversdagsleikanum:

Nokkur dæmi úr hversdagsleikanum:

1. Kona í heitum pott i: „Og nú á bara að hrauna yfir okkur – eins og við höfum staðið okkur vel í Covid!“

2. Kennari í leiðsögumannaskóla ræðir aðförina að Bolla þar sem þau Guðrún Ósvífursdóttir vöknuðu í selinu við dyninn og Guðrún „gekk ofan fyrir brekkuna til lækjar þess er þar féll og tók að þvo léreft sín“. Nemandinn (kona) : „Ég veit þá hvað ég segi við sömu aðstæður: ‘Best ég skelli í vél'.“

3. Athafnamaður í sjónvarpsviðtali: „Við þurfum að ávarpa þetta vandamál.“ Hér eru menn farnir að þýða beint ( address the problem ). Má ekki bara takast á við þetta, glíma við það, gefa því gaum ? Annað sambærilegt dæmi er áskorun . Við búum nú stöðugt við alls kyns áskoranir ( challenge ). – Ef ég væri fenginn til að semja samræmt próf í íslensku mundi ég biðja nemendur að finna vel viðeigandi íslensk orð, ekki aðeins í staðinn fyrir allar algengustu sletturnar heldur líka vandræðaþýðingar eins og þessar tvær hér að ofan: áskorunina og það að ávarpa erfiða reynslu.

4. Menningarviti 1 í útvarpsþætti: „Þessi bók er skyldulesning .“ Leynist þarna kannski vottur af hroka?

5. Undir aðsendri grein í dagblaði : „Höfundur er professor emeritus.“ Er gamaldags að vera bara fyrrverandi prófessor – eða jafnvel afdankaður proffi ?

6. Menningarviti 2 : „Þessir tónleikar voru sannkallað eyrnakonfekt .“ Sérkennileg myndhverfing. Ég sé fyrir mér virðulegar frúr á tónleikum hjá Víkingi Heiðari reyna að troða konfektmolum inn í bæði eyru sín í einu.

En nú að „ástarkrafti“ . Í latneskri endursögn Arngríms lærða (1568-1648) úr hinni glötuðu Skjöldunga sögu segir frá Sigurði hring, föður Ragnars loðbrókar Danakonungs. Sigurður konungur hafði átt Álfhildi úr Álfheimum (norður af Gautelfi). Eftir lát hennar kom hann að blóti í Skíringssal í Noregi og sá þar hina fögru kóngsdóttur Álfsól og vildi fá hennar hvort sem goðum líkaði betur eða verr. Bræður Álfsólar þvertóku fyrir að gefa unga og fagra mey manni hrumum af elli. Sigurður konungur fór þá með her á hendur þeim bræðrum. Síðan segir í íslenskri þýðingu (sjá hina vönduðu útgáfu dr. Bjarna Guðnasonar, Danakonunga sögur 1982, bls. 74): „Enda þótt þeir bræður væru hraustir menn og djarfir var þeim kunnur mikill liðsfjöldi Sigurðar hrings. Tóku þeir því það ráð að byrla systur sinni eitur áður en þeir héldu til orrustunnar svo að hún skyldi ekki falla í hendur sigurvegaranum.“ Orrustan var hörð og báðir bræður Álfsólar féllu. En er Sigurður konungur frétti lát Álfsólar „lét hann taka skip mikið og hlaða dauðum mönnum og steig sjálfur á skip, einn lifandi manna. Lét hann setja sig og Álfsól dauða í lyfting og bera á skip tjöru, bik og brennistein og leggja eld í. Lét hann síðan draga upp segl en hvass vindur stóð af landi og bar skipið á haf út. Hann lagði skipinu í horf og réð sér síðan sjálfur bana.“

Baldur Hafstað hafstad.baldur@gmail.com

Höf.: Baldur Hafstað hafstad.baldur@gmail.com