Baksýnisspegillinn hentar kannski aðeins til að sýna glötuð tækifæri, en það er aldrei of seint að hrifsa frumkvæðið

Um fjögur hundruð milljónir manna hafa nú verið bólusettar í heiminum. 11 daga tók að gefa síðustu hundrað milljón skammtana, en rúma tvo mánuði að gefa fyrstu hundrað milljónirnar.

Langhraðast hefur gengið í Ísrael þar sem þrír af hverjum fimm hafa nú verið bólusettir einu sinni og helmingur íbúa fengið seinni skammtinn. Næst koma Bretland og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Athygli vekur að Chile er í fjórða sæti. Þar hafa 28% íbúa verið bólusett, nokkru meira en í Bandaríkjunum.

Chile er fremst í flokki í Suður-Ameríku og langt á undan Evrópusambandinu. Þar í landi eru 200 þúsund manns bólusett á dag.

Í Der Spiegel er rætt við Soledad Martínez, sérfræðing um heilbrigðismál, um sérstöðu Chile. Hún segir að stöðuna í Chile megi rekja til þess að strax hafi verið gengið í að tryggja nægt bóluefni til að bólusetja alla fullorðna íbúa landsins tvisvar og gengið hafi verið frá samningum snemma. Samið var áður en rannsóknum var lokið og gengið frá samningum við helstu framleiðendur óháð hvar þeir væru í heiminum, sem sagt allt frá Biontech/Pfizer og AstraZeneca á Vesturlöndum til Spútnik í Rússlandi og Sinovac frá Kína. Menn höfðu ekki áhyggjur af að sitja uppi með of mikið af bóluefni því þá hefði verið hægt að gefa umframbirgðir eða selja.

Mest er bólusett með Sinovac í Chile. Það er ekki öflugasta bóluefnið, en Martínez svarar því til að það komi nánast alveg í veg fyrir alvarlegustu tilfellin. Áfram geti fólk hins vegar smitast og því þurfi einnig að viðhafa aðrar smitvarnir.

Íslensk stjórnvöld ákváðu að binda trúss sitt við Evrópusambandið í öflun bóluefnis í þeirri trú að það myndi tryggja meiri slagkraft en að fara sína leið.

Staðan í Chile er til marks um það hverju er hægt að fá áorkað með því að eiga frumkvæði. Evrópusambandið dró samninga á langinn og reyndi að prútta – og situr nú eftir. Í Chile var einfaldlega reynt að semja við sem flesta strax og gæta þess að hafa það mörg egg í körfunni að bólusetja mætti með því efni sem fyrst yrði farið að framleiða þegar prófunum lyki.

Baksýnisspegillinn hentar kannski aðeins til að sýna glötuð tækifæri, en það er aldrei of seint að hrifsa frumkvæðið.