— Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Hefur þú áður leikstýrt unglingum? Já, þetta er fjórða árið mitt með Víðistaðaskóla og áður hafði ég unnið með framhaldsskólakrökkum. Við sýnum í ár söngleikinn Annie.
Hefur þú áður leikstýrt unglingum?

Já, þetta er fjórða árið mitt með Víðistaðaskóla og áður hafði ég unnið með framhaldsskólakrökkum. Við sýnum í ár söngleikinn Annie. Þetta eru auðvitað börn sem hafa ekki reynslu af leiklist og því er þetta önnur nálgun en þegar ég leikstýri fullorðnum. Þau eru öll að læra allt frá grunni. Krakkarnir sinna öllum verkum; þau leika, syngja, dansa, eru í hljómsveit, sjá um búninga, sviðsmynd og förðun. Þau stýra líka ljósi og hljóði en rúmlega fjörutíu krakkar taka þátt í sýningunni. En þau fá hjálp frá foreldrum með sumt.

Hvað sýnið þið oft?

Þetta verða sex sýningar og þar af eru tvær á laugardag og tvær á sunnudag. Áhorfendur koma alls staðar að; í fyrra komu 1.700 manns. Þetta er mjög vinsælt. Söngleikurinn í Víðistaðaskóla hefur verið settur á svið síðan 1972 og stækkar sífellt. Það er farið alla leið og mikill metnaður í krökkunum.

Sérðu í hópnum hæfileikafólk framtíðarinnar?

Já, ég er búin að sjá það í gegnum þessi fjögur ár að mörg þeirra taka þátt í leikritum eða söngleikjum í menntaskóla og sum þeirra enda í leiklistarnámi eða tónlistarnámi. Þetta er mjög hæfileikaríkur hópur en hæfileikarnir í ár liggja sérstaklega hjá hljómsveitinni.

Hvað hefur verið erfiðast í ferlinu?

Óvissan hefur verið erfiðust, vegna Covid. Hvort við mættum sýna og hvað margir mættu vera í salnum. Það hefur verið ótrúlega strembið en nú er allt í góðu og sýningar verða um helgina. Krakkarnir uppskera þá eins og þeir sáðu.

Gunnella Hólmarsdóttir er sjálfstætt starfandi leikkona og leikstjóri söngleiksins Annie sem er nú sýndur í Víðistaðaskóla. Sýningar eru um helgina og fást miðar á tix.is.