Fljótsdalur Tilkynnt var um úthlutun styrkja úr Samfélagssjóði Fljótsdals við athöfn í Óbyggðasetrinu í Norðurdal í Fljótsdal í fyrradag. Alls fengu átján umsækjendur úthlutun úr sjóðnum. Styrkir voru á bilinu 200 þúsund til 1.700 þúsund krónur, samtals 12,8 milljónir króna. Alls bárust þrjátíu umsóknir.
Fljótsdalur Tilkynnt var um úthlutun styrkja úr Samfélagssjóði Fljótsdals við athöfn í Óbyggðasetrinu í Norðurdal í Fljótsdal í fyrradag. Alls fengu átján umsækjendur úthlutun úr sjóðnum. Styrkir voru á bilinu 200 þúsund til 1.700 þúsund krónur, samtals 12,8 milljónir króna. Alls bárust þrjátíu umsóknir. — Ljósmynd/Samfélagssjóður – Friðrik Indriðason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Tvö verkefni fengu 1,7 milljóna króna styrk úr Samfélagssjóði Fljótsdals við úthlutun fyrir árið 2021.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Tvö verkefni fengu 1,7 milljóna króna styrk úr Samfélagssjóði Fljótsdals við úthlutun fyrir árið 2021. Skógarafurðir fengu styrk af þeirri fjárhæð fyrir framleiðslulínu fyrir flettingu á trjábolum og Sveinn Ingimarsson fékk sömu fjárhæð í tilraun til útfærslu Coanda-inntaks fyrir litlar virkjanir.

Þrjátíu umsóknir bárust um styrki að fjárhæð 35 milljónir kr. í heild en stjórn sjóðsins úthlutaði 18 styrkjum samtals að fjárhæð 12,8 milljónir kr.

Verksmiðja geymd í gámi

„Samfélagssjóðurinn vill greinilega ekki styrkja okkur. Þessi fjárhæð er verri en ekkert, við munum ekki þiggja hana. Það yrði bara til að binda mann í einhverja vitleysu,“ segir Jósef Valgarð Þorvaldsson, bóndi á Víðivöllum fremri í Fljótsdal. Hann og Hörður Guðmundsson, nágranni hans, keyptu tæki og búnað til sútunar eftir gjaldþrot félagsins sem rak sútunarverksmiðju Loðskinns á Sauðárkróki. Verksmiðjan er geymd í gámum og geymslum þar sem ekki hefur fundist hentugt verksmiðjuhúsnæði. Jósef Valgarð segir að þeir félagarnir hafi ráðist í þessa fjárfestingu vegna ábendingar sem þeir fengu frá fólki sem undirbjó Samfélagssjóð Fljótsdals. Þeir hafi orðið að ákveða sig á tveimur til þremur dögum. Fengu þeir stuðning úr Samfélagssjóðnum á síðasta ári, aðallega til að gera viðskiptaáætlun, og sóttu nú um stuðning til að afla viðskiptatengsla og hefja vöruþróun, og fengu vilyrði fyrir um 300 þúsund króna styrk. Jósef Valgarð segir að það dugi skammt, þótt jafn háu mótframlagi þeirra sé bætt við.

Jósef Valgarð segir að verksmiðjan sé ekki samkeppnishæf við erlendar stórverksmiðjur. Þeir hugsi sér sérvinnslu á ýmsum gærum og er meðal annars horft til leðursútunar á hreindýraskinnum. Þeir eru með ýmsar hugmyndir um vörur sem þeir gætu framleitt. Segir hann að þeir muni fara hægt af stað. Telur Jósef Valgarð líklegt að eitt til tvö heilsársstörf verði í byrjun og síðan ráðið í tímabundin störf þegar dauður tími er í öðrum atvinnugreinum í hreppnum.

Fjölbreytt verkefni

Samfélagssjóður Fljótsdals var formlega stofnaður fyrir ári með framlagi frá Fljótsdalshreppi og var fyrsta úthlutun á síðasta ári. Markmið hans er að styrkja verkefni á sviði atvinnu, nýsköpunar, umhverfis, velferðar og menningar sem stuðli að jákvæðri samfélagsþróun og eflingu atvinnulífs í sveitarfélaginu.