Borgarnes Unnið er að fjölgun lóða til úthlutunar þar í bæ, sem og á Hvanneyri og Kleppjárnsreykjum, en spurn eftir lóðum og íbúðarhúsnæði í Borgarbyggð allri er töluverð um þessar mundir.
Borgarnes Unnið er að fjölgun lóða til úthlutunar þar í bæ, sem og á Hvanneyri og Kleppjárnsreykjum, en spurn eftir lóðum og íbúðarhúsnæði í Borgarbyggð allri er töluverð um þessar mundir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Birna G. Konráðsdóttir Borgarfirði Á Iðunnarstöðum í Lundarreykjadal er fyrirhugað að opna nýtt hótel í sumar. Þar verða þrettán herbergi, matsalur og kaffihús.

Úr bæjarlífinu

Birna G. Konráðsdóttir

Borgarfirði

Á Iðunnarstöðum í Lundarreykjadal er fyrirhugað að opna nýtt hótel í sumar. Þar verða þrettán herbergi, matsalur og kaffihús. Það eru hjónin Hjördís Geirdal og Þórarinn Svavarsson sem standa að framkvæmdunum sem hófust á síðasta ári. Bærinn Iðunnarstaðir er staðsettur við svonefndan Uxahryggjaveg og liggur því ofarlega í Lundarreykjadal. Ekki langt frá bænum er Krosslaug, eða Reykjalaug í landi Reykja, heit laug sem nú er friðlýst. Sagt er að Vestlendingar hafi skírst þar til kristni árið 1000, þegar þeir riðu heim frá Þingvöllum, því þeir vildu ekki láta skírast í köldu vatni.

Steðji brugghús var fyrsta íslenska brugghúsið til að opna vefverslun með áfengi. Eigendurnir, Dagbjartur Arilíusson og Svanhildur Valdimarsdóttir, voru ókátir með hvernig Áfengisverslun ríkisins, ÁTVR, stóð að dreifingu á framleiðsluvörum þeirra og gripu því til þessa ráðs. Eigendur dreifa vörunni sjálfir til kaupenda og hafa verið tilbúnir að leita réttar síns hjá EFTA-dómstólnum, gerist þess þörf.

Netverslun er heimil á bjór samkvæmt EES-reglugerðinni, þ.e. hægt er að panta bjór erlendis frá og fá hann sendan heim í pósti án vandamála en Íslendingar geta ekki keypt íslenska framleiðslu á sömu kjörum. Nú hefur dómsmálaráðherra lagt fram frumvarp til laga um minni brugghús þar sem kveður á um að þau fái undanþágu frá einkaleyfi ÁTVR til að selja bjór frá framleiðslustað. Flest minni brugghúsin taka frumvarpinu fagnandi og álíta að nái það fram að ganga, muni rekstrargrundvöllur þeirra styrkjast. Í Borgarfirði er því spurt að leikslokum í þessu efni, sem víðar.

Töluverðrar óánægju hefur gætt meðal íbúa Borgarbyggðar með þjónustu HVE, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, í Borgarnesi. Bæði tekur langan tíma að fá símaviðtal við lækni og sama gildir um að komast í læknisheimsókn. Nefnir fólk að lítt skiljanlegt sé í nútímatækniumhverfi að ekki sé hægt að nýta lækna í símaviðtöl, þvert á starfssvæðið. Svo virðist einnig sem flótti frá stofnuninni sé orðinn staðreynd, ekki síst hjá ungu fólki með börn sem skráir sig á aðrar heilsugæslustöðvar, utan starfssvæðisins.

Í Skessuhorni liðinnar viku segir Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir, forstjóri HVE, að unnið sé að endurbótum en vandamálið sé margþætt.

HVE, var formlega stofnuð árið 2010. Starfssvæðið er Akranes, Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Skorradalshreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjörður, Helgafellssveit, Stykkishólmur, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Kaldrananeshreppur, Árneshreppur og Húnaþing vestra.

Í sveitarfélaginu Borgarbyggð e r unnið að fjölgun lóða til úthlutunar í þéttbýliskjörnunum Borgarnesi, Hvanneyri og Kleppjárnsreykjum, en spurn eftir lóðum og íbúðarhúsnæði hefur verið töluverð. Nýverið var undirritaður samningur við Slatta ehf. sem er í eigu þriggja verktakafyrirtækja í sveitarfélaginu, Steypustöðvarinnar, Borgarverks ehf. og Eiríks Ingólfssonar ehf.

Sveitarstjóri, Þórdís Sif Sigurðardóttir, tók fyrstu skóflustunguna að nýju íbúðarhverfi í svonefndu Bjargslandi í Borgarnesi fyrir skömmu. Framkvæmdaaðilar skuldbinda sig til að sjá um uppbyggingu svæðisins í heild hvar rísa munu fjölbýlishús, ásamt par- og raðhúsum. Einnig er stefnt að því að hluti lóða í hinu nýja hverfi verði boðinn til úthlutunar á almennum markaði en uppbygging svæðisins mun verða í samræmi við eftirspurn, hverju sinni.

Ferðafélag Borgarfjarðarhéraðs , FFB, var stofnað fyrir skömmu. Tilgangur félagsins er meðal annars að hvetja til gönguferða um allt land en ekki síst um Borgarfjarðarhérað. Einnig að stuðla að uppbyggingu og merkingu gönguleiða þar sem svokölluð Vatnaleið, frá Hítarvatni að Hreðavatni verður fyrsta verkefnið. Félagið verður deild innan Ferðafélags Íslands, FÍ, og þar með fá aðildarfélagar sömu kjör og félagsmenn í FÍ. Mikill áhugi var fyrir stofnun félagsins og var Gísli Einarsson fréttamaður kjörinn fyrsti formaður þess.

Rótarýklúbbur Borgarness hefur lagst á sveif með slökkviliði Borgarbyggðar og Neista, starfsmannafélagi liðsins, og hrundið af stað söfnun meðal fyrirtækja og almennings í Borgarbyggð og nágrenni til kaupa á stafrænum þjálfunarbúnaði fyrir slökkviliðsmenn. Um er að ræða fyrsta búnað sinnar gerðar hér á landi. Búnaðurinn kostar milli fimm og sex milljónir en slökkviliðið fékk nýverið styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands upp á eina milljón króna til þessa verkefnis. Með átakinu vill klúbburinn leggja sitt af mörkum til að koma þessu máli í farsælan farveg. Söfnunin stendur til 15. apríl næstkomandi og þeir sem vilja leggja lið geta greitt inn á reikning 0354-03-400624 , kt. 530586-2009 í Arion bankaí Borgarnesi fyrir 15. apríl nk.