Það voru þrjár konur á þingi og engin þeirra var ráðherra. Það hafði verið prófað einu sinni og þótti víst ekkert spes.

Það er merkilegt hvernig allt gengur í hringi og hlutir snúa aftur sem maður hefði aldrei trúað að gætu fundið leið til baka. Og ekki nóg með það heldur er yfir þeim einhvers konar notalegur blær sem gjarnan fylgir minningum.

Þannig er það með níunda áratuginn. Við finnum fyrir honum í tónlist og meira að segja tísku. Jafnvel þótt allir, sem eitthvað sjá frá sér, séu sammála um að sjaldan hafi gengið yfir heiminn jafn skæð hrina tískuslysa.

Í kvöld er þáttur á RÚV sem heitir Straumar þar sem á að fara yfir þennan áratug. Áttuna eins og hann er kallaður nú af því að yngstu kynslóðirnar virðast ekki vera til í að telja áratugi afturábak og finnst betra að nota leið enskunnar sem talar um 80's. Ég er nokkuð viss um að allir í þættinum séu á því að þetta hafi verið geggjaður tími.

Nú vill líka svo skemmtilega til að ég vinn með þrítugum manni sem er með fortíðarþrá á lokastigi og á sér þann draum heitastan að hafa fæðst heldur fyrr og fengið að upplifa þennan tíma. Í hans huga var þessi áratugur eitt langt partí með bögglesi, brauðtertum, hárlakki og herðapúðum.

En það er þannig, þegar maður lítur til baka, að maður man bara það sem upp úr stóð. Þannig var veður æsku okkar sól og snjór til skiptis. Aldrei venjulegir dagar með venjulegu veðri. Það sama á við um þennan áratug. Hann er Gleðibankinn, Hollywood, Arnarflug og verðbólga.

Það væri hins vegar áhugavert að senda einhvern um tvítugt aftur til ársins 1982. Þá var enn þá ár í að Rás 2 liti dagsins ljós og fjögur ár í að fólk gæti horft eða hlustað á eitthvað annað en það sem ríkið hafði ákveðið að hentaði okkur. Sem voru helst fréttir af loðnuleit og síldarsamningum og óskiljanlegar sænskar og svissnesk/franskar bíómyndir.

Ég var svo heppinn að fá vinnu hjá Hafskip um sumarið. Þar var kerfið þannig að venjulega var unnið frá 8-22 fyrstu þrjá daga vikunnar. Stytting vinnuvikunnar var hugtak sem enginn hafði heyrt á minnst. Það þótti sérstaklega gott ef hægt var að komast í nógu mikla yfirvinnu. Ég var 15 ára og fannst það meiri háttar.

Nú eru menn að fara á taugum þegar verðbólgan skríður yfir 4 prósent. Velkomin til 1982 þegar hún fór yfir 85 prósent. Og það rétt þegar við vorum að venjast því að hafa misst tvö núll aftan af krónunni árið áður. Stjórn efnahagsmála var sem sagt ekki til fyrirmyndar.

Þetta var tímabil einokunar, ríkisafskipta, hafta, forræðishyggju, einangrunar og fordóma. Það voru þrjár konur á þingi og engin þeirra var ráðherra. Það hafði verið prófað einu sinni og þótti víst ekkert spes.

Samtökin 78 höfðu verið til í fjögur ár og réttindi samkynhneigðra (sem er orð sem var ekki til þá) voru engin. Og við megum ekki gleyma því að Sovétríkin og þær systur allar voru í spriklandi fínu fjöri.

Hér voru tollar á nánast öllu, vöruúrval takmarkað, fáir veitingastaðir og ferðamenn svo til óþekkt hugtak. Íslendingar veiddu rúmlega hundrað þúsund tonnum meira af þorski en þeir gera nú. Samt var sjávarútvegurinn rekinn með tapi og bankarnir líka.

Við áttum eftir að bíða í sjö ár þar til okkur var talið óhætt að drekka bjór.

Það er sem sagt ágætt að velta því aðeins fyrir sér hvert við höfum farið á þessum tæpu 40 árum og stundum er bara í lagi að klappa okkur sjálfum á bakið og viðurkenna að við búum í heldur betra samfélagi frelsis, mannréttinda og hagsældar.

En jú. Það var samt rosalega gaman.