Bólusetning Þessum íbúa Los Angeles er líklega illa við sprautur.
Bólusetning Þessum íbúa Los Angeles er líklega illa við sprautur. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Bandaríkjastjórn náði í gær settu takmarki sínu um að búið yrði að bólusetja 100 milljónir Bandaríkjamanna gegn kórónuveirunni áður en Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði lokið fyrstu hundrað dögum sínum í embætti hinn 30. apríl næstkomandi. Sagði Biden áfangann marka góðan tíma fyrir bjartsýni, en að ekki væri rétt að slaka á sóttvarnarkröfum að sinni. Engu að síður hafa nokkur ríki og sum fyrirtæki þegar hafið tilslakanir vegna hins góða árangurs.

Bólusetningarherferð Bandaríkjanna hefur ásamt nýjasta neyðarpakka stjórnvalda einnig haft önnur og jákvæðari áhrif á efnahagslífið, þar sem bólusettir Bandaríkjamenn sækjast nú eftir ferðalögum, gistingu og veitingum í síauknum mæli. Í könnun sem bandaríska dagblaðið Wall Street Journal gerði meðal hagfræðinga í marsmánuði kemur fram að þeir telja miklar batahorfur varðandi hagvöxt í Bandaríkjunum á þessu ári, eða um 5,95% á ársgrundvelli, og yrði það mesta hagvaxtaraukning sem flestir núlifandi Bandaríkjamenn hefðu upplifað að sögn Tims Quinlan, yfirhagfræðings hjá Wells Fargo-bankanum. Bendir hann á að nú sé mikil neyslukrafa ásamt sparifé sem hafi safnast upp á meðan fólk þurfti að dvelja sem mest heima við.

Þá sé uppsveiflan að koma fyrr en hagfræðingarnir áttu von á í upphafi þessa árs, og keyrð áfram að miklu leyti af þjónustu sem feli í sér nánd við annað fólk. Þannig sé borðapöntunum á veitingahúsum að fjölga, og líkamsræktarstöðvar, snyrtistofur og hressingarhæli farin að sýna sína bestu útkomu frá því að faraldurinn hófst.

Mikil uppsöfnuð eftirspurn

Í umfjöllun blaðsins er einnig vikið að því að Bandaríkjamenn með hærri tekjur hafi safnað mestu á meðan þeir þurftu að vera heima hjá sér, en þeir eyði jafnan mestu í þjónustu. Þá hafi hins vegar skort bæði vilja og getu til þess að gera það nú, og fjármagn þeirra hafi því að mestu farið í vörukaup. Nú sé hins vegar mjög mikil uppsöfnuð spurn eftir þjónustu.

„Ég myndi frekar vilja ferðast en að gera flest annað,“ segir Betsy Cole, 81 árs gamall Bandaríkjamaður, við Wall Street Journal, en hún hefur nú þegar bókað ferðir til Boston, bresku Jómfrúaeyja á þessu ári og tvær utanlandsferðir á því næsta, til Marokkó og Grikklands. Cole er sérstaklega nefnd sem dæmi um aukinn vilja Bandaríkjamanna til að ferðast, þar sem hún er nú fullbólusett, en í umfjöllun blaðsins er bent á að um 12% Bandaríkjamanna séu nú búin að fá báðar sprauturnar sem flest bóluefnin krefjast.