[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir háskólanám síðastliðinna fimm ára var orðið langþráð að geta gefið sér tíma til yndislesturs.

Eftir háskólanám síðastliðinna fimm ára var orðið langþráð að geta gefið sér tíma til yndislesturs. Listi þeirra bóka sem samferðafólk mitt, hérlendis og erlendis, hafði mælt með var orðinn ansi langur og nú rúmu ári eftir að námi lauk á ég enn langt í land með að vinna mig í gegnum listann. Til að auka afkastagetuna hef ég tekið upp þann sið að nota strætóferðir til og frá vinnu til þess að hlusta á hljóðbækur og hluta þeirra bóka sem hér eru nefndar hef ég því hlustað á en ekki lesið.

Nokkrar bækur komst ég yfir að lesa í jólafríinu og stóð þar upp úr Gata mæðranna eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Gata mæðranna er tíðarandaskáldsaga, eins og Kristín Marja er þekkt fyrir að koma vel frá sér. Sögusviðið er skýrt, eins og titillinn ber með sér en framvindan hæg framan af. Frásögnin og aðalsögupersónan Marín hrifu mig þó þegar líða tók á bókina og sat sagan í mér í töluverðan tíma. Það gerðu einnig Eldarnir, ástin og aðrar hamfarir eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, en til þeirrar bókar hef ég mikið hugsað í jarðhræringum síðustu vikna.

Í upphafi árs fóru strætóferðir mínar í að hlusta á Feminism for the 99%: A manifesto sem skrifuð er af fræðakonunum Cinzia Arruzza, Tithi Bhattacharya og Nancy Fraser. Yfirlýsingin er stutt og hnitmiðuð en nokkuð fræðileg á köflum þar sem snert er á stéttaskiptingu, kynþáttafordómum, umhverfismálum og and-kapítalisma. Það sem helst hreyfði við mér var áminningin um að ávinningur í jafnréttisbaráttunni næst ekki með því að brjóta glerþök ef aðrar konur og fólk í minnihlutahópum þurfa að sópa upp glerbrotin.

Í strætóleið 15, á ferðum mínum til og frá vinnu, hlusta ég nú á bókina It‘s Not About the Burqa . Bókin er safn frásagna múslimskra kvenna sem hleypa lesendum (eða hlustendum) inn í hugarheim sinn og margbreytilegan veruleika. Frásagnirnar eru lesnar af höfundunum sjálfum sem gerir þær persónulegar og áhrifamiklar.

Á náttborðinu bíður mín svo örlítið léttara efni eða saga úr hverfinu, 107 Reykjavík , eftir Auði Jónsdóttur og Birnu Önnu Björnsdóttur, sem ég hlakka til að háma í mig – á föstu formi.