Mynd Chloe Zhao, „Hirðingjaland“, er tilnefnd til fernra Óskarsverðlauna.
Mynd Chloe Zhao, „Hirðingjaland“, er tilnefnd til fernra Óskarsverðlauna. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Los Angeles. AFP. | Chloé Zhao kann að vera fædd í Peking, en það er vestrið í Bandaríkjunum sem heillar hana og nú er hún með Hollywood í lófa sér.

Los Angeles. AFP. | Chloé Zhao kann að vera fædd í Peking, en það er vestrið í Bandaríkjunum sem heillar hana og nú er hún með Hollywood í lófa sér. Hún var tilnefnd til fernra Óskarsverðlauna á mánudag fyrir mynd sína „Hirðingjaland“ („Nomadland“) og á leiðinni er ofurhetjumynd úr herbúðum Marvel.

Zhao er 38 ára gömul og hefur getið sér orð fyrir myndir sem eru smærri í sniðum. „Hirðingjaland“ er innileg vegamynd um Bandaríkjamenn, sem flakka milli starfa og lifa úr tengslum við samfélagið í niðurníddum sendibílum, og var hún meðal annars tilnefnd fyrir besta leikstjórn og bestu mynd.

Hún er fyrsta konan til að landa fjórum Óskarstilnefningum sama árið og fyrsta litaða konan, sem fær tilnefningu fyrir bestu leikstjórn. Aðeins tvær vikur eru síðan hún öðlaðist sama sögulega sess og einum betur þegar myndin hlaut Gullhnöttinn.

Ástarbréf til villtrar víðáttu

„Kærar þakkir, samherjar mínir í Akademíunni, fyrir að viðurkenna þessa mynd, sem stendur hjarta mínu mjög nærri,“ sagði Zhao í yfirlýsingu, sem send var til bandarískra fjölmiðla á mánudag.

Myndin gerist á vegum úti í ókunnuglegum og strjálbýlum ríkjum á borð við Suður-Dakóta og Nebraska og má segja að „Hirðingjaland“ sé enn eitt ástarbréfið til villtrar víðáttu landsins, sem hún hefur ákveðið að gera að heimkynnum sínum.

Fyrsta mynd Zhao, „Söngvar sem bræður mínir kenndu mér“ („Songs My Brothers Taught Me“), fjallar um táning, sem dreymir um líf handan afskekktra byggða indíána í Pine Ridge í Suður-Dakóta. Hún varði þar mörgum mánuðum til að gera myndina.

Myndir frá byggðum Lakota-indíána urðu á vegi hennar fyrir tilviljun þegar hún var í kvikmyndaskóla í New York og hún vonaði að hún gæti sagt sögu, sem myndi „stuðla að því að bæta líf þeirra“, sagði hún í nýlegu viðtali við New York Magazine.

Zhao fékk verðlaun á hátíðum fyrir myndina, en leikstjórinn sló í gegn tveimur árum síðar með myndinni „Reiðmaðurinn“ („Rider“), sem einnig er í anda vestranna og var tekin í Pine Ridge og þjóðgarðinum Badlands, sem er þar skammt frá. Í „Hirðingjalandi“ snýr hún svo aftur á sömu slóðir.

Annar þráður, sem er sameiginlegur með myndum Zhao, er að nota ómenntaða leikara til að leika sjálfa sig með skálduðu ívafi.

„Reiðmaðurinn“ varð til eftir að Zhao hitti kúreka, sem hafði slasast á kúrekasýningu, en neitaði að hætta. Hann heitir Brady Jandreau og kemur fram í myndinni undir nafninu „Brady Blackburn“.

Í „Hirðingjalandi“ vann Zhao í fyrsta skipti með stórstjörnu úr kvikmyndaheiminum, Francis McDormand, sem unnið hefur tvenn Óskarsverðlaun. Hún hvatti hana hins vegar til að sækja í eigin lífsreynslu við að leika hlutverk „Fern“.

Zhao var skírð Ting. Hún fæddist í Kína og faðir hennar er auðugur stjórnandi stálfyrirtækis. Hún fór í heimavistarskóla á Bretlandi á táningsaldri og lauk námi í Los Angeles og New York.

Kölluð svikari í Kína

Árangri hennar var í upphafi fagnað í fæðingarlandi hennar og kölluðu ríkisfjölmiðlar hana „stolt Kína“. Hins vegar hafa gömul viðtöl við hana verið dregin fram þar sem hún virðist gagnrýna Kína og hefur það vakið hörð viðbrögð. Þar má sérstaklega nefna viðtal frá 2013 þar sem haft er eftir henni að Kína sé „staður þar sem lygar eru alls staðar“. Nú virðist ekki víst að „Hirðingjaland“ verði sýnt í Kína og á netinu hafa sumir stimplað hana „svikara“.

Næsta mynd Zhao nefnist „Hin eilífu“ („Eternals“) og er af allt öðrum toga en „Hirðingjaland“. Um er að ræða ofurhetjumynd úr framhaldsflokki Marvel og eru Angelina Jolie og Salma Hayek meðal leikara. Í febrúar var svo tilkynnt að Zhao myndi leikstýra vísindaskáldsöguvestraútgáfu af sögunni um hinn blóðþyrsta Drakúla. Eftir er að sjá hvernig Zhao gengur að taka stökkið yfir í stórmyndirnar, en sem stendur beinist athyglin að því hvernig henni muni ganga á Óskarsverðlaunahátíðinni í lok apríl og þar þykir hún standa nokkuð vel að vígi.