Valgarður Egilsson fæddist 20. mars 1940 á Grenivík og ólst upp í Hléskógum í Höfðahverfi. Foreldrar hans voru hjónin Egill Áskelsson, f. 1907, d. 1975, bóndi þar, og Sigurbjörg Guðmundsdóttir, f. 1905, d. 1973, húsfreyja.

Valgarður Egilsson fæddist 20. mars 1940 á Grenivík og ólst upp í Hléskógum í Höfðahverfi. Foreldrar hans voru hjónin Egill Áskelsson, f. 1907, d. 1975, bóndi þar, og Sigurbjörg Guðmundsdóttir, f. 1905, d. 1973, húsfreyja.

Valgarður keppti í hlaupi og sundi á yngri árum og setti Íslandsmet í 500 metra bringusundi 1958.

Hann lauk prófi í læknisfræði frá HÍ árið 1968 og doktorsgráðu frá Lundúnaháskóla tíu árum síðar. Hann starfaði sem sérfræðingur í frumumeinafræði við Rannsóknastofu Háskóla Íslands frá árinu 1979 og var yfirlæknir 1997-2010 er hann lét af störfum. Hann var klínískur prófessor við læknadeild HÍ frá 2004.

Valgarður var virkur í félagsmálum á ýmsum áhugasviðum, meðal annars formaður Listahátíðar í Reykjavík og varaforseti Ferðafélags Íslands. Hann sinnti leiðsögn ferðamanna og skrifaði í Árbækur FÍ. Eftir Valgarð liggur fjöldi vísindagreina, leikrit, ljóðabækur, endurminningabækur og smásögur.

Eiginkona Valgarðs er Katrín Fjeldsted, f. 1946, læknir og fyrrverandi alþingismaður. Þau eignuðust fjögur börn, en fyrir átti Valgarður eina dóttur.

Valgarður lést 17.12. 2018.