Rússneska sendiráðið vonar að íslenskir stjórnmálamenn og blaðamenn temji sér „meira jafnvægi“ í umfjöllun þeirra um alþjóðleg öryggis- og varnarmál.

Rússneska sendiráðið vonar að íslenskir stjórnmálamenn og blaðamenn temji sér „meira jafnvægi“ í umfjöllun þeirra um alþjóðleg öryggis- og varnarmál.

Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn sem Morgunblaðið sendi á sendiráðið vegna gagnrýni Maríu Zakharova, talsmanns rússneska utanríkisráðuneytisins, á Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra, en hún gagnrýndi í gær meintar fullyrðingar ráðherrans um að kjarnorkuvígbúnaður Atlantshafsbandalagsins hefði verið svar við kjarnorkuvígbúnaði Sovétríkjanna, fyrirrennara Rússlands. Í svari sendiráðsins er skýrt að meint ummæli eiga að hafa birst í greininni „Öflugar varnir eru undirstaða friðar“, en líkt og fram kom í blaðinu í gær kom Guðlaugur Þór af fjöllum þegar málið var borið undir hann. Í greininni er enda hvergi minnst á vígbúnað Sovétríkjanna, en á einum stað er fullyrt að Rússland hafi „þróað nýjar tegundir kjarnavopna og endurnýjað þau sem fyrir eru.“

Í svari sendiráðsins segir hins vegar að ekki þurfi að vera sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum til að lesa á milli línanna í grein ráðherra, og að „augljósar“ ályktanir hafi verið dregnar af orðum hans þar, sem aftur hafi leitt til ummæla Zakharovu.

Segir í svarinu að samkvæmt rökum Guðlaugs Þórs sé Atlantshafsbandalagið eini hornsteinn öryggis og friðar í heiminum, sem aftur þýði að bandalagið hafi útvegað sér vígbúnað sinn sem svar við vígbúnaði Sovétríkjanna. Segir sendiráðið slíka túlkun vera einhliða og að ráðherrann hafi ekki getið þáttar Rússlands í nær öllum afvopnunarsamningum sem gerðir hafa verið, né heldur að Rússar hafi aldrei sagt sig einhliða frá neinu þeirra, ólíkt Bandaríkjamönnum. sgs@mbl.is