Jón Sigurðsson Nordal Ragnhildur Þrastardóttir Ekki liggur fyrir fyrr en í fyrsta lagi eftir helgi hvenær bólusetningar með bóluefni AstraZeneca hefjast á ný hér á landi, en hlé var gert á notkun þess í síðustu viku.

Jón Sigurðsson Nordal

Ragnhildur Þrastardóttir

Ekki liggur fyrir fyrr en í fyrsta lagi eftir helgi hvenær bólusetningar með bóluefni AstraZeneca hefjast á ný hér á landi, en hlé var gert á notkun þess í síðustu viku.

Ástæðan fyrir því voru áhyggjur af mögulegri blóðtappamyndun af völdum bóluefnisins, en Lyfjastofnun Evrópu tilkynnti á fimmtudag að efnið væri öruggt, tengdist ekki aukinni hættu á blóðtöppum og veitti mikla vernd gegn Covid-19. Stofnunin gat þó ekki útilokað tengsl á milli blóðtappa og bóluefnis AstraZeneca, en sagði að ávinningurinn af því væri meiri en hugsanleg áhætta.

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, segir tafirnar skýrast af þeirri ákvörðun embættisins að stækka umfang rannsóknarinnar á bóluefninu og áhrifum þess. „Við viljum fara aðeins betur yfir okkar gögn, og ráðfæra okkur nánar við nágrannaþjóðir okkar, sérstaklega Norðurlandaþjóðirnar,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is í gær. Heilbrigðisembætti á Norðurlöndum hafi gefið sér rýmri tíma en Lyfjastofnun Evrópu til að fara yfir málið, og Ísland hafi ákveðið að gera slíkt hið sama.

Frestað eftir tilkynningu

Í gær kom í ljós að Lyfjastofnun hafði borist önnur tilkynning um mögulega alvarlega aukaverkun í kjölfar bólusetningar með bóluefni AstraZeneca, en einstaklingur liggur nú á sjúkrahúsi vegna blóðtappa í lungum og er í lífshættu. Aðspurður segir Kjartan það atvik hafa átt einhvern þátt í frestun ákvörðunarinnar. Það hafi þó ekki úrslitaáhrif. „Þetta er bara önnur breyta sem er tekin inn í dæmið sem við erum að leggja upp,“ segir Kjartan. Hann væntir þess að ákvörðun um áframhaldandi notkun bóluefnisins muni liggja fyrir um miðja næstu viku.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fundaði stíft með sóttvarnalæknum hinna Norðurlandanna á fimmtudag, en þar er til skoðunar hvort möguleiki sé á að finna áhættuhópinn fyrir blóðsegamyndun (blóðstorknun) og þá sleppa bólusetningu með bóluefni AstraZeneca hjá þeim, en bjóða þeim sem ekki eru í áhættuhópum að fá bólusetningu. Upp hafa komið blóðsegavandamál hjá konum undir 55 ára aldri eftir bólusetningu með efninu, og því gæti verið heppilegra að gefa frekar karlmönnum og eldri konum bóluefnið, ef í ljós kemur að þeir hópar séu ekki í áhættu.

Aðspurður segir Þórólfur að kórónuveiran geti almennt valdið blóðtöppum, og að áhættan á slíku sé mun meiri hjá þeim sem fá sjúkdóminn en þeim sem fá bólusetningu. „Það má ekki gleyma því að Covid sjálft getur valdið svona vandamálum þannig að ef allir fengju Covid þá yrði áhættan mun meiri.“