Helga Þorgeirsdóttir fæddist 19. apríl 1935. Hún lést 8. mars 2021.

Útförin fór fram 19. mars 2021.

Elsku hjartans Helga amma mín.

Þú þreyttist ekki á því að segja mér að ég væri eitt af barnabörnunum þínum og ég ætti að að kalla þig Helgu ömmu.

Ég á ótal fallegar og góðar minningar frá Seyðisfirði þar sem ég bjó fyrstu ár ævi minnar umvafin kærleiksrjóðri, einnig síðar meir sem fullorðin manneskja.

Ég átti mömmu, Palla pabba, Helgu ömmu, Jón afa, Ríkeyju ömmu og að sjálfsögðu allar hinar elskurnar.

Fallega yndislega Helga amma, þú varst algjörlega einstök kona. Samkvæm sjálfri þér með stórt hjarta á réttum stað. Áttir svo mikla ást að gefa og æðruleysi þegar þú þurftir á því að halda.

Mér fannst þú alltaf eins og klettur sem stóðst með sjálfri þér og þínu fólki, sterk og glöð.

Seyðfirðingar báru virðingu fyrir þér og ég veit að margir eiga eftir að sakna þess að sjá þig á rösklegri göngu í firðinum. Kastandi kveðju á alla sem á vegi þínum urðu, án þess þó að missa niður tempóið. Þú varst alltaf svo dragfín og hafðir svo gaman af því að dubba þig upp, sama hvernig viðraði alltaf eins og drottning.

Fyrsta minning mín af okkur tveimur er frekar óljós, en er þó þarna samt. Fullt af augum að horfa á mig yfir afgreiðsluborð gamla Kaupfélagsins, því samkvæmt Helgu ömmu átti litla stúlkan að fá gull í eyrun. Ég man að áður en skotið var spurði, að mig minnir Guðrún Andersen, hvort ég væri hrædd? Ég svaraði „Nei, þú varst þarna að passa upp á mig.“ Eins og þú gerðir alltaf við allt þitt fólk.

Þetta var svo mikið í þínum anda, vissi svo síðar meir að þú hefðir tekið þessa ákvörðun upp á þitt eigið einsdæmi án þess að spyrja kóng né prest. Þér hefur væntanlega fundist að litli hárleysinginn þyrfti að fá gullbjöllur í eyrun. Þetta var upphafið að dálæti mínu á gulli og glysi.

Þú varst gull eins og það sem skotið var í eyrun á mér þennan dag.

Hreinskilni þín og sannfæring um hvað væri rangt og rétt gerði það að verkum að það var hægt að tala við þig um allt. Þú varst líka svo blátt áfram og mikil tilfinningavera.

Mér fannst þú og afi lifandi dæmi um að til væri sönn ást. Virðing og vinátta einkenndi ykkur samband og þið voruð alltaf svo samstíga.

Ég lít til baka og ylja mér á öllum fallegu minningunum og síðast en ekki síst stóru gjöfinni að fá að eiga hann Palla pabba.

Margar myndir læðast upp í hugann:

Að horfa á Dallas á Túngötunni í sjónvarpsstofunni undir stiganum var sérstök stemmning.

Að rúnta um á rauða Benzanum, flottustu drossíu landsins.

Ótalmörg kvöldkaffiboðin þar sem spjallað var um allt milli himins og jarðar, án þess að spara sykur eða rjóma.

Koma til ykkar afa í fallega gróðurhúsið sem ilmaði af rósum og minnti alltaf á framandi slóðir.

Nú sit ég hér með einkennilegt tómarúm í hjartanu sem erfitt er að fylla. Vitandi það að með þessari stuttu kveðju er kona horfin sem engin kemur í staðinn fyrir. Mikið var yndislegt að þú náðir þó að koma til okkar og upplifa Fjelde, það var ómetanleg heimsókn.

Takk mín kæra fyrir að hafa reynst mér og mínum drengjum svona góð alla tíð. Bestu kveðjur til sumarlandsins þar til næst. Þín Ríkey.

Ríkey Kristjánsdóttir

Það var sjónarsviptir að Helgu á götum Seyðisfjarðar þegar hún flutti suður um mitt síðasta sumar og veit ég að margir söknuðu hennar. Áratugum saman mátti sjá hana á göngu á götum bæjarins, prúðbúna, glæsilega og léttstíga eins og unga stúlku. Áður fyrr var hún jafnan í fylgd með Jóni manni sínum, en eftir fráfall hans oft með vinkonum. Þær kunnu að njóta stundarinnar, fóru reglulega í Skaftfell eða á Ölduna í spjall og hvítvínsglas. Þá var spjallað við gesti og gangandi af gleði og jákvæðni.

Helga var einhvern veginn okkar allra enda svo elskuleg og opin og tók öllum vel. Hún naut virðingar og elsku bæjarbúa og frá henni stafaði vinsemd og elskulegheit í garð okkar hinna.

En lífið var ekki alltaf dans á rósum; Helga var kornung orðin sex barna móðir, sjómannskona með þá miklu ábyrgð sem því fylgir að vera ein um að gæta ungra barna og annast heimili. Allt gekk það samt vel og öll urðu börnin henni til gleði og sóma. En tvo syni sína missti hún á besta aldri úr hjartveiki.

Við hjónin höfum ferðast töluvert í hópi með Helgu, átt við hana margt spjallið og með henni margar samverustundir. Eitt sinn lá leiðin til Flórída þar sem hún og Tóta vinkona hennar, elstar í hópnum, voru hrókar alls fagnaðar og smituðu frá sér kátínu og gleði. Mikið var gaman að vera í þeirra félagsskap.

Helga var í hamingjusömu hjónabandi og ég held að hún hafi saknað Jóns síns alla daga, því hann bar oft á góma í samræðum við hana. Þess vegna var auðvelt að samgleðjast henni þegar hún tók þá stóru ákvörðun að flytja suður til að vera nálægt börnum sínum. En á Seyðisfirði hafði hún alið allan sinn aldur.

Við Rúnar sendum öllum ástvinum Helgu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jóhanna Gísladóttir.