Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson
Eftir Jón Gunnarsson: "Við verðum að setja samkeppnishæfi okkar í fyrsta sæti, stokka upp, núllstilla umræðuna og hefja aftur á réttum forsendum."

Mörg stór mál hafa borist Alþingi frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar á síðustu vikum, þ.ám. til umhverfis- og samgöngunefndar. Mál sem skipta hagsæld og velferð þjóðarinnar miklu á næstu árum og áratugum.

Ef veiruáfallið hefur kennt okkur eitthvað þá er það að við verðum að fjölga stoðunum undir verðmætasköpun þjóðarinnar og auka fjölbreytni í atvinnulífi. Vissulega hefur mikið áunnist í þeim efnum á undanförnum árum, en sannarlega höfum við ekki haldið vöku okkar nægjanlega. Má jafnvel segja að við höfum flotið sofandi að feigðarósi.

Kæruleysi og átök hafa um of einkennt umræðu um þessi mikilvægu mál, fjöregg þjóðarinnar. Nægir þar að nefna ágreining um nýtingu fiskveiði- og orkuauðlinda okkar. Frasakennd umræða um græna atvinnubyltingu byggða á rannsóknum, þróun og nýsköpun segir ekki nema hálfa söguna. Hvað kemur svo? Það sem skiptir öllu máli er hvað sagt er með B á eftir A.

Við munum áfram í grundvallaratriðum byggja á nýsköpun í undirstöðuatvinnugreinum okkar, þar sem þekking, reynsla og menntun mun skila okkur öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi sem treysta mun grunn þess velferðarsamfélags sem við höfum byggt upp.

Tökum nokkur dæmi um græna atvinnubyltingu, tækifæri sem liggja við fætur okkar.

Matvælaframleiðsla

Auk styrkingar hefðbundinnar landbúnaðarframleiðslu eigum við að auka mjög við framleiðslu okkar í ylrækt. Íslenskir bændur framleiða úrvalsvöru sem á sér ekki hliðstæðu þegar kemur að hreinleika. Lítil sem engin lyfjanotkun, hreint vatn og lífrænar varnir í stað eiturefna gefa okkur mikið forskot. Við verðum að hlúa að þessari grunnatvinnugrein okkar og nýta tækifærin sem liggja í forskoti okkar, til að hugsa stórt og hyggja á aukinn útflutning á næstu árum.

Fiskeldi

Það er að gjörbylta efnahag okkar og byggðaþróun í landinu, en deilur hafa um of skyggt á mikilvægi greinarinnar. Útflutningsverðmæti fiskeldisafurða af sömu stærð og helstu nytjastofnar okkar skila, eru í sjónmáli. Byggðafesta og aukin fjölbreytni í atvinnulífi á landsbyggðinni þar sem fiskeldis nýtur við er byltingakennd. Við gerum meiri kröfur til umhverfismála á þessu sviði en aðrar þjóðir og eigum að gera það. Aukin tækni og nýsköpun í greininni hafa gert allt rekstrarumhverfi hennar öruggara. Hér þarf að auka rannsóknir víðar með ströndinni til að áhættumeta reksturinn gagnvart umhverfinu. Í stað þess að leita lausna og sátta fara menn í skotgrafir, stríð er það sem við höfum síst efni á núna. Af gefnu tilefni má minna á að sjókvíaeldi er matvælaframleiðsla með eitthvert lægsta kolefnisspor allrar slíkrar framleiðslu í heiminum.

Gagnaver

Hér eru landfræðilegar aðstæður mjög hagstæðar fyrir rekstur gagnavera. Græn orka og veðurfar gera Ísland að mjög áhugaverðum stað fyrir slíkan rekstur. Nýr sæstrengur til gagnflutninga sem fyrirhugað er að leggja til Evrópu á næsta ári mun koma okkur á kortið sem vænlegri staðsetningu með tilliti til öruggra tenginga. Við þurfum einnig að vinna að því með bandamönnum okkar í vestri að nýr sæstrengur verði lagður hingað frá Norður-Ameríku, slík ráðstöfun myndi valda byltingu. Hér er á ferðinni iðnaður sem við eigum að leggja áherslu á að fari sem víðast um hinar dreifðu byggðir. Þá fáum við alvörukaupendur að raforku sem greiða munu fyrir nauðsynlega styrkingu dreifikerfisins. Ef ekki koma til slíkir kaupendur munum við sem fyrir erum í kerfinu þurfa að greiða reikninginn með hærri dreifikostnaði á raforku.

Eldsneytisframleiðsla

Hér eigum við gríðarleg tækifæri í heimi þar sem öll áhersla mun vera á orkuskipti í stóra samhenginu. Vetnisframleiðsla með okkar grænu orku leikur hér aðalhlutverk. Við erum eyland ótengt öðrum löndum og þannig verður það. Lokað kerfi raforkuframleiðslu okkar mun verða mun hagkvæmara og skila sér í betri nýtingu með miklum ávinningi og aukningu á samkeppnishæfi landsins gagnvart orkukaupendum. Aðrar þjóðir sem hafa langt frá því sömu tækifæri og við, eru með stór áform um aukningu í raforkuframleiðslu einmitt til þess að framleiða vetni vegna orkuskipta.

Rafhlöður

Hröð þróun í framleiðslu þeirra gegnir lykilhlutverki í hröðun orkuskipta. Við höfum nýlega heyrt af viðræðum Landsvirkjunar við áhugasöm fyrirtæki sem framleiða rafhlöður í farartæki, stór og smá. Græna orkan okkar er grundvöllur áhuga þessara fyrirtækja sem eru í gríðarlegri nýsköpun í þessari framleiðslu og við munum sjá eftirspurn margfaldast á næstu árum. Samkvæmt talsmanni eins af orkufyrirtækjum okkar má reikna með að slíkri framleiðslu fylgi þúsundir hátæknistarfa og gríðarleg útflutningsverðmæti.

Núllstilling

Hægt er að halda áfram að telja upp tækifærin sem liggja við fætur okkar. Hér hef ég sagt B, í stað þess að tala frasakennt og innistæðulaust um græna atvinnubyltingu á grundvelli nýsköpunar, rannsókna og þróunar.

Öll þau tækifæri sem ég hef hér farið yfir eru stórkostleg nýsköpun í umhverfisvænum iðnaði sem munu gjörbylta tækifærum fyrir framtíðarkynslóðirnar. Öll byggð á traustum grunni reynslu og þekkingar sem þegar er til staðar í landinu.

Á sama tíma og án þess að við lítum til þessara tækifæra eru menn í fullri alvöru að leggja til bann við nýtingu þeirra auðlinda sem gera okkur samkeppnishæf til að innleiða þessa nýsköpun í grænum iðnaði. Við verðum að setja samkeppnishæfi okkar í fyrsta sæti, stokka upp, núllstilla umræðuna og hefja aftur á réttum forsendum.

Aukin áhersla á menntun í iðn-, tækni- og raunvísindum, þar sem við gefum sjálfstæðum skólum sömu tækifæri og opinberum, mun leiða okkur inn í forystuhlutverk í nýsköpun, rannsóknum og þróun. Á grundvelli þeirrar þróunar munum við takast á við tækifæri framtíðar með skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda okkar sem grunn að því sterka velferðarsamfélagi sem við viljum byggja.

Höfundur er alþingismaður.

Höf.: Jón Gunnarsson