[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hildigunnur Hjálmarsdóttir er fædd 20. mars 1920 í Stykkishólmi þar sem faðir hennar, Hjálmar Sigurðsson, var kaupmaður.

Hildigunnur Hjálmarsdóttir er fædd 20. mars 1920 í Stykkishólmi þar sem faðir hennar, Hjálmar Sigurðsson, var kaupmaður. Hann andaðist eftir aðgerð á sjúkrahúsi í Reykjavík í desember 1919 og fékk því aldrei að sjá dóttur sína sem ólst upp hjá móður sinni, Soffíu Emilíu Gunnarsdóttur.

Soffía hafði nokkurra ára gömul verið send til Stykkishólms í fóstur hjá föðurbróður sínum, séra Sigurði Gunnarssyni, og eiginkonu hans, Soffíu Emilíu Einarsdóttur, hattara í Reykjavík. Hjálmar hafði flust til Stykkishólms aldamótaárið 1900 þar sem hann vann fyrst við Tangs verslun en stofnaði síðan eigið fyrirtæki og rak einnig útgerð til dánardags. Þau Soffía bjuggu í Norska húsinu og þar ólst Hildigunnur upp fyrstu ár ævinnar.

Úr Norska húsinu í Fjalaköttinn

Árið 1928 fluttust mæðgurnar suður til Reykjavíkur og fengu fyrst íbúð í Fjalakettinum við Aðalstræti. Hildigunnur er mikil miðbæjarmanneskja, hún bjó í miðborginni fram á miðjan áttunda áratuginn, gekk þar í skóla, vinkonur hennar bjuggu skammt undan og vinnustaður hennar var í göngufæri frá Kvosinni.

Hún stundaði nám í Miðbæjarskólanum, Gagnfræðaskóla Reykvíkinga og lauk stúdentsprófi frá MR árið 1939. Hana langaði að halda áfram námi og jafnvel nema við erlenda háskóla en aðstæður leyfðu það ekki. Fimmta bekk í MR las hún utanskóla en vann þá og fyrst eftir stúdentspróf á Landsímanum við Austurvöll. Síðan vann hún um hríð á tryggingarskrifstofu Carls D. Tulinius en fékk síðan vinnu hjá Skrifstofu Ríkisspítala og starfaði þar allt þangað til hún fór á eftirlaun, lengst af sem gjaldkeri. Þá lét hún gamlan draum rætast, innritaði sig í Háskóla Íslands og lauk BA-prófi í frönsku og dönsku árið 1987.

Dag einn sumarið 1936 bankaði móðurbróður hennar, Gunnar Gunnarsson rithöfundur, óvænt upp á og bauð henni með sér og syni hennar Úlfi í ferð með þýska skemmtiferðaskipinu Milwaukee. Leiðin lá lengst norður í haf og síðan niður með strönd Noregs og svo til Hamborgar. Þaðan flaug hún til Kaupmannahafnar en Gunnar bjó þá ásamt fjölskyldu í Fredsholm, rétt utan við borgina. Ferðin var ógleymanleg og með henni var áhugi Hildigunnar á umheiminum vakinn fyrir alvöru.

Ferðalög urðu þó að bíða á meðan seinna stríð stóð yfir en sumarið 1948 hélt hún til Englands þar sem eiginmaður hennar, Agnar Þórðarson, hafði verið við nám í Oxford-háskóla. Næsta árið dvöldu þau að mestu í París og Suður-Frakklandi, en einnig á Ítalíu, Írlandi og Englandi. Agnar og Hildigunnur ferðuðust mikið til útlanda og var París í sérstöku uppáhaldi hjá þeim.

Hildigunnur var stundum fararstjóri í dagsferðum á Íslandi og einu sinni voru hjónin fararstjórar íslensks hóps sem ferðaðist um Þýskaland og Holland. Stundum höfðu ferðaskrifstofur einnig samband við hana og spurðu hvort hún gæti boðið ferðamönnum upp á gistingu og morgunmat. Hún kynntist einnig mörgum erlendum fræðimönnum er hingað komu og margir þeirra urðu stórvinir þeirra Agnars.

Hildigunnur hefur alla tíð verið mikill listunnandi. Hún las mikið og fylgdist grannt með alþjóðamálum, og þýddi stundum greinar um málefni liðandi stundar er birtust oftast í Lesbók Morgunblaðsins. Árið 2007 gaf hún út bókina Danska frúin á Kleppi sem fjallar um tengdaforeldra hennar, Ellen Kaaber og Þórð Sveinsson.

Þakklát fyrir gott líf

„Mér er efst í huga þakklæti fyrir hvað ég hef átt gott líf,“ segir Hildigunnur. „Ég hef kynnst góðu og áhugaverðu fólk frá ýmsum löndum. Ég hef lesið mikið og séð mörg af fallegustu listaverkum heims. Ég var einmitt að hugsa um eitt af þessum verkum í gær, en hafði gleymt nafninu. Það byrjar á Le Dejeuner og er eftir Manet,“ og svo byrjar Hildigunnur að lýsa málverkinu en um er að ræða hið fræga Le Déjeuner sur l´herbe eftir Édouard Manet. „Ég hef líka haft gaman af íslenskum málurum eins og Nínu Tryggvadóttur, Lovísu Matthíasdóttur og vinum okkar hjóna, Gunnlaugi Scheving, Kjartani Guðjónssyni og Valtý Péturssyni.“

Hildigunnur minnist líka vinkvenna sinna, sem héldu saumaklúbb saman tvisvar í mánuði allt þar til það var ekki lengur fært. Hildigunnur er sú eina sem er enn á lífi, en Áslaug Ásmundsdóttir, sem lifði næstlengst, lést 2018. „Ég kynntist Sigríði Kjaran, Sigríði Pétursdóttur Magnússonar ráðherra og Guðrúnu Gísladóttur Jónssonar þingmanns í gagnfræðaskóla en hinum í MR. Tvíburasystrunum Ólöfu og Guðrúnu, dætrum Benedikts Sveinssonar alþingismanns og Guðrúnar Pétursdóttur á Skólavörðustíg, hafði ég þó kynnst áður. Við urðum vinkonur þegar ég hef verið um átta ára.“

Í tilefni dagsins ætla synir Hildigunnar og tengdadætur að koma í heimsókn og skála fyrir afmælisbarninu.

Fjölskylda

Eiginmaður Hildigunnar var Agnar Þórðarson, f. 11.9. 1917, d. 12.6. 2006, rithöfundur og bókavörður. Þau voru gefin saman í Reykjavík 29.9. 1947. Þau bjuggu á Suðurgötu 13 til 1975 og síðan í Sólheimum. Þar var Hildigunnur til 2016 þegar hún fór á Grund. Foreldrar Agnars voru hjónin Þórður Sveinsson, f. 20.12. 1874, d. 21.11. 1946, yfirlæknir á Kleppi, og Ellen Johanne Kaaber Sveinsson, f. 9.9. 1888, d. 24.12. 1974, húsfreyja. Þau voru gefin saman 4.2. 1909.

Börn Hildigunnars og Agnars eru 1) Uggi Þórður, f. 19.11. 1949, hjartalæknir í Reykjavík. Maki: Margrét Guðnadóttir, hönnuður. Barnabörn eru Ísold, Úlfur og Embla. Barnabarnabarn er Heimir; 2) Úlfur, f. 2.2. 1952, barnalæknir í Reykjavík. Maki: Ásta G. Briem, starfs- og námsráðgjafi. Barnabörn eru Darri, Gunnlaugur, Hildigunnur og Agnar Þórður. Barnabarnabörn eru Emilía Ásta, Úlfur, Hrafn Darri, Kjartan Leó og Tómas Emil; 3) Sveinn, f. 22.12. 1958, prófessor í Reykjavík. Maki: Gunnhildur Kristín Björnsdóttir, bókasafnsfræðingur.

Foreldrar Hildigunnar voru hjónin Hjálmar Sigurðsson, f. 6.6. 1869, d. 11.12. 1919, kaupmaður í Stykkishólmi, og Soffía Emilía Gunnarsdóttir, f. 2.7. 1893, d. 9.1. 1989, skrifstofukona í Reykjavík. Þau voru gefin saman 6.7. 1918.