Sporna þarf við upplýsingaóreiðu þegar siglt er út úr faraldrinum með bólusetningum.

Á fyrstu mánuðum heimsfaraldursins setti Þjóðaröryggisráð á laggirnar hóp manna til að fjalla um það sem kallað var upplýsingaóreiða. Hópurinn skilaði skýrslu í október 2020 og þar sagði meðal annars:

„Upplýsingaóreiða, miðlun rangra eða misvísandi upplýsinga, t.d. með fölsunum eða með því að höfða markvisst til tilfinninga, getur orðið að kerfisbundnu tæki til þess að grafa undan staðreyndum, ala á sundrungu eða laska orðspor keppinauta. [...] Þegar skipulega er stuðlað að upplýsingaóreiðu getur það verið liður í að tvístra samheldni og samfélagsgerð með því að draga úr trausti almennings á milli hópa, og á ríkinu sjálfu og stofnunum þess.“

Þessi ábending er sígild og á ekki síður við núna þegar siglt er út úr faraldrinum með bólusetningum en þegar hann lagðist yfir án þess að nokkur vissi hvernig og hvenær tækist að snúa vörn í sókn.

Afstaða til bóluefna mótast mjög af því sem að okkur er haldið í fjölmiðlum. Almennt kunnum við líklega ekki að meta byltinguna sem varð með því að á undraskömmum tíma tókst að framleiða bóluefni á allt öðrum grunni en áður. Á innan við ári var þróað og fengið leyfi eftirlitsstofnana fyrir notkun tveggja bóluefna í mönnum. Ferlið tekur venjulega nær 10 ár.

Tvær megingerðir bóluefna hafa verið kynntar til sögunnar (1) fituhjúpaðar mRNA-öragnir, ekki hafði áður fengist leyfi til að sprauta þeim í menn (Pfizer, 95% vernd, Moderna, 94,1% vernd) (2) veiruferjubóluefni, lítið notuð í mönnum til þessa (AstraZeneca, 70% vernd, Gamaleya, 91,6% vernd eftir einn skammt, J&J/Janssen, 66% vernd eftir einn skammt).

„Aðalkostur mRNA og veiruferjubóluefna er að þau virkja T-drápsfrumur, sem eyða veirusýktum frumum og koma í veg fyrir veirufjölgun, betur en aðrar gerðir bóluefna, svo sem dauðra veira, auk þess að vekja mótefnamyndun og frumubundið ónæmissvar. Annar kostur er hve einfalt er að breyta mRNA eða DNA í veiruferju sem broddprótínið myndast eftir, til að bæta vernd gegn nýjum afbrigðum veirunnar,“ segir Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við læknadeild HÍ, í grein í Læknablaðinu .

Sé rétt skilið gerir mRNA-tæknin kleift að endurstilla virkni bóluefnisins, sé þess þörf vegna breytinga á veirunni. Bókstafurinn „m“ fyrir framan RNA stendur fyrir enska orðið messenger – boðberi – og gefur til kynna að senda megi RNA, systkini DNA, gegn óvinaveiru og granda henni.

AstraZeneca lenti í miklum mótbyr. Fyrst vegna þess að bóluefnið dygði ekki fyrir 65 ára og eldri og síðan af ótta við að það kynni að leiða til blóðtappa. Fjölmiðlar fluttu fréttir um þetta, ríkisstjórnir lokuðu á notkun bóluefnisins. Í báðum tilvikum snerust hlutlausir rannsakendur til varnar fyrir bóluefnið. Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sögðu að loknum fundi þriðjudaginn 16. mars að „ekkert benti“ til að blóðtappar tengdust bóluefninu. Lyfjastofnun Evrópu komst að sömu niðurstöðu fimmtudaginn 18. mars. Tafir vegna hræðslufrétta um efnið settu áætlanir margra ríkisstjórna í uppnám, meðal annars hér á landi.

Eitt er að nýta hiklaust bóluefni sem eru í boði, annað að finna réttu leiðina frá faraldrinum. Mörgum varð létt hér á landi þriðjudaginn 16. mars þegar ríkisstjórnin ákvað að viðurkenna ætti bóluefnavottorð frá löndum utan Schengen-svæðisins og slaka á banni við ónauðsynlegum ferðum til og frá landinu. Öðrum var nóg boðið.

Bretland og Bandaríkin, helstu markaðslönd íslenskrar ferðaþjónustu, eru utan Schengen-svæðisins og forráðamenn þjónustunnar létu eins og Schengen-samstarfið héldi vottuðum flugfarþegum þaðan frá landinu. Þetta var meira að segja fullyrt hér eftir 11. mars þegar ferðamálaráðherra Grikklands, Harry Theoharis, tilkynnti að frá og með 14. maí yrðu grísku landamærin opin öllum sem hefðu verið bólusettir eða reynst neikvæðir við sýnatöku. Ferðamenn yrðu þó að sæta því að slembiaðferð yrði beitt við sýnatöku úr hópi þeirra.

Í samræmi við minnisblað sóttvarnalæknis tilkynnti ríkisstjórnin 16. mars um breytingar á sóttvarnaaðgerðum á landamærunum. Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra sagði:

„Bólusetningarvottorð og vottorð um fyrri Covid-sýkingu utan EES-svæðisins verði tekin gild eins og vottorð innan EES-svæðisins. Sömu kröfur verði gerðar til allra vottorða.“

Þegar Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra flutti Alþingi skýrslu um heilbrigðismál 17. mars sagði hún til skýringa á framkvæmd tillögu sóttvarnalæknis: „Reglugerð um för yfir landamæri sem heyrir undir dómsmálaráðherra verður breytt þannig að almennt bann við tilefnislausum ferðum þriðja ríkisborgara yfir ytri landamæri nær ekki til einstaklinga sem eru með umrædd vottorð. Það er jafnframt algerlega í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis.“

Næst hófst tímabil sem ber merki um upplýsingaóreiðu.

Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins 18. mars sagði að þá um morguninn hefði dómsmálaráðuneytið birt reglugerð um að ferðamenn frá löndum utan Schengen-svæðisins mættu nú koma til landsins framvísuðu þeir bólusetningarvottorði – reglugerðin hefði þegar tekið gildi.

Á visir.is sagði sama dag að reglugerðin varðandi þetta hefði ekki tekið gildi. Þá birtist á ruv.is að sóttvarnalæknir segði tilmæli sín „hugsuð fyrir þá sem eiga brýnt erindi hingað til lands“ en ekki að opnað yrði fyrir landamæri í auknum mæli, eins og aðgerð dómsmálaráðherra fæli í sér.

Úr þessari óreiðu þarf að greiða.

Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is

Höf.: Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is