Akeem Cujo Oppong
Akeem Cujo Oppong
Eftir Akeem Cujo Oppong: "Það ber að minnast á viðhorf fólks til svörtu fjallkonunnar fyrir nokkrum árum. „Myndi ekki vilja að dóttir mín væri með svörtum manni“ er oft hugsað líka."

Í dag, 21. mars, er alþjóðlegur dagur útrýmingar rasisma og alls kyns kynþáttafordóma. Dagurinn er haldinn hátíðlegur hjá Sameinuðu þjóðunum til að minnast 21. mars 1960, þegar 69 manns var slátrað fyrir að mótmæla aðskilnaðarstefnunni Apartheid í Sharpeville í Suður-Afríku.

Rasismi er nokkuð innbyggður í fólk á Íslandi og ber að minnast á viðhorf fólks til svörtu fjallkonunnar. Menn þurfa bara að skoða eigin fordóma og líta í eigin barm. Fullyrðingar eins og „svartir eru latir“ og „gyðingar eru nískir“ flokkast því sem fordómar þar sem einstaklingurinn sem lætur slíkt út úr sér notar þar vanþekkingu sína til að búa sér til fullyrðingu um heilan hóp manna sem telur margar milljónir. Fordómarnir hafa í gegnum tíðina oft náð að tvístra heilu samfélögunum og verið valdir að ýmiss konar óhugnaði sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir hefðu hinir ólíku hópar haft skilning hver á öðrum og sest niður rólega og rætt málin. Rasismi hefur fyrirfundist á Íslandi lengi og var þeldökkum m.a. meinað að starfa á herstöð NATO í Keflavík allt fram til ársins 1971 og landið ekki opnað fólki af öðrum litarhætti fyrr en seint á áttunda áratug síðustu aldar. Rasistahreyfingar hafa verið starfræktar á Íslandi með einhverju millibili allt frá tímum nasista og hér á landi fyrirfinnast nokkrar slíkar hreyfingar enn þann dag í dag.

Rasismi er versta þjóðfélagsmein sem til er á Íslandi í dag og hefur leitt til aðsúgs og árása á fólk vegna litarháttar þess sem og ýmiss konar útskúfunar vegna dulinna fordóma. Rasisminn á sér einnig nokkra undirflokka, svo sem útlendingaandúð, menningarhatur og trúarhatur, og eru þessi fyrirbrigði oft mun meira áberandi en hinn hreinræktaði rasismi hér á landi. Fordómar eru ekki bara augljóst hatur; við verðum að átta okkur á því að við erum uppfull af fordómum þegar við segjum setningar eins og: „Ég er ekki haldin/n kynþáttafordómum en ég myndi ekki vilja að dóttir mín giftist svörtum manni.“ Við erum hrædd við að upplifa áður óþekktar tilfinningar, við erum hrædd við viðbrögð okkar gagnvart því sem er framandi. Við óttumst að hið óþekkta raski jafnvægi okkar eða umhverfi. Vissulega er kynþáttahatur á Íslandi og kannski er það leyndara en okkur grunar. Kynþáttahatur hér er meira og minna tengt litarhætti og fólki finnst hörundsdökkt fólk eitthvað óæðra og skör lægra en þeir sem rekja ættir aftur til Ingólfs.

Jafnrétti snýst að sjálfsögðu ekki eingöngu um kynin. Björt Samuelsen, alþingiskona frá Færeyjum, sagði á sínum tíma að ráðamenn og stjórnvöld á Norðurlöndum þyrftu að hætta að hugsa um jafnrétti sem eitthvað sem snerist eingöngu um kynin því allir sem fæddust í þennan heim ættu jafnan rétt á virðingu og ákveðnum réttindum sem ekki mætti taka frá þeim.

Þetta er undirstaða frelsis, réttlætis og mannréttinda í heiminum. Samkvæmt könnun sem Evrópusambandið gerði er það staðreynd að 62% Evrópubúa í dag telja að mismunun á grundvelli hörundslitar og uppruna sé mjög algeng víða í álfunni. Íslendingar eru með útlendingaandúð gagnvart ástarsambandi milli þeirra og til dæmis svarts fólks, eins og kóngafjölskyldan á Bretlandseyjum er sökuð um.

Donald nokkur Trump skapaði óþarfa ótta og andúð í garð annarra sem hann þoldi ekki, en þekkti í raun ekkert og vissi ekkert um. Andúð í garð þeirra sem við þekkjum ekki byggist oft á vanþekkingu sem getur skapað fordóma, beina eða óbeina kynþáttamismunun eða í verstu tilfellum jafnvel hatur, því að þetta er svo sannarlega rótgróið og fast eins og plága í mönnum.

Kynþáttafordómar eru alls staðar í samfélaginu og fela í sér alls konar mannréttindabrot, mismunun, misrétti, ójafnræði, óréttlæti o.s.frv. Í Bandaríkjunum alast sumir upp við að þeim er sagt að forðast og jafnvel hata ákveðið fólk. Þar af leiðandi hefur ekkert breyst í þessum kynþáttahatursmálum frá upphafi. Og mun aldrei breytast.

Þjóðarsálin fer aldrei í sjálfsrannsókn hvað þetta mál og önnur varðar og menn loka augum og eyrum og halda áfram með lífið eins og ekkert sé. Gargandi kynþáttafordómar fara vaxandi í þessum löndum sem og í öðrum heimsálfum. Fordómar sem fyrirbæri hafa því miður fylgt mannkyninu frá upphafi en það er ekki einungis bundið við Evrópu. Þar hefur nýnasismi, með hjálp netsins, sprungið út alls staðar.

Við berum öll sem eitt ábyrgð hvað þetta mál varðar. Atvinnurekendur, ráðherrar, sveitarfélög, stjórnmálamenn, stjórnendur, starfsmenn, nemendur og kennarar hafa vald og tækifæri til að breyta viðhorfi til góðs. Að líta niður á aðra vegna litarháttar eða útlits er ljótt, ómannúðlegt, óviðunandi og allsherjarskömm gegn mannkyninu. Kynþáttafordómar, kynþáttamismunun, kynþáttahyggja, kynþáttamisrétti og kynþáttahatur er nokkuð sem við megum og skulum aldrei láta viðgangast. Það er ekki nóg að mæta í alls konar viðburði til að taka þátt í „Black lives matter“.

Höfundur er framkvæmdastjóri Ísland Panorama Center.

Höf.: Akeem Cujo Oppong